Skráningu skjalasafns umdæmisins senn lokið
Undanfarið ár hefur verið unnið að skráningu skjala og annarra gagna er snerta sögu Rótáry á Íslandi og hafa um langan aldur verið geymd á skrifstofu umdæmisins. Samkomulag var gert við Þjóðskjalasafn Íslands um varðveislu gagnanna til frambúðar. Innan skamms lýkur skráningarverkefninu og verður skjalasafnið þá afhent Þjóðskjalasafninu.
Þeir Sigurður Egill Þorvaldsson, fyrrv.ritari Rótarýklúbbsins Reykjavík Árbær og Jón ÁsgeirJónsson, félagi í Rkl. Görðum og fyrrv. formaður æskulýðsnefndar umdæmisins, hafa í rúmt ár haft aðsetur í húsnæði Þjóðskjalasafnins með bréf og bækur, myndir og blöð auk fána og annarra muna sem minna á starfsemi Rótarý
á Íslandi. Fjöldi bréfa og skjala hefur verið gífurlegur eins og Jón Ásgeir staðfesti með því að sýna bréfasklippuhauginn sem safnast hafði upp. Flest er efnið tengt starfsemi umdæmisskrifstofunnar og varðar samskipti hennar við Rotary International og íslensku klúbbana. Ennfremur eru gögn frá nokkrum af rótarýklúbbunum í þessu safni.
„Ég kom í heimsókn á skrifstofu umdæmisins vegna starfa minna fyrir Árbæjarklúbbinn,“ sagði Sigurður Egill. „Þá varð mér litið inn í geymsluna, sem stóð opin, og við mér blasti heilmikið magn af alls kyns pappírum og öðrum forvitnilegum hlutum. Ég hafði orð á því við Margréti Sigurjónsdóttur, skrifstofustjóra, að þarna væri verk að vinna við skráningu og varðveislu. Hún tók mig á orðinu og fól mér að ganga í verkið.“
Snemma árs 2015 lagði Guðbjörg Alfreðsdóttir, þáverandi umdæmisstjóri til við umdæmisráðið að leitað yrði samstarfs við Þjóðskjalasafnið um varðveislu skjalasafnsins. Erindinu var vel tekið og kom Jón Ásgeir, sem er fyrrverandi starfsmaður Þjóðskjalasafns, að verkefninu með Sigurði Agli.
Þeir félagar hafa unnið að flokkun og skráningu gagnanna reglulega þrjá morgna í viku. Viðfangsefnið er fjölbreytilegt enda kennir margra grasa í safni Rótarý.
„Aðallega eru þetta gögn umdæmisins. Hins vegar hafa margir klúbbarnir úti um land komið söfnum sínum í umsjá bæjar- eða héraðsskjalasafna,“ útskýrði Jón Ásgeir. „Það er til fyrirmyndar, því að þannig koma þau að mestu gagni sem heimildir fyrir fræðimenn og aðra sem þurfa á staðbundnum upplýsingum að halda. Til dæmis hafa fundargerðarbækur rótarýklúbbanna oft að geyma sögulegar heimildir langt aftur í tímann úr bæjarfélögum, þar sem klúbbar hafa starfað.“
Nú sér fyrir endann á vinnu þeirra Jóns og Sigurðar og er vonast til að afhending skjalasafnsins til Þjóðskjalasafns geti farið fram sem liður í því að minnst er 70 ára afmælis íslenska rótarýumdæmisins á þessu ári.
Texti og myndir MÖA