Fréttir

15.8.2015

Fulltrúi alþjóðaforseta Rótarý í heimsókn

Per Høyen, sem sæti á í framkvæmdastjórn Rotary International fyrir rótarýsvæðin í Evrópu, nr.15 og 16, sat fund með Magnúsi B. Jónssyni, umdæmisstjóra, ásamt nokkrum öðrum leiðtogum íslenska rótarýumdæmisins fimmtudaginn 13. ágúst sl. 

Á fundinum voru til umræðu brýnustu viðfangsefni alþjóðahreyfingarinnar sem núverandi alþjóðaforseti  K.R. "Ravi" Ravindran  hefur falið nánustu samstarfsmönnum sínum að fjalla um á fundum með forystu umdæma víða um heim.

Per Høyen, Rkl. Årup, er mjög öflugur í starfi Rótarýhreyfingarinnar í Danmörku og hefur gegnt fjölmörgum lykilstöðum innan hennar. Hann var umdæmisstjóri í umdæmi 1460, Fjón og Suður-Jótland, og Litháen meðan landið heyrði undir danska umdæmið. Per og kona hans Annette Løwert, sem einnig er fyrrverandi umdæmisstjóri Rótarý, voru gestir á umdæmisþinginu á Ísafirði 2012.

Auk þeirra Pers og Magnúsar sátu fundinn Guðmundur Jens Þorvarðarson, verðandi umdæmisstjóri 2016-2017, Knútur Óskarsson, tilnefndur umdæmisstjóri 2017-2018, aðstoðarumdæmisstjórarnir Esther Guðmundsdóttir, Eyþór Elíasson og Garðar Eiríksson, Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppe, formaður félagaþróunarnefndar og Birna Bjarnadóttir, formaður rótarýsjóðsnefndar.

Markmið alþjóðaforsetans rædd ítarlega

Eftir að Magnús B. Jónsson, umdæmisstjóri, hafði boðið gestinn velkominn hóf Per Høyen mál sitt með því að ræða leiðir til að miðla, ná fram og fylgja eftir markmiðunum sem fram koma í stefnuyfirlýsingu alþjóðaforsetans. Umræðunni var sérstaklega beint að félagaþróun, hvernig fjölga mætti rótarýfélögum og tryggja að náð verði þeim markmiðum sem klúbbar hafa sett sér í þeim efnum.

Þá var einnig fjallað um nýsköpun innan hreyfingarinnar og starf Rotaract-klúbba unga fólksins, nauðsynlega fjölgun skráðra rótarýfélaga á My Rotary- vefsvæði alþjóðahreyfingarinnar, verkefnið End Polio Now og önnur mál.

„Fundurinn er haldinn til þess að koma á framfæri áherslum alþjóðaforseta Rótarý um starfið á komandi ári og einnig kynna stöðu og starf Rótarý hér á landi,“ sagði Magnús B. Jónsson, umdæmisstjóri íslenska rótarýumdæmisins.  „Það er lögð mikil áhersla á að nútímavæða hreyfinguna og efla notkun netsins í starfinu. Hið síunga viðfangsefni um félagaþróun er mikið rætt og hvað væri árangursríkast í því að auka hlut ungs fólk og kvenna í rótarýhreyfingunni.“

Áhersla á aukinn hlut kvenna og breytta aldursskiptingu

Í markmiðssetningu 2015-2016 fyrir rótarýumdæmin nr. 15 og 16 kemur m.a. fram að stofnaður verði a.m.k. einn nýr klúbbur í hverju umdæmi. Þá er stefnt að því að konum fjölgi um 2% frá fyrra ári. Aldurshlutfalli verði breytt með því að fjölga rótarýfélögum 40 ára og yngri um 2%.

Fram kom í inngangsorðum Pers Høyen að félagafjöldi stæði í stað eða færi  minnkandi í Rótarý á svæðum 15 og 16 en Ísland er þar undantekning. Klúbbunum helst illa á nýjum félögum. Þessi þróun segir til sín víða. Aðstæðurnar kalla á aukinn sparnað á öllum verkefnasviðum og umræður um endurskoðun á grundvallarreglunum, sem alþjóðaforsetinn vill beita sér fyrir.

Breytt fundaform og reglur um fundarsókn til umræðu

Fram kom að víða þykir það of dýrt að vera félagi í Rótarý. Per benti á að oft væru rótarýfélagar að borga mun hærri heildarverð á ári í mat á fundum en til Rótarý. Hann benti t.d. á að klúbbar á Nýja Sjálandi hefðu aðeins kaffi og kex á sínum fundum. Það væri umhugsunarvert hvort aðrir ættu líka að breyta til, hætta að kaupa máltíðir en hafa ef til vill með sér samloku á fundina í staðinn.

Þá reynist það oft erfitt fyrir ungt fólk að mæta vikulega á rótarýfund. Þess vegna væri til umræðu að gera mætingar sveigjanlegri, t.d. tvisvar í mánuði og hvetja jafnframt til þess að félagar yrðu þá með á fundum hjá e-klúbbum á Internetinu og gerðu meira af því að sækja rótarýfundi erlendis, því margir eru á faraldsfæti.

Í umfjöllun sinni greindi Magnús B. Jónsson, umdæmisstjóri,  frá markmiðum íslenska umdæmisins um að fjölga félögum á árinu um 40 enda einn klúbbur nýstofnaður. Þá eru málefni Rotaract sérstaklega til skoðunar og er kannað hvort kleift verði að stofnsetja nýjan klúbb í tengslum við háskólasamfélagið á Akureyri.

Eftir fundinn sagði Magnús B. Jónsson, umdæmisstjóri:

 „Hvað okkur varðar ræddum við allmikið um hvernig væri unnt að aðstoða klúbba að halda uppi öflugu klúbbstarfi og hvetja til meira samstarfs og samvinnu. Nefndur var möguleiki á stofnun sk. „hjáleigu(satellite)“ klúbba þar sem ekki er unnt að fá nægilegan fjölda til að stofna rótarýklúbb. Þá vakti það athygli Pers hversu vel okkur gengur að fjölga í hreyfingunni sem er öfugt við það sem gerist í nágrannalöndunum. Í heild var fundurinn árangursríkur og fróðlegur og ég held okkur, sem þar vorum, til gagns.“

                                                                                                                                                             Texti og myndir MÖA

 


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning