Fréttir

14.10.2015

Búdrýgindi ehf. fengu hvatningarverðlaun

Dagskrá fyrri dags umdæmisþingsins í Borgarnesi um síðustu helgi lauk með einkar ánægjulegum fundi Rótarýklúbbs Borgarness, sem fram fór í Hótel Borgarnesi eins og aðrir fundir umdæmisþingsins. Birna G. Konráðsdóttir, forseti klúbbsins, bauð gesti velkomna og stjórnaði dagskránni.

Við þetta tækifæri var klúbbfélaginn Þórir Páll Guðjónsson heiðraður fyrir ötult starf við öflun nýrra félaga og Daníel Ingi Haraldsson hlaut Paul Harris-viðurkenningu fyrir óeigingjarnt starf í þágu klúbbsins.  Þau Birna G. Konráðsdóttir og Jon Ola Brevig frá Fredriksten í Noregi skiptust á fánum rótarýklúbba sinna.

Þá fór fram verðlaunaafhending. Fyrirtækið Búdrýgindi ehf. í Andakíl hlaut hvatningarverðlaun Rótarýklúbbs Borgarness að upphæð 500 þús. kr. Fyrirtækið annast gerð efnis fyrir fjölmiðla og framleiddi m.a. sjónvarpsþáttaröðina „Hið blómlega bú“ í 22 þáttum sem sýndir hafa verið á Stöð 2. Eigendur Búdrýginda, þau Bryndís Geirsdóttir og Guðni Páll Sæmundsson, veittu verðlaununum viðtöku.

Daníel Ingi Haraldsson, Bryndís Geirsdóttir, Guðni Páll Sæmundsson og Eiríkur J. Ingólfsson. Daníel og Eiríkur afhentu verðlaunin fyrir hönd Rótarýklúbbs Borgarness.

Viðstaddir tóku hressilega undir með Þóri Páli Guðjónssyni sem stjórnaði fjöldasöng en hlýddu síðan á frásögn Kolfinnu Jóhannesdóttur, sveitarstjóra Borgarbyggðar, sem kynnti byggðarlag gestgjafanna.

Borgnesingurinn Margrét Brynjarsdóttir, altsöngkona, sem búsett er erlendis, vakti mikla athygli og hrifningu fyrir söng sinn síðar á dagskrá kvöldsins. Undirleikari hennar var Birgir Þórisson.

Á fundinum  voru flutt gamanmál af ýmsu tagi, þjóðdansaflokkur sýndi gömlu dansana með öflugri sveiflu og pilsaþyt og enn var sunginn fjöldasöngur með  þátttöku viðstaddra og áttu menn saman hina ánægjulegustu kvöldstund í boði Rótarýklúbbs Borgarness.

Texti og myndir MÖA


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning