Rótarý með í Mottumars
Krabbameinsfélag Íslands hóf Mottumars hinn 1. mars sl. og leitaði þá eftir samstarfi við Rótarý og fleiri samtök og þjónustuklúbba um að kynna innan sinna vébanda nýtt fræðsluefni um krabbamein í blöðruhálskirtli.
Afhending fræðsluefnisins fór fram í kynningarskyni um borð í varðskipinu Þór sem sigldi með gesti stutta ferð út frá Reykjavík. Í björgunarboxinu sem svo er nefnt, er fræðsluefni sem vonast er til að komist á dagskrá rótarýklúbbanna. Þannig læri fólk að þekkja einkenni og orsakir krabbameins í blöðruhálskirtli. Það tekur aðeins um 10-15 mínútur að sýna myndefnið og skoða bæklingana. Áhöfn varðskipsins og fulltrúar frá Rótarý, Lions. Kiwanis, Oddfellow o.fl. fengu afhent box með fræðsluefninu.
Magnús B. Jónsson, umdæmisstjóri Rótarý, tók við björgunarboxi um borð í Þór ásamt Knúti Óskarssyni, sem er tilnefndur umdæmisstjóri 2017-2018. Í framhaldi af þessu frumkvæði Krabbameinsfélagsins sendi Magnús eftirfarandi tilmæli til allra forseta rótarýklúbba hinn 2. mars sl.:
“Ég var í gær viðstaddur athöfn um borð í varðskipinu Þór, þegar verkefni Krabbameinsfélagsins „Mottumars“ var hleypt af stokkunum. Veitti þar fyrir hönd Rótarý viðtöku björgunarboxi með kynningarefni og kynningarmyndböndum um blöðruhálskrabbamein sem er áhersluverkefni að þessu sinni. Við móttökuna var upplýst að öllum rótarýklúbbum verði sent samskonar björgunarbox til kynningar í klúbbunum.
Ég vil nú hvetja alla klúbba til að taka þetta á dagskrá nú í mars eða apríl og kynna þetta efni fyrir félögunum.
Með rótarýkveðju
Magnús B. Jónsson
Umdæmisstjóri"
Krabbameinsfélagið stefnir að því að fræðsluefnið verði komið fyrir páska til allra klúbba sem hyggjast taka það á dagskrá. Hægt er að panta björgunarboxið fyrir hvern klúbb með því að senda tölvupóst á netfangið bjorgunarbox@gmail.com. Þar þarf að koma fram nafn klúbbsins, nafn móttakanda og hvert eigi að senda boxið auk fjölda þeirra, sem mætir jafnaðarlega á fundi. Þeir sem vilja geta sótt björgunarbox til Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð 8 í Reykjavík en það þarf að láta vita af því með tölvupósti á bjorgunarbox@gmail.com.