Fréttir

1.7.2016

Rkl. Borgir sigraði í sveitakeppni golfmótsins

Árlegt golfmót rótarýklúbbanna fór fram á golfvellinum á Kiðjabergi í Grímsnesi 30. júní. Þátttakendur voru úr 11 rótarýklúbbum, um 50 manns alls. Þeir voru í ljómandi keppnisskapi og nutu útiverunnar í einstaklega fögru umhverfi  með útsýni til Hvítár og Hestvatns. Undirbúningur mótsins var í höndum Rkl. Reykjavík-Miðborg undir forystu Sólveigar Pétursdóttur. Aðalverðlaunin, hinn glæsilega farandbikar fyrir sveitakeppni klúbba, hlutu þau Guðmundur Ásgeirsson og Guðrún S. Eyjólfsdóttir í Rkl. Borgum, Kópavogi.

Veðrið var allrahanda og sumir kvörtuðu undan ágangi mýflugunnar. Golfnefnd rótarýklúbbsins tók á móti þátttakendum, þegar þeir mættu í golfskála Golfklúbbs Kiðjabergs. Í nefndinni voru Heimir Sindrason, Kristín Guðmundsdóttir, Jón Sigurðsson, Gunnar Svavarsson, Sólveig Pétursdóttir og Ásdís Rafnar.

Mótið hófst kl. 10 f.h. og lauk með léttum málsverði og verðlaunaafhendingu í golfskálanun á fimmta tímanum síðdegis. Um nónbil gerði skýfall svo um munaði en kappsfullir kylfingar létu það ekki trufla sig. Þegar fólkið kom í hús eftir 18 holur tók við útreikningur stiga. Í punktakeppni karla fékk Guðmundur Ásgeirsson 1. verðlaun, með 34 punkta. Jónína Magnúsdóttir fékk 1. verðlaun í punktakeppni kvenna, með 30 pt. Einar Magnússon hlaut 1.verðlaun og farandbikar í höggleik og fyrir besta skorið, með 30 punkta og 91 högg. Þær Kristín Guðmundsdóttir, Sólveig Pétursdóttir og Ásdís Rafnar afhentu  fjölda verðlauna sem veitt voru fyrir góðan árangur á ýmsum sviðum keppninnar, auk  útdreginna vinninga eftir skráningarkortum. Mörg fyrirtæki studdu mótshaldið með því að gefa fjölbreytileg verðlaun.

Í lokin þakkaði Sólveig Pétursdóttir samstarfsfólki sínu  fyrir alla undirbúningsvinnuna og rótarýfélögum fyrir þátttökuna. Hún tilkynnti ennfremur að Rkl. Reykjavík Árbær myndi sjá um golfmótið að ári.   Myndasyrpa frá golfmótinu. Smellið hér


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning