Fréttir

19.12.2015

Stórtónleikar Rótarý í Hörpu 3. janúar

Stórtónleikar Rótarý 2016 verða í Norðurljósasal Hörpu sunnudaginn 3. janúar n.k. og hefjast kl. 20. Þar verða tveimur ungum tónlistarmönnum einnig afhentir styrkir úr Tónlistarsjóði Rótarý á Íslandi. Það eru óperusöngvarinn Magnús Baldvinsson, bassi, og Jónas Ingimundarson, píanóleikari, sem verða burðarásarnir á tónleikunum, en einnig koma þar fram verðlaunahafar tónlistarsjóðsins. Jónas hefur stýrt tónleikadagskránni frá upphafi.  Kynnir tónleikanna er Bergþór Pálsson.

Magnús Baldvinsson hóf söngnám að tillögu Harðar Áskelssonar sem stofnaði Mótettukór Hallgrímskirkju og var Magnús einn af stofnfélögum hans. Fyrstu kennarar hans voru Már Magnússon, Dóra Reyndal og Guðmundur Jónsson. Eftir nám við Söngskólann í Reykjavík fór hann til Bloomington í Indiana og var þar hjá Professor Roy Samuelsen. Þaðan lá leiðin til San Fransisco þar sem Magnús tók þátt í Merola Opera Program og var síðan boðið að verða Adler Fellow í tvö ár. Eftir að hafa síðan ferðast með La Traviata með Western Opera Theater víða um Bandaríkin, eða 36 fylki, lá leiðin til Evrópu.

Síðan 1994 hefur Magnús starfað við nokkur óperuhús sem fastráðinn söngvari en síðan 1999 við óperuna í Frankfurt. Hann hefur  komið víða fram í Þýskalandi, Bandaríkjunum, Norðurlöndum og Japan. 

Magnús hefur lagt mikla áherslu á ítalskar óperur, sérstaklega óperur eftir Verdi, þar sem hann hefur komið fram í 17 af 26 óperum hans, m.a. sem Zaccarias í Nabucco, Banco í Macbeth, Walter í Luisa Miller, Massimiliano í I Masnadieri og Procida í I vespri Siciliani. Wagner hefur skipað stórann sess sem og Mozart og R. Strauss. 

Sem gestasöngvari hefur hann m.a. komið fram í Semperoper Dresden, Barcelona, NHK óperunni í Tokyo, Savonlinna Opera Festival í Finnlandi og Lissabon óperunni. Hann tók þátt í uppfærslu Þjóðleikhússins á Niflungahring Wagners og Á valdi örlaganna eftir Verdi.

Meðal hljómsveitastjóra hefur Magnús unnið með Sir Charles Mackerras, Nello Santi, Carlo Franci, Daniel Oren, Sebastian Weigle og Valerie Gergiev og með leikstjórum á borð við Harry Kupfer, Hans Neuenfels og Keith Warner.

Hér er því kærkomið tækifæri til að hlýða á Magnús syngja á Íslandi.

Guðrún Pétursdóttir, rótarýfélagi, mun í upphafi ávarpa tónleikagesti.

Magnús  og Jónas hefja svo tónleikana með því að flytja ýmis sönglög, íslensk og erlend, og í lok tónleikanna 3 glæsiaríur úr fjölbreyttu safni sem Magnús hefur verið að flytja erlendis á undanförnum árum.

Magnús B Jónsson, umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi, hefur ákveðið að veittir verði tveir styrkir úr Tónlistarsjóði, hvor að fjárhæð kr. 800.000.-. Stjórn sjóðsins hefur  valið tvo framúrskarandi unga tónlistarmenn úr hópi umsækjenda. Báðir verðlaunahafarnir munu koma fram á tónleikunum og miðað við það sem til þeirra hefur heyrst verða tónleikagestir ekki fyrir vonbrigðum, en verðlaunahafar 2016 eru:

Ásta Kristín Pjetursdóttir, víóluleikari, fædd árið 1996.  Hún lauk námi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík hjá Þórunni Ósk Marinósdóttur árið 2015, og hóf nám hjá Tim Frederiksen á Det Kongelige Danske Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn.  Ásta hefur starfað með Sinfóníuhljómsveit unga fólksins og Ungsveit Sinfóníuhljómsveitarinnar.  Ásta hefur bæði unnið Nótuna, uppskeruhátíð tónlistarskólanna og Einleikarakeppni Tónlistarskólans í Reykjavík.

Sigrún Björk Sævarsdóttir, sópran, fædd 1990.  Hún lauk námi frá Söngskólanum í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur árið 2013, en hún er nú við mastersnám í ópurusöng í Hochschule für Musik und Theater Felix Mendelssohn hjá Prófessor Roland Schubert.  Undanfarið ár hefur Sigrún sungið við óperurnar í Leipzig og Halle í Þýskalandi, en hún hefur sungið víða í Þýskalandi á undaförnum árum.

Í hléi verður boðið upp á freyðivín og konfekt.

Miðasala fer fram  í gegnum aðgang Rótarýfélaga að harpa.is og í miðasölu Hörpu frá 12-17 á virkum dögum. Tónleikarnir eru öllum opnir og því  er öllum frjálst að bjóða vinum og vandamönnum á meðan húsrúm leyfir. Eru félagar því hvattir til að ganga frá þeim kaupum fyrr en seinna. Miðaverð er kr. 5.000.- Athugið að óseldir miðar verða auglýstir almenningi til kaups milli jóla og nýárs.

Slóðin til að kaupa miða með rafrænum hætti er þessi:  http://harpa.is/dagskra/stortonleikar-rotary-2016


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning