Fréttir

22.6.2015

Fjölþjóðlegt sumarbúðastarf Rótarý stendur yfir

Fjölþjóðlegar sumarbúðir starfa á vegum rótarýumdæmisins á Íslandi á tímabilinu 19.- 28. júní. Ellefu erlendir þátttakendur, 17 og 18 ára, sex stúlkur og fimm piltar, eru komnir frá níu löndum. Hópurinn heldur í skoðunarferðir víða um Suður- og Vesturland og við hin ýmsu tækifæri fer fram kynning á náttúru Íslands, menningu og þjóðfélagsmálum. Jafnframt segja þátttakendur frá heimalöndum sínum.

Að sögn Hönnu Maríu Siggeirsdóttur var helginni varið á Suðurlandi og farið í kynnisferðir. Rkl. Selfoss og Rkl. Rangæinga sáu um móttökur og buðu gistingu fyrir hópinn. Mánudaginn 22. júní er ráðgerð ferð frá Landeyjahöfn til  Vestmannaeyja þar sem Rkl. Vestmanneyja tekur á móti gestunum.

Á þriðjudag liggur leiðin til Þingvalla og um Hvalfjörð til Vesturlands með gistingu á Innri-Kóngsbakka á vegum Rkl. Reykjavík Austurbær. Daginn eftir verður haldið til Stykkishólms, Eldfjallasafnið skoðað og líklega siglt milli nærliggjandi Breiðafjarðareyja.

Eftir ferð umhverfis Snæfellsjökul á fimmtudag verður haldið suður í Garðabæ, þar sem Rkl. Görðum tekur á móti hópnum og sér um kvöldmat og gistingu í skátaheimilinu Jötunheimum.

Föstudeginum 26. júní verður m.a. varið til sundiðkana. Dagskrá hluta úr degi verður í umsjón Rkl. Borga Kópavogi en að öðru leyti frjáls dagur. Laugardagur 27. júní er lokadagur heimsóknarinnar og byrjar hann í sundlaug í Garðabæ en heimsókn í Hvalasafnið í Reykjavík fylgir á eftir. Síðan er gert ráð fyrir að hópurinn hitti félaga úr Rotaract-klúbbnum Geysi síðdegis. Lokahóf verður svo haldið í skátaheimilinu í Garðabæ en Rkl. Hafnarfjarðar sér um að flytja hópinn á Keflavíkurflugvöll daginn eftir.

Erlendu þátttakendurnir í sumarbúðunum koma frá Frakklandi, Hollandi, Ítalíu, Litháen, Noregi, Rúmeníu, Slóvakíu, Tékklandi og Tyrklandi. Þeir greiða sjálfir EUR 300 til æskulýðsnefndar umdæmisins sem getur því greitt hluta kostnaðar við t.d. ferðir, mat, sund eða aðra viðburði.

.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning