Fréttir

2.6.2016

Rkl. Hof hélt glæsilegan fullgildingarfund í maílok

„Framtíðin er björt hjá Rótarýklúbbnum Hofi,“, sagði Gísli B. Ívarsson, forseti klúbbsins á fullgildingarfundi sem klúbburinn hélt í húsakynnum Golfklúbbs Garðabæjar, þriðjudaginn 31. maí sl. Fundurinn hófst kl. 18.00 að þessu sinni en fundir morgunklúbbsins Rkl. Hofs í Garðabæ eru venjulega haldnir á fimmtudögum kl. 7.45 til 8.45. Gísli  bauð klúbbfélaga og aðra gesti velkomna í hin glæsilegu húsakynni golfklúbbsins en það hefur einmitt verið ákveðið að halda fundi Rkl. Hofs þar framvegis.

Á fullgildingarfundinum voru Magnús B. Jónsson, umdæmisstjóri og eiginkona hans Steinunn S. Ingólfsdóttir og félagar úr Rkl. Hofi og Rkl. Görðum sem jafnframt er móðurklúbbur Rkl. Hofs. Einnig voru mættir ýmsir aðrir rótarýfélagar og embættismenn og síðast en ekki síst voru makar rótarýfélaganna einnig viðstaddir. 

Áður en formleg fundarstörf hófust léku nemendur í tónlistarskóla Garðabæjar á hljóðfæri. Eiríkur Þorbjörnsson, fyrrv. forseti Rkl. Görðum, tók við fundarstjórn og voru veitingar fram bornar. Síðan tók Gísli B. Ívarsson aftur til máls og gerði grein fyrir aðdraganda að stofnun Rkl. Hofs og starfseminni til þessa.

Magnús B. Jónsson, umdæmisstjóri, afhenti Gísla B. Ívarssyni fullgildingarskjal og setti forsetakeðjuna um háls hans.

 Auglýst eftir áhugasömu fólki

Fram kom hugmynd á starfsári Guðbjargar Alfreðsdóttur sem umdæmisstjóra að stofnaður yrði morgunklúbbur í Garðabæ og að rótarýklúbburinn Görðum yrði móðurklúbburinn. Auglýst var í Garðapóstinum og á Facebook eftir áhugasömum aðilum til þess að taka þátt í því að stofna hinn nýja klúbb í Garðabæ og voru haldnir tveir kynningarfundir í skátaheimilinu Jötunheimum.  Lýst var eftir áhugasömum aðilum til þess að leiða stofnun klúbbsins og störfuðu eftirtalin í undirbúningshópnum:  Guðbjörg Alfreðsdóttir, Halldóra Gyða Matthíasdóttir, Eiríkur Þorbjörnsson, Gísli B. Ívarsson, Anna Lára Másdóttir, Tinna Rán Ægisdóttir, Hildur Sólveig Pétursdóttir, Elín Gräns, Arnþrúður Jónsdóttir og Ragnar Þórður Jónasson.

Þessi hópur hittist nokkrum sinnum á vormánuðum 2015. Stóri dagurinn rann síðan upp 4. júní þegar stofnfundur var haldinn og voru  stofnfélagar 33. Fyrsta stjórn var kjörin og í henni eiga sæti: Gísli B. Ívarsson forseti, Hildur Sólveig Pétursdóttir, viðtakandi forseti, Anna Lára Másdóttir, varaforseti, Elín Gränz, ritari, Tinna Rán Ægisdóttir, gjaldkeri og Ragnar Þórður Jónasson, stallari. Hinn 11. júní 2015 var framhaldsstofnfundur haldinn og fram fór stefnumótun og klúbbþing sem Sigríður Hulda Jónsdóttir stýrði.

Nafnið „Rótarýklúbburinn Hof“ varð fyrir valinu eftir kosningu en stungið var upp á nokkrum nöfnum og þurfti nokkrar umferðir í kosningu til þess að fá nafnið fram. Þá var og kosið um að fara með hefðbundna fjórprófið í bundnu máli í lok funda en Einar Ragnarsson sem var félagi Gísla í Rkl. Rvík-Árbæ samdi það. 

Karl og kona til skiptist á forsetastóli

„Við höfum viðhaft lýðræðisleg vinnubrögð við allt sem við höfum gert eða ákveðið í klúbbstarfinu,“ sagði Gísli. „Ákvörðun var tekin um að vera með karl og konu til skiptis sem forseta klúbbsins.“

Fljótlega í byrjun klúbbstarfsins voru nokkrir félagar úr Rkl. Görðum fengnir til þess að vera með þriggja mínútna erindi á fundum í Rkl. Hofi.  Stjórnarmenn tóku síðan við og frá því hafa verið þriggja mínútna erindi á öllum hefðbundnum fundum. Einnig er boðið upp á fréttaskot og hafa klúbbfélagar þá fengið að frétta af einu og öðru. Merki og fáni klúbbsins hefur verið hannaður en nokkrar tillögur voru lagðar undir félagana á fundi. Það var Eysteinn Jónasson sem vann þessar tillögur. Eiríkur Þorbjörnsson og Halldóra Gyða Matthíasdóttir afhentu Rkl. Hofi veglegan klúbbfána að gjöf frá klúbbi þeirra, Rkl.Görðum.

Rkl. Hof tók þátt í Rótarýdeginum í samvinnu með Rkl. Görðum. Framlag hans þar var að bjóða upp á leiðsögn vegna markmiðssetningar til nemenda í Fjölbrautarskóla Garðabæjar. Þetta mæltist mjög vel fyrir og það mættu mun fleiri en reiknað var með í upphafi. Helga Jóhanna Oddsdóttir, félagi í klúbbnum, sá um þetta verkefni fyrir klúbbsins hönd en hún er markþjálfi og fékk starfsfélaga sína til þátttöku með sér í þessari vinnu.

Þá þakkaði Gísli nokkrum aðilum utan klúbbsins fyrir að hafa stutt stofnun hans með ráðum og dáð. Þau eru: Guðbjörg Alfreðsdóttir, Eiríkur Þorbjörnsson, Kolbrún Jónsdóttir, Halldóra Gyða Matthíasdóttir og Magnús B. Jónsson.

„Við getum verið stolt af því sem nú þegar hefur verið gert,“ sagði Gísli B. Ívarsson í lok máls síns. „Og athugið að þetta er helst að þakka formönnum nefnda og félögunum og þeim sem hafa lagt inn góð ráð til okkar. Rótarýklúbbur verður aldrei betri en það sem við félagarnir leggjum inn í hann.“

Í fundarlok var farið merð fjórprófið í bundnu máli, svohljóðandi:

Er það satt og er það rétt?  Er það siður fagur?  Verður af því vinsemd þétt?  Vænkast allra hagur?

                                                                                                                                     Myndirnar tók Klara Lísa Hervaldsdóttir



Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning