Golfmótið verður á Akranesi 25. júní n.k.
Golfmót rótarýklúbba á Íslandi 2015 verður á Garðavelli á Akranesi hjá Golfklúbbnum Leyni fimmtudaginn 25. júní 2015. Það er Rótarýklúbbur Akraness sem hefur umsjón með mótinu að þessu sinni. Makar rótarýfélaga eru velkomnir og keppa þeir til allra verðlauna utan sveitakeppninnar. Mótið er bæði einstaklingskeppni og sveitakeppni klúbba. Þetta er punktakeppni með forgjöf á 18 holum.
Mótsnefnd golfmóts rótarýklúbbanna 2015 hefur sent út tilkynningu til klúbbanna, þar sem lýst er fyrirkomulagi keppninnar. Veitt verða verðlaun fyrir hæsta punktaskor einstaklings, verðlaun fyrir besta skor einstaklinga án forgjafar, verðlaun fyrir að vera næst holu á öllum par 3 brautum og dregin út gjöf úr skorkortum viðstaddra. Í sveitakeppni telur besti samanlagður árangur tveggja félaga í hverjum klúbbi, og hlýtur sá klúbbur farandbikar.
Öll holl verða ræst út samtímis kl. 9:30 um morguninn og er mæting eigi síðar en kl. 8:45. Fyrir ræsingu verður skipt í holl, farið yfir röðun á teiga og staðarreglur.
Að loknum leik verður boðið upp á úrvals súpu með brauði í veitingasal klúbbsins. Eftir yfirferð skorkorta og útreikning, verður verðlaunaveiting, útdráttargjafir afhentar og umsjónarklúbbur næsta móts valinn.
Mótsgjald er kr. 6.500 á mann og er innifalið í því vallargjald, súpa og kaffi.
Skráning þarf að berast eigi síðar en 20.júní með því að senda tölvupóst á netfangið akranes@rotary.is, með þessum upplýsingum: nafn þátttakanda, kennitala, forgjöf, og nafn rótarýklúbbs ef meðlimur. Fyrirspurnir berist í sama netfang.
Forsetar Rótarýklúbba eru beðnir um að upplýsa alla félaga um mótið og hvetja alla golfara til þátttöku.