Fréttir

2.6.2016

Undirbúningsfundir vegna morgunklúbbs í Reykjavík

Að undanförnu hefur verið unnið að undirbúningi að stofnun nýs rótarýklúbbs í Reykjavík. Verður það morgunklúbbur til að mæta óskum þeirra sem látið hafa í ljós áhuga á að koma saman til fundar undir merkjum Rótarý árla morguns, áður en haldið er til vinnu.

Góð reynsla af morgunklúbbsstarfi hefur fengist í Rkl.Borgum í Kópavogi og Rkl. Straumi Hafnarfirði. Sömuleiðis hefur hinn nýstofnaði Rkl. Hof í Garðabæ valið sér þennan fundartíma.

Halldóra Gyða Matthíasdóttir, formaður félagaþróunar- og útbreiðslunefndar umdæmisins, hefur verið í forystu fyrir undirbúningshópi sem starfar að málinu í náinni samvinnu við Magnús B. Jónsson, umdæmisstjóra. Haldnir hafa verið þrír fundir með væntanlegum félögum og hefur Vigdís Stefánsdóttir, félagi í Rkl. Grafarvogs, umsjón með undirbúningsstarfinu nú. Næsti fundur fyrir alla áhugasama um að ganga í nýja klúbbinn verður haldinn á skrifstofu rótarýumdæmisins, Suðurlandsbraut 54, miðvikudaginn 8. júní kl. 8 f.h.

Rkl. Borgir Kópavogi verður móðurklúbbur hins nýja klúbbs og miðlar af þekkingu sinni sem morgunklúbbur með víðtæka reynslu af vel heppnuðu klúbbstarfi og verkefnum. Þá mun Rótarýklúbbur Reykjavíkur veita fjárhagslegan stuðning. Ekki er enn ljóst hvar fundir nýja klúbbsins verða haldnir. Það mun ráðast á næstunni en hins vegar er mikil áhersla lögð á að fundum hans verði lokið eigi síðar kl. 8.45.

                                                                                                                                                          Texti og myndir MÖA


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning