Vönduð og fjölþætt setningardagskrá
Umdæmisþing Rótarý á Íslandi 2015, hið 70. í röðinni, var að þessu sinni haldið í umsjá Rótarýklúbbs Borgarness. Yfirskrift þess var „Menntun-Saga-Menning“. Þótti skipulag og framkvæmd þessa ársþings rótarýmanna af landinu öllu hafa tekist með miklum ágætum og verið gestgjöfunum til sérstaks sóma.
Þingið var sett sl. föstudag með ávarpi Magnúsar B. Jónssonar, umdæmisstjóra, sem bauð þingfulltrúa og gesti velkomna á þingið. Magnús er félagi í Rkl. Borgarness og búsettur á Hvanneyri. Hann vék að sögu rótarýklúbbsins í Borgarnesi, sem stofnaður var 1952 og hefur þjónað nærumhverfi sínu og rótarýhreyfingunni í landinu ötullega.
Þá fjallaði Magnús um stöðu Rótarý á Íslandi, styrkleika hreyfingarinnar og það sem betur mætti fara. Grundvallarhugsjónir í starfi rótarýmanna og veigamestu alþjóðlegu verkefnin voru honum ofarlega í huga og minnti Magnús á þau háleitu markmið, sem höfð væru að leiðarljósi hjá hreyfingunni en jafnframt þann góða félagsskap og skemmtun, sem félagar hefðu af veru sinni í klúbbunum. Að endingu kynnti Magnús þingforsetana, þau Þóri Pál Guðjónsson og Margréti Vagnsdóttur, Rkl. Borgarness, og tóku þau við fundarstjórn.
Þessu næst tók til máls Ekkehart Pandel, læknir frá Bückleburg í Neðra- Saxlandi, Þýskalandi, sem var fulltrúi K.R.Ravi Ravindran, alþjóðaforseta Rótarý. Flutti hann kveðjur forsetans og rakti megináherslur hans í starfi Rótarý fyrir yfirstandandi starfsár.
Jon Ola Brevig, sem er sjálfstætt starfandi ráðgjafi, flutti kveðjur norrænu umdæmanna. Hann er félagi í rótarýklúbbnum í Fredriksten í Noregi og býr á bóndabýli í Berg á Austfold. Hann gerði m.a. grein fyrir margvíslegum samfélagsverkefnum, sem klúbbarnir í umdæmi hans, alls 52 talsins, vinna að um þessar mundir á heimavettvangi og á alþjóðavísu.
Kristjana E. Guðlaugsdóttir, umdæmisstjóri Inner Wheel á Íslandi, samtökum eiginkvenna rótarýmanna, flutti kveðjur þeirra og vakti athygli á samvinnu við Rótarý sem þróast hefur á löngum tíma, allt frá stofnun Inner Wheel árið 1923 í Manchester í Bretlandi. Inner Wheel starfar nú að mannúðarmálum í meira en 100 löndum víða um heim.
Milli ávarpanna fluttu nemendur í Tónlistarskóla Borgarness tónlistaratriði. Þá kynnti umdæmisstjóri Knút Óskarsson, verðandi umdæmisstjóra 2017-2018, og eiginkonu hans Guðnýju Jónsdóttur formlega fyrir rótarýfélögum.
Hátíðarræðuna á þingsetningarfundinum flutti Héðinn Unnsteinsson, stefnumótunarsérfræðingur og rithöfundur. Hugleiðingar Héðins vöktu óskipta athygli viðstaddra. Ræðan birtist í heild sinni hér.
Athöfninni í Borgarneskirkju lauk með því að minnst var 16 rótarýfélaga, sem létust á síðasta starfsári. Ljós voru tendruð á jafnmörgum kertum. Séra Brynjólfur Gíslason, félagi í Rkl. Borgarness, annaðist þá athöfn ásamt Magnúsi B. Jónssyni, umdæmisstjóra.
Eftir að forsetar og ritarar klúbba höfðu þingað í málstofum héldu þingfulltrúar og gestir í heimsókn í landbúnaðarsafnið á Hvanneyri, þar sem fyrirtækið Ljómalind í Borgarnesi bauð upp á veitingar. Gestir skoðuðu sýningargripi í safninu og hjá mörgum vöknuðu greinilega ljúfar minningar þegar þeir litu gömul heyvinnslutæki og dráttarvélar enda margir sem dvöldust á æskuárum við landbúnaðarstörf að sumarlagi í sveitum landsins.
Texti og myndir MÖA