Fréttir

15.10.2015

Fyrirlestrar og almenn þingstörf

Snemma á laugardagsmorgni 10. október hófst dagskrá umdæmisþings Rótarý í Borgarnesi með fyrirlestrum er tengdust þema þess: „Menntun-Saga-Menning.“

Jón Sigurðsson, fyrrverandi rektor Samvinnuháskólans á Bifröst, flutti erindi um menntasetur í Borgarfirði fyrr á tímum, Guðbjörg Björg Aðalsteinsdóttir, skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar, fjallaði um menntamál í Borgarfjarðarhéraði með sýn til framtíðar og Heiðar Lind Hansson, sagnfræðingur, sagði frá hernámsárunum og dvöl setuliðs í Borgarnesi.

Óskar Guðmundsson, rithöfundur, flutti erindi um miðaldasöguna og tengingu hennar við atvinnulífið. Bjarni Guðmundsson, forstöðumaður Landbúnaðarsafnsins á Hvanneyri fjallaði um atvinnumenningu í Borgarfjarðarhéraði.

Að lokum gerði Guðrún Jónsdóttir, forstöðumaður Safnahúss Borgarfjarðar, menningu, listum og söfnum í héraðinu ítarleg skil. Öll voru erindin full af fróðleik og vörpuðu skýru ljósi á þróttmikið menningarstarf og fjölbreytt athafnalíf fyrr og nú í Borgarfjarðarhéraði.

Ungir nemendur í Tónlistarskóla Borgarfjarðar fluttu tónlistaratriði undir stjórn kennara síns, Gunnars Ringsted, meðan hlé var gert á fyrirlestrum.

Guðbjörg Alfreðsdóttir, fyrrverandi umdæmisstjóri, flutti þinginu yfirgripsmikla ársskýrslu sína fyrir síðasta starfsár á fundi síðdegis og þakkaði samstarfsfólki sínu með lófataki. Gaf skýrslan glöggt til kynna hve þróttmikið starf var unnið á vegum Rótarý á Íslandi í embættistíð Guðbjargar. Einnig voru reikningar umdæmisins bornir upp til samþykktar. Þá komu fram fulltrúar helstu nefnda umdæmisins, þau Birna Bjarnadóttir, Rótarýsjóður, Erlendur Hjaltason,Tónlistarsjóður, Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, félagaþróun,  Eiríkur Arnarson, friðarstyrkir, og Klara Lísa Hervaldsdóttir,æskulýðsmál. Gáfu þau skýrslur um starfsemina á vegum nefnda sinna.

Jónas Ingimundarson, píanóleikari og Margrét Brynjólfsdóttir, söngkona, fluttu tvö lög við afbragðsundirtektir viðstaddra.

Í lok fundar fóru síðan fram pallborðsumræður með þátttöku fulltrúa í umdæmisráði, þ.e. núverandi og fyrrverandi umdæmisstjórum, sem svöruðu fyrirspurnum úr sal og lýstu eigin viðhorfum til margvíslegra atriða, sem rótarýfólki eru ofarlega í huga.

Þingstörfum lauk með því að Guðmundur J. Þorvarðarson, tilnefndur umdæmisstjóri 2016-2017, kom í pontu ásamt félögum sínum í Rkl. Kópavogs.  Guðmundur bauð til næsta umdæmisþings í Kópavogi í október á næsta ári. Meðan störf þingfulltrúa stóðu yfir fóru eiginkonur og eiginmenn ásamt erlendum gestum í „óvissuferð“ um Borgarfjarðarhérað.

Um kvöldið fór fram lokahóf þingsins, þar sem Gísli Einarsson, fréttamaður var veislustjóri. Viðurkenningar úr Verðlauna- og styrktarsjóði Rótarý á Íslandi voru afhentar, hinir erlendu gestir þingsins fluttu ávörp og fjórir erlendir skiptinemar sem  dveljast hér á landi í vetur á vegum Rótarý, voru kynntir. Theodóra Þorsteinsdóttir, skólastjóri Tónlistarskóla Borgarfjarðar, eiginmaður hennar og dætur sungu dægurlög og lög úr söngleikjum en að endingu var boðið upp í dans á Rótarýballi sem var lokaatriði á fjölbreyttu og skemmtilegu umdæmisþingi sem þátttakendur nutu einstaklega vel.

Texti og myndir MÖA



Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning