Nýr rótarýklúbbur tekur til starfa
Nýr rótarýklúbbur var stofnaður í Garðabæ í morgun, fimmtudaginn 4. júní. Er það morgunverðarklúbbur og nú þegar hafa 26 félagar gengið í hann. Gísli Bergsveinn Ívarsson, sem verið hefur félagi í Rkl Árbæjar, verður forseti nýja klúbbsins, sem hefur ekki enn verið gefið nafn.
Stofnfundurinn var haldinn í boði móðurklúbbsins Rkl Görðum og setti forseti hans, Eiríkur K. Þorbjörnsson, fundinn kl. 08.00. Flestir stofnfélagar voru viðstaddir og ýmsir gestir úr öðrum klúbbum ásamt forystufólki rótarýhreyfingarinnar á Íslandi.
Halldóra G. Matthíasdóttir, félagi í Rkl Görðum og formaður félagaþróunar- og útbreiðslunefndar umdæmisins, gerði grein fyrir undirbúningi að stofnun klúbbsins. Rakti hún ástæðurnar, m.a. fjölgun íbúa bæjarfélagsins eftir sameiningu Garðabæjar og Álftaness í samanlagt 14 þús. íbúa. Auk þess leggur alþjóðahreyfing Rótarý áherslu á stofnun nýrra klúbba til að fjölga félögum um allan heim. Mikill einhugur ríkti í Rkl Görðum um að stofna dótturklúbbinn.
Undirbúningsfundir voru auglýstir á samfélagsmiðlum og í Garðapóstinum, bæjarblaði Garðbæinga. Ennfremur var samband haft við aðila, sem vitað var að hefðu áhuga á að ganga í Rótarý.
Halldóra sagði að áhersla hefði verið lögð á lýðræðislegan undirbúning, sem m.a. felst í því að nafn klúbbsins verður ákveðið á síðari stigum með aðkomu allra stofnfélaga. Þá kynnti hún svohljóðandi tillögu um fyrstu stjórn klúbbsins: Gísli B. Ívarsson, forseti, Anna Lára Másdóttir, varaforseti, Hildur Sólveig Pétursdóttir, viðtakandi forseti, Elín Gränz, ritari, Tinna Rán Ægisdóttir, gjaldkeri og Ragnar Þórður Jónasson, stallari. Var tillagan borin upp til atkvæða og samþykkt einróma.
Gísli B. Ívarsson, nýkjörinn forseti klúbbsins, tók síðan við fundarstjórn og lét í ljós þakklæti fyrir að fá tækifæri til að veita forystu nýum rótarýklúbbi í Garðabæ, sem er heimabær hans.
„Við erum sammála um að búa til nýjan og ferskan rótarýklúbb, þar sem jafnrétti og samfélagsleg ábyrgð verða rauði þráðurinn,“ sagði Gísli. Hann tók fram að kynjajafnrétti yrði ríkjandi í klúbbnum og verða tilmæli gefin um að karl og kona skiptist á við kjör í forsetaembætti klúbbsins og jafnræðis verði gætt milli kynjanna í félagaskrá.
Guðbjörg Alfreðsdóttir, umdæmisstjóri, fagnaði þessum merka áfanga en hún hafði sett sér það markmið að á starfsárinu yrði stofnaður nýr klúbbur í Garðabæ og undirbúningur hafinn að stofnun fleiri í öðrum landshlutum. Færði hún nýja klúbbnum árnaðaróskir. Vakti hún athygli á að stofnfélagar væru þegar orðnir 26 talsins, „allt fyrirmyndar einstaklingar, lofandi rótarýfélagar," eins og Guðbjörg orðaði það. "Þarna sjáið þið hvað gerist þegar maður setur sér markmið og fylgir þeim eftir," bætti hún við. Guðbjörg gat þess að fullgildingarskjal frá Rotary International myndi berast í sumar eða með haustinu.
Þessu næst var innganga stofnfélaganna formlega staðfest með því að Halldóra G. Matthíasdóttir og Guðbjörg Alfreðsdóttir nældu rótarýmerki í barm hvers og eins. Að endingu voru fluttar kveðjur og árnaðaróskir til nýja klúbbsins, félaganna og forystufólks, auk þess sem fánar nokkurra annarra klúbba voru afhentir. Myndir og texti MÖA