Fréttir

7.3.2016

Rkl. Rangæinga veitti björgunarsveitum viðurkenningu

Rótarýklúbbur Rangæinga hélt upp á 50 ára afmæli sitt í Gunnarsholti fimmtudaginn 25. febrúar sl. og efndi þá til ráðstefnu um náttúruvá í Rangárþingi í samvinnu við Landgræðsluna.

Rkl. Rangæinga hefur aðsetur á Hvolsvelli og eru félagar í honum um 20 talsins. Meðal viðstaddra var Ólafur Ólafsson, einn af stofnendum klúbbsins. Magnús B. Jónsson, umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi, var umræðustjóri.

Í næsta nágrenni Hvolsvallar er virkasta eldfjallasvæði landsins þannig að öryggismál eru yfirvöldum og almenningi í héraðinu  mjög ofarlega í huga. Ráðstefnan var haldin í aðalstöðvum Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti og tóku landsþekktir vísindamenn þátt í henni. Þeir fjölluðu um breytta tíma í náttúruvá og hvernig byggðir geta búið sig undir náttúruhamfarir. Fulltrúar almannavarna fluttu einnig fyrirlestra.

Í tilefni af afmælinu ákvað rótarýklúbburinn að heiðra tvær björgunarsveitir sem hafa verið mjög öflugar í öryggisstörfum vegna síðustu eldsumbrota á Suðurlandi, þ.e. björgunarsveitirnar á Hvolsvelli og á Hellu. Starf sveitanna hefur einnig orðið æ mikilvægara með auknum ferðamannastraumi um svæðið, ekki síst að vetrarlagi, þegar illa undirbúið ferðafólk leggur land undir fót og lendir í erfiðleikum. Á ráðstefnunni tóku þau Magnús Þór Einarsson, formaður björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hvolsvelli, og Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir, formaður flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu, við viðurkenningu fyrir lofsvert framlag björgunarsveitanna til almannavarna á svæðinu.

Guðmundur Halldórsson, forseti klúbbsins, formenn björgunarsveitanna Magnús Þór Einarsson og Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir, Magnús B. Jónsson, umdæmisstjóri  Rótarý, og Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri. 


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning