Fréttir

1.2.2016

Ávarpsorð Guðrúnar Pétursdóttur

Flutt á stórtónleikum Rótarý 3. janúar 2016

Í upphafi hinna árlegu stórtónleika Rótarý, sem fram fóru í Norðurljósasal Hörpu hinn 3. janúar sl., flutti Guðrún Pétursdóttir, dósent og rótarýfélagi í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Austurbær, ávarpsorð. Hér á eftir er ávarpið birt í heild sinni.

Kæra frú Vigdís, heiðruðu hátíðargestir,

Ég vil byrja á því að þakka mínum – og okkar allra- sæla fyrir Jónas Ingimundarson,  hvílík heillastjarna skein yfir þessu landi þegar hann fæddist hér – og svo vil ég þakka Jónasi sjálfum fyrir að sýna mér það traust og veita mér þann heiður að fá að ávarpa ykkur hér í kvöld.

Jónas Ingimundarson, píanóleikari, skipuleggjandi stórtónleika Rótarý frá upphafi, ásamt Magnús Baldvinssyni,einsöngvara.

Það er margt sem mig langar að ræða við ykkur - Við lifum undarlega tíma. Ósamrýmanlega blöndu ofgnóttar og örbirgðar sem leiðir til skeytingarleysis – við lifum blöndu hömluleysis og einstrengingsháttar – tíma þar sem siðferðisleg viðmið mást út – þar sem markalínur góð og ills – þess sem rétt er og rangt – verða óljósar og þokukenndar. Það er hættulegt – þarna verða mörkin að vera skýr, við verðum að gera okkur grein fyrir hver við erum og hvað við ætlum að standa fyrir.

Ég heyri viðvörunarbjöllur hringja -  því okkar tímar minna á aðra tíma, þegar menn töpuðu áttum í skeytingarlausri léttúð og sáu ekki hættumerkin hrannast upp:  í aðdraganda heimstyrjaldarinnar síðari. Þetta er ærið umræðuefni - en ég ætla ekki að ræða það – ég vil heldur leiða hugann að því sem lyftir andanum og hjálpar okkur að finna hver við erum og hvar stóru verðmætin liggja. Í kvöld komum við saman til að njóta tónlistar og heiðra framúrskarandi tónlistarmenn. Mig langar að tala um tónlistina – og sérstaklega um tónlist á Íslandi.

Langamma mín spilaði á gítar. Í litla rauða húsinu þeirra Mörtu Maríu Pétursdóttur og Indriða Einarssonar, sem fram undir aldamótin síðustu stóð enn við Tjörnina og margir muna eftir – en er nú á mótum Túngötu og Garðastrætis, gult að lit,  - í þessu litla rauða húsi var allt fullt af músíkölskum krökkum. Átta systkini syngjandi margraddað og afinn Pétur Guðjohnsen dómorganisti. Það þurfti að hafa fyrir tónlistinni. Hún streymdi ekki út úr boxi í brjóstvasanum, eða fylgdi manni hvert fótmál inni og úti eins og í dag. Ef einhver vildi hlusta á tónlist varð hann að skapa hana eða vera staddur þar sem aðrir spiluðu og sungu. Þá kom sér vel að langamma átti gítar, því á hann gat hún ekki aðeins spilað undir sönginn, heldur var gítarinn það hljóðfæri sem heimstónverkin hljómuðu á. Að hugsa sér að þessi mikla músíkmanneskja, þessi kona sem elskaði tónlist, skyldi aðeins einu sinni allt sitt líf fá að heyra fullskipaða hljómsveit spila! Það gerðist þegar hún heimsótti Láru dóttur sína í Kaupmannahöfn. Langamma slökkti sinn tónlistarþorsta með því að spila sinfónísk tónverk útsett fyrir gítar. Mig tekur sárt að hugsa til þess, en þegar ég hlusta á Fílharmóníukórinn kemst ég við þegar ég horfi á kórstjórann Magnús Ragnarsson og ýmsa frændur hans og frænkur í kórnum, sem fæst vita af því að þau eru skyld, en eru öll afkomendur í fjórða lið konunnar með gítarinn í litla rauða húsinu við Tjörnina. Sú fengi nú gæsahúð við að hlusta á þau færa fram hvern gimstein tónbókmenntanna á fætur öðrum, nú síðast í Kristskirkju um hátíðarnar.

Það er okkur hollt að muna, hvað stutt er síðan tónlist var fágæti á Íslandi.

Nú er tónlistin alls staðar og af öllu tagi, - nótt sem nýtan dag. Okkur finnst tónlist sjálfsögð, eins og hún spretti af sjálfri sér – en hún gerir það ekki – tónlist þarf jarðveg – það þarf að sá fyrir henni og hlú að henni, svo hún nái að vaxa og dafna – eins og hún hefur gert hér á landi undanfarna áratugi – uns svo er komið að bókaþjóðin er orðin að tónlistarþjóð – tugþúsundir hafa lært á hljóðfæri og í hverju byggðarlagi eru kórar – margir kórar og menn ferðast langa leið í illviðrum til að missa ekki af æfingu.

Þessi gróðurþekja hefur ekki sprottið af sjálfri sér. Hún varð til vegna þess að framsýnir menn, sem vita hvar sönn verðmæti liggja, hlúðu að tónlistarmenntun og tónlistariðkun hér á landi á síðustu öld – á tímum þegar Ísland var langt frá því að teljast til auðugustu þjóða heims í þjóðartekjum talið.

Nú hafa þeir hátt sem finnst tónlistarmenntun vera munaður. Þeir sem vilji leyfa sér þennan munað, verði einfaldlega að greiða fyrir hann fullu verði sjálfir – eins og þetta séu þeirra einkaverðmæti, sem samfélagið eigi ekki að þurfa að taka þátt í. En bíðum við: Er tónlist munaður? Er hún list hinna fáu útvöldu? Er nokkur staður í samfélagi heyrenda sem tónlist nær ekki til?

Hvernig yrði að hafa enga tónlist, þótt ekki væri nema í einn dag? Enga tónlist neins staðar. Ég bið ykkur að fara í huganum í gegnum venjulegan dag, kæru gestir. Morgunútvarpið? Engin tónlist milli viðtala, frétta, veðurs osfrv, - bara talað mál, sem fljótlega verður ansi gráleitt því það vantar fjölbreytileikann: tal,-tal,-tal. Aumingja útvarpsfólkið þarf að finna efni í allan þennan tíma, sem teygist langur og grimmur áfram, áfram, því í dag er engin tónlist í útvarpinu - allan liðlangan daginn!  Sumir fara í leikfimi á leið til vinnu: hvernig gengur að fá stóran hóp til að hreyfa sig í takt og fyllast eldmóði án uppörvandi tónlistar? Engin tónlist á vinnustað, í bílum, í verslunum, enginn morgunsöngur í skólunum, hvergi tónlist á bílaverkstæðum eða trésmiðjum og hárgreiðslustofum, útfarir og brúðkaup án tónlistar - sálmar lesnir. Engin tónlist hjá gamla fólkinu, engin tónlist í sjónvarpinu, ekki heldur um borð í fiskiskipunum, engin tónlist í heyrnartólum fiskvinnslukvennanna. Hvergi dansað því það er engin tónlist. Þetta yrði undarlegur og erfiður dagur og allir þeirri stund fegnastir þegar eðlilegt ástand kæmist aftur á. Tónlistin er nefnilega alls staðar!

En tónlistin verður ekki hrist fram úr erminni. Til þess að við hin fáum notið, verða einhverjir að ná þeirri færni, með löngu námi og þrotlausum æfingum hvern dag, að á þá sé hlustandi. En þá má spyrja: Þurfum við, dvergþjóðin, að halda uppi þessari starfsemi hér á landi? Það er nóg til af góðu tónlistarfólki erlendis, þar sem samfélögin eru stærri og hafa betur efni á að halda því uppi. Af hverju flytjum við ekki bara inn tónlist? Við gerum það hvort sem er í ríkum mæli.

Meðan ég skrifaði þetta var ég að hlusta á hljómdisk með tónlistinni hans Skúla Halldórssonar. Þar er Álfadans - létt og leikandi píanóverk, afdráttarlaust íslenskt, sem leiðir hugann að tunglbjartri vetrarnótt þar sem dimmar hæðir lykja um ísi lagða tjörn. Og þar dansa álfar, álfkonur sloppnar úr barnsnauð með aðstoð húsfreyju, huldumenn á sauðskinnsskóm. Okkar álfar,  sem við þekkjum úr þjóðsögunum og ævintýrum. Íslensk vetrarnótt, hrein og tær og fersk eins og ískalt vatn.  Og svo er það sumarið - eitthvert al-yndislegasta lag sem ég veit er Sofnar lóa - sem ber í sér kyrrð íslenskrar vornætur, gyllta birtu og dalalæðu, - við þekkjum hana öll: hún er sú nóttlausa voraldar veröld sem Stephan G. saknaði. Með fyrstu tónum þessa lags er hún komin til manns, hvar og hvenær sem er. Orðalaust sviptir tónlistin manni milli heima, leiðir fram myndir með öllu: sjón, heyrn, ilman, smekk og tilfinningu.

Hvers vegna kallar íslensk tónlist fram íslenskan veruleika? Hvað er það við hana, sem við finnum að kemur héðan? Brennið þið vitar er um ómælisauðnir myrkra stranda og beljandi hafið, bráðan lífsháska og hrikalegan einmanaleika við okkar strendur, - ekki þær spönsku. Það vinnur hver úr sínum efniviði – sjálfsmynd þjóðar er best lýst í þeim listaverkum sem hún býr til. Eins og við getum ekki hætt að skrifa íslenskar bókmenntir og bara flutt inn bækur þó nóg sé til af þeim, getum við heldur ekki hætt að semja og flytja tónlist á Íslandi.

Þess vegna verðum við að standa vörð um tónlistarmenntun og tónlistarflutning á Íslandi. Þess vegna erum við hér í kvöld – ég er stolt af því að Rótarýhreyfingin hefur, með Jónas Ingimundarson í broddi fylkingar,  í meira en áratug fagnað nýju ári með stórtónleikum þar sem ungir framúrskarandi tónlistarmenn eru heiðraðir og styrktir til frekari afreka – og gestir fá að njóta listsköpunar okkar fremstu tónlistarmanna, sem gert hafa garðinn frægan erlendis, borið heiður Íslands um allan heim.

Það er sannarlega þakkarvert að fá að vera hluti af slíkum viðburði og ég þakka fyrir það. Gleðilega tónlistarframtíð góðu gestir!

Magnús Baldvínsson, Ásta Kristín Pjetursdóttir, víóluleikari, og Sigrún Björk Sævarsdóttir, sópran. Þær Ásta og Sigrún hlutu verðlaun úr tónlistarsjóði Rótarý 2016.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning