Landspítalanum afhent tæki að gjöf frá Rótarý
Rótarýhreyfingin á Íslandi hefur fært Landspítalanum Háskólasjúkrahúsi að gjöf nýjan ljósgjafa til notkunar við skurðaðgerðir á spítalanum. Tækið kostaði rúmar 1,5 milljónir króna og var keypt fyrir framlög rótarýfólks um land allt en stærstur var hlutur Rk Görðum í Garðabæ.
Ljósgjafinn var afhentur við stutta athöfn á Landspítalanum miðvikudaginn 18. júní. Erlín Óskarsdóttir, deildarstjóri, bauð fulltrúa Rótarý velkomna og sagði það ávallt kærkomið að skynja hinn jákvæða hug og velvilja úti í samfélaginu, sem endurspeglast í gjöfum af þessu tagi. Erlín sagði starfsfólk spítalans meta slík tengsl afar mikils.
Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir, rifjaði upp að hann hefði heimsótt marga rótarýklúbba og kynnt þeim starfsemi spítalans. Það hefðu verið erfiðir tímar á spítalanum undanfarið og löng bið á því að nauðsynleg tæki væru endurnýjuð eins og kunnugt væri af umfjöllun í fjölmiðlum. Endurnýjun stærstu tækja kallaði á mikið fjármagn og þess vegna væri lítið eftir til að kaupa minni tæki sem einnig væru nauðsynleg í daglegu starfi inni á spítalanum. Eldri tæki væru orðin úrelt mörg hver og ekki hægt að fá í þau varahluti. Athygli hefði verið vakin á þessu í samræðum við rótarýfólk, sem hefði brugðist skjótt við með þeim árangri sem nú hefði komið í ljós. Þakkaði hann kærlega fyrir þessa góðu gjöf til spítalans.
Tómas sagði að ljósgjafabúnaðurinn myndi nýtast læknum á öllum deildum en hann væri t.d. afar mikilvægur við hjarta- og lungnauppskurði. Sagði hann viðstöddum frá því hvernig tækið virkar með því að varpa sterku ljósi djúpt inn á skurðsvæðið. Ljósvarpanum er komið fyrir í sérstökum höfuðbúnaði sem læknirinn ber en jafnframt notast hann við gleraugu, sem stækka 3 ½ sinnum. Hjarta- og kransæðaaðgerðir taka 5-6 klukkutíma og því væri nauðsynlegt að hafa hin bestu skilyrði til að ljúka þeirri miklu nákvæmnisvinnu. Ljósvarpinn væri léttur og þægilegur fyrir lækninn.
Guðbjörg Alfreðsdóttir, umdæmisstjóri, sem fékk tækifæri til að prófa höfuðbúnaðinn er fylgir ljósgjafanum, þakkaði hlý orð í garð Rótarý. Hún gat þess að eftir að Tómas Guðbjartsson hafði snúið sér til Rótarý var ákveðið að efna til söfnunar. Þakkaði hún Halldóru G. Matthíasdóttur og Kristjáni Þorsteinssyni, félögum í Rk Görðum, sérstaklega fyrir þeirra atbeina að málinu. Færi vel á því að fyrir tilstuðlan Rótarý væri ljósi varpað í þágu Landsspítalans á sama tíma og starfað væri undir kjörorðum ársins „Vörpum ljósi á Rótarý“. Fram kom að þörf er á fleiri sambærilegum tækjum. Magnús B. Jónsson, verðandi umdæmisstjóri, sagðist engu geta lofað, en ef forráðmönnum spítalans þætti eitthvað vanta kostaði ekkert að hafa samband. "Þetta hefur tekist einu sinni," sagði Magnús."Og það sem hefur tekist einu sinni getur tekist aftur."
Á myndinni: Guðbjörg Alfreðsdóttir, Tómas Guðbjartsson, Erlín Óskarsdóttir, Kristján Þorsteinsson, Magnús B. Jónsson og Halldóra G. Matthíasdóttir. Texti og myndir MÖA