Fréttir

16.3.2016

Forsetar og ritarar gera klárt fyrir næsta starfsár

Verðandi stjórnir rótarýkúbbanna eru nú sem óðast að ganga frá verkefnaáætlunum sínum fyrir næsta starfsár. Einn liður í undirbúningsstarfinnu er fræðslumót fyrir forseta og ritara, sem fram fór í Menntaskólanum  í Kópavogi sl. laugardag.

Þátttakendur tóku daginn snemma, hittust yfir morgunkaffi kl. 8.15 og hófu fundarstörfin kl. 9.00 með setningarávarpi Magnúsar B. Jónssonar, umdæmisstjóra, Rkl. Borgarness. Því næst kynntu þær Hanna María Siggeirsdóttir, Rkl. Miðborg, og Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, Rkl. Görðum, störf nefnda umdæmisins sem þær veita forstöðu, Hanna María æskulýðsnefndar og Halldóra Gyða félagaþróunar og útbreiðslunefndar. Hanna María hvatti klúbbana til öflugri þátttöku í nemendaskiptum og sumarbúðastarfi sem nefndin vinnur að en í máli Halldóru kom m.a. fram að fram fer athugun á stofnun nýs rótarýklúbbs á Hvammstanga og morgunklúbbur í Reykjavík er í undirbúningi.

Veigamikill hluti af fræðslumótinu var helgaður hagnýtri kennslu, sem Guðni Gíslason, vefstjóri, Rkl. Hafnarfjarðar, annaðist. Farið var vandlega yfir notkun á vefsíðum umdæmisins og Rotary International fyrir utanumhald margvíslegra upplýsinga sem forystumenn klúbba þurfa að standa skil á og nú fara fram rafrænt. Skráningar á rotary.is og rotary.org hlutu ítarlega skoðun. Jafnframt flutti Guðmundur Jens Þorvarðarson, verðandi umdæmisstjóri, kynningu á hlutverki forseta og ritara í klúbbstarfinu. Einnig gerði Eyþór Elíasson, Rkl. Héraðsbúa grein fyrir starfi aðstoðarumdæmisstjóranna, sem hann gegnir ásamt Estheri Guðmundsdóttir, Rkl. Miðborg, og Garðari Eiríkssyni, Rkl. Selfoss.

Á fundi síðdegis var fjallað um nokkra mikilvæga áhersluþætti sem snerta störf rótarýklúbbanna. Birna G. Bjarnadóttir, formaður Rótarýsjóðsnefndar, Rkl. Borgum, greindi frá hlutverki sjóðsins og fjármögnun hans. Ragnar Jóhann Jónsson, formaður Polio Plus nefndar umdæmisins, Rkl. Akureyrar, fjallaði um baráttuna við lömunarveiki og útrýmingu hennar. Sesselja Ómarsdóttir, Rkl eRótarý Ísland,  sem sæti á í námsstyrkjanefnd, sagði frá námsstyrkjum í nafni Rótarýhreyfingarinnar. Markús Örn Antonsson. Rkl. Breiðholts, ræddi um heimasíðuna rotary.is og Sveinn H. Skúlason, Rkl. Breiðholts, fulltrúi umdæmisins í útgáfustjórn Rotary Norden, útskýrði breytingar á útgáfu tímaritsins sem auk prentaðs blaðs birtist nú rafrænt á tölvuvefslóð eða með appi fyrir spjaldtölvur og snjallsíma.

Fræðslumótinu lauk með starfi umræðuhópa þar sem rædd var stefnumótun og starfsáætlanir klúbba. Guðbjörg Alfreðsdóttir, fyrrverandi umdæmisstjóri, Rkl. Görðum, stýrði umræðum. Í þeim var m.a. leitað svara við spurningunum: Hvernig ætla ég að efla rótarýklúbbinn? Nýir þættir í starfi klúbbsins? Margrét Friðriksdóttir, skólameistari, umdæmisleiðbeinandi og félagi í Rkl. Borgun, stýrði umræðum ásamt aðstoðarumdæmisstjórum.

Í erindi sínu á fræðslumótinu gerði Guðmundur Jens Þorvarðarson grein fyrir áhersluatriðum sínum í starfi umdæmisstjóra 2016-2017. Þau eru aðallega þessi: Styrkja og efla veika klúbba/greina veikleika og styrkleika. Fjölga félögum. Bæta við klúbbum. Rótarýdagur festur í sessi. Heimasíðumál klúbbanna komist í viðunandi horf. Allir klúbbar sinni a.m.k. einu samfélagsverkefni. Framlag hvers félaga til Rotary Foundation Annual Fund verði 100 USD með félagsgjöldum eða fjármagnað á annan máta. Efla starf Rotaract. Kynna efni á rotary.org frá forseta Rotary International.

                                                                                                                                                                  Texti og myndir MÖA


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning