Fréttir

5.1.2016

Stórtónleikar og afhending styrkja í Hörpu

Hin árlegu tónlistarverðlaun Rótarý voru afhent á stórtónleikum, sem haldnir voru í Norðurljósasal Hörpu sl. sunnudag, 3. janúar. Tvær ungar listakonur, þær Ásta Kristín Pjetursdóttir, víóluleikari, og Sigrún Björk Sævarsdóttir, sópransöngkona, fengu styrki úr tónlistarsjóði Rótarý til framhaldsnáms,  að upphæð kr. 800 þús. hvor. Myndin var tekin við afhendingarathöfnina.  Á henni eru f.v. Magnús B. Jónsson, umdæmisstjóri Rótarý, Ásta Kristín Pjetursdóttir, Sigrún Björk Sævarsdóttir, og Erlendur Hjaltason, formaður stjórnar tónlistarsjóðsins. Stórtónleikar Rótarý í upphafi nýs árs eru löngu orðnir glæsileg hefð í tónlistarlífinu.

Erlendur Hjaltason, formaður stjórnar Tónlistarsjóðs Rótarý og félagi í Rkl. Reykjavík Austurbær, flutti ávarp og kynnti ákvörðun stjórnarinnar um úthlutun  verðlaunanna að þessu sinni:

“Við í stjórn Tónlistarsjóðs Rótarý viljum óska ykkur gleðilegs árs og jafnframt óska Rótarýhreyfingunni til hamingju með enn eina úthlutun á Tónlistarverðlaunum Rótarý, en í ár erum við að verðlauna sautjánda og átjánda tónlistarmanninn sem fá styrk úr sjóðnum. Sjóðurinn, sem var stofnaður árið 2003 hóf styrkveitingar árið 2005.

Í ár sóttu 20 efnilegir tónlistarmenn um styrk úr sjóðnum, en sjóðurinn verðlaunar efnilega tónlistarmenn sem hyggjast gera tónlist að framtíðarstarfi sínu.  Allir þessir einstaklingar uppfylltu kröfur sjóðsstjórnar um verðlaun, en í ár ákvað umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi, Magnús B Jónsson, að tvenn verðlaun yrðu veitt, og fær hvor verðlaunahafi kr 800 þúsund í sinn hlut.

Verðlaunin hljóta í ár þær Ásta Kristín Pjetursdóttir víóluleikari og Sigrún Björk Sævarsdóttir, sópran.  Þær hafa náð langt í námi, unnið til verðlauna hér á landi og erlendis og hafa getað valið um þá skóla sem þær sækja. 

Ásta Kristín stundar nú nám við Det Kongelige Danske Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn, en hún hefur meðal annars unnið Nótuna og Einleikarakeppni Tónlistarskólans í Reykjavík

Sigrún Björk stundar nú nám við Hochschule für Musik und Theater Felix Mendelsohn i Leipzig, og er að syngja við óperuhús í Leipzig og Halle í Þýskalandi.

Hér er framtíðartónlistarfólk á ferðinni, og vert er að gefa gaum listanum yfir þá 18 ungu  tónlistarmenn sem hlotið hafa verðlaun Tónlistarsjóðs Rótarý, en nöfnin eru að finna í dagskránni sem þið eruð með. 

Að vanda hefur Jónas Ingimundarson sett saman dagskrána og stýrt undirbúningi tónleikanna, en það hefur Jónas gert frá upphafi.

Ég vil biðja þær Ástu Kristínu og Sigrúnu Björk að koma hér upp og taka við verðlaununum af umdæmisstjóra, Magnúsi B Jónssyni,” sagði Erlendur í lok ávarps síns.

Stórtónleikar Rótarý í Norðurljósasal Hörpu voru hinir glæsilegustu.  Sérstakur ráðgjafi og skipuleggjandi dagskrárinnar var nú sem fyrr Jónas Ingimundarson, píanóleikari, og félagi í Rkl. Reykjavíkur.  Magnús B. Jónsson, umdæmisstjóri, bauð gesti velkomna og færði öllum sem komið höfðu að undirbúningi tónleikanna bestu þakkir, ekki síst félögum sínum í Rótarýklúbbi Borgarness, sem sáu um framkvæmdaratriði að þessu sinni. Framkvæmdastjóri tónleikanna af hálfu klúbbs umdæmisstjóra var Kristján Rafn Sigurðsson.

Guðrún Pétursdóttir, félagi í Rkl. Reykjavík Austurbær, flutti ávarp og fjallaði einkanlega um eflingu tónlistar og tónmennta á Íslandi frá því á 19. öld. Hún benti á þau gífurlegu áhrif sem tónlistin hefur á allt daglegt líf Íslendinga og hversu mikilvægt það er að hlúa að tónlistarkennslu í landinu og styðja unga listamenn á þessu sviði til að þróa hæfileka sína.

Kynnir á tónleikunum var Bergþór Pálsson, einnig félagi í Rkl. Reykjavík Austurbær, sem leysti það hlutverk einkar vel af hendi með sinni óþvinguðu og skemmtilegu sviðsframkomu. Meginuppistaða í dagskrá stórtónleikanna að þessu sinni var söngur Magnúsar Baldvinssonar, bassasöngvara með píanóleik Jónasar Ingimundarsonar. Magnús flutti ýmis íslensk sönglög og einnig óperuaríur. Hann hefur mörg undanfarin ár starfað við óperuhús erlendis, fyrst í Bandaríkjunum og síðan 1994 sem fastráðinn söngvari við óperuhús í Þýskalandi, síðan 1999 við óperuna í Frankfurt. Hann hefur ennfremur komið fram sem gestasöngvari víða um lönd, einkum í óperum eftir Verdi og Wagner. Magnúsi var ákaft fagnað og þakkað fyrir frábæran söng með langvinnu lófataki.

Þá komu verðlaunahafar tónlistarsjóðsins einnig fram.  Ásta Kristín Pjetursdóttir, víóluleikari, flutti Prelúdíu úr svítu nr. 3 eftir J.S. Bach og Sigrún Björk Sævarsdóttir, sópran, söng Gígjuna eftir Sigfús Einarsson við texta Benedikts Gröndals, og Fyrirgefðu fífill eftir Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson, úr óperunni Ragnheiður.  

Síðan gekk Bergþór Pálsson fram á sviðið og söng með Sigrúnu dúett úr óperunni Don Giovanni eftir W.A.Mozart. Helga Bryndís Magnúsdóttir lék á píanóið. Milli atriða höfðu þau Helga og Jónas Ingimundarson skemmt gestum með því að leika fjórhent á flygil. Það var mál manna að þessir stórtónleikar Rótarý hefðu sannarlega staðið undir nafni og sem fyrr verið glæsileg nýárshátíð Rótarý með afburðagóðu listafólki.

                                                                                            Texti og myndir MÖA

 


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning