Nýtt forystufólk á yfirgripsmiklu fræðslunámskeiði
Fræðslumót fyrir verðandi forseta og ritara íslensku rótarýklúbbanna fór fram í Menntaskólanum í Kópavogi laugardaginn 14. mars. Mótið hófst kl. 9.00 og þrátt fyrir aftakaveður þennan morgun var þátttakan góð og fulltrúar klúbba víða um land komnir saman til að fræðast og skiptast á skoðunum.
Magnús B. Jónsson, Rkl. Borgarness, verðandi umdæmisstjóri 2015-2016, setti mótið og notaði tækifærið til að kynna sig öllu nánar en gert hefur verið innan umdæmisins hingað til. Magnús er fæddur í Vestmannaeyjum í miðri heimsstyrjöldinni síðari en er ættaður af Suðurlandi. Eftir hefðbundna skólagöngu í Eyjum fór hann í Bændaskólann á Hvanneyri, tók þaðan búfræðipróf árið 1960 og fór síðan í framhaldsnám og lauk hann búfræðikandidatsnámi frá Hvanneyri 1963. Síðan hélt Magnús til framhaldsnáms í Noregi og lauk þar doktorsprófi árið 1969 en sneri þá heim til að þjóna íslenskum landbúnaði og hefur verið „sveitamaður frá fæðingu“ eins og Magnús orðaði það. Hann hefur starfað við þennan atvinnuveg alla sína starfstíð. Magnús var ráðunautur í loðdýrarækt og nautgriparækt og síðan skólastjóri á Hvanneyri í 12 ár og kennari í 8 ár og skólastjóri að nýju í 12 ár og kennari í 8 ár eða þar til hann varð sjötugur og fór að gera það sem hann langaði til, eins og Magnús komst að orði.
Þegar allir þátttakendur höfðu kynnt sig flutti Guðbjörg Alfreðsdóttir, umdæmisstjóri, Rkl. Görðum, ávarp. Hún gerði stuttlega grein fyrir heimsóknum sínum í klúbbana um landið og því öfluga starfi sem þar fer fram. Gott væri að sjá að viss formfesta ríkti á fundum sem væri nauðsynlegt til að halda góðu skipulagi á fundahaldinu og virða tímaáætlanir.
„Rótarýklúbbarnir eru grunneiningar hreyfingarinnar," sagði Guðbjörg. „Án þeirra væri Rótarý ekki til. Hið öfluga klúbbstarf skiptir mestu máli og hlutverk ykkar á komandi starfsári er að sjá um að drífa þessi verkefni áfram. Verklag leiðtogans skiptir mestu máli.“
Guðbjörg sagði ánægjulegt að fylgjast með viðfangsefnum sem kúbbarnir beita sér fyrir í samfélögum sínum á hverjum stað. Hún minnti á framkvæmd Rótarýdagsins 28. febrúar sl.
„Ég var hæstánægð með árangurinn,“ sagði Guðbjörg. „Þar kynntu klúbbar verkefni sín, sér og öðrum til ánægju. Einnig tókst okkur að láta til okkar heyra í dagblöðum, útvarpi og sjónvarpi.“ Flutti hún þakkir öllum þeim, sem komu að undirbúningi og framkvæmd dagsins og minnti á að án klúbbanna hefði þetta aldrei tekist.
Að endingu vék Guðbjörg að gerð starfsáætlana fyrir 2015-2016 sem nýir forystumenn í klúbbunum þyrftu að gera tímanlega og með ánægju. Nauðsynlegt væri að ræða vel hvað gera skuli og hvernig. Að því undangengnu yrði eftirleikurinn auðveldur. Þá sagði Guðbjörg að það ætti að verða fyrsta verk að skrá nýja stjórn í hverjum klúbbi inn á heimasíðu klúbbsins á rotary.is. Einnig hvatti hún til þess að klúbbarnir settu fréttir af starfi sínu inn á heimasíðuna reglulega og skipuðu umsjónarmann með henni til meira en eins árs. Þá mælti Guðbjörg með því að framlög klúbbanna til Rótarýsjóðsins yrðu ákveðin og sett inn í félagsgjöldin.
Guðbjörg sagðist stefna að því að fjölga rótarýfélögum á Íslandi úr 1200 í 1300 á starfsári sínu. Nú eru þrír klúbbar í burðarliðnum og ætlunin er að hefja vinnu við þann fjórða áður en hún lætur af störfum. Hún fjallaði um félagsgjöldin og rifjaði upp hvað félagarnir fengju í staðinn.
„Þið gefið reglulega til mannúðar- og góðgerðarmála, eignist öflugt tengslanet og fáið reglulega ókeypis menntun,“ sagði Guðbjörg.
Margrét Friðriksdóttir, umdæmisleiðbeinandi, Rkl. Borgum og fyrrv. umdæmisstjóri stjórnaði dagskrá fræðslumótsins sem framundan var. Hún hófst með sérstakri kynningu á nokkrum veigamiklum þáttum í starfsemi klúbbanna og umdæmisins. Hanna María Siggeirsdóttir, Rkl. Miðborg, gerði grein fyrir starfsemi æskulýðsnefndarinnar og nemendaskiptum sem hún annast. Hanna Gyða Matthíasdóttir Proppé, Rkl. Görðum, greindi frá undirbúningi félagaþróunar- og útbreiðslunefndar að stofnun nýrra rótarýklúbba.
Mjög mikilvægur þáttur í hinu árlega fræðslumótinu er hagnýt kennsla og æfingar fyrir forseta og þó einkanlega ritarana í skráningu upplýsinga á heimasíður klúbbanna. Guðni Gíslason, Rkl. Hafnarfjarðar, kynningarstjóri og vefstjóri umdæmisins, annaðist þetta verkefni.
Knútur Óskarsson, Rkl. Mosfellssveitar, verðandi umdæmisstjóri 2017-2018, sagði frá verkefnum aðstoðarumdæmisstjóranna þriggja. Knútur lætur nú af störfum sem aðstoðarumdæmisstjóri en í hans stað kemur Garðar Eiríkisson, Rkl. Selfoss. Áfram starfa sem aðstoðarumdæmisstjórar þau Esther Guðmundsdóttir, Rkl. Miðborg, og Eyþór Elíassson, Rkl. Héðaðsbúa.
Þá fjallaði Birna Bjarnadóttir, Rkl. Borgum, um Rótarýsjóðinn og Rannveig Gunnarsdóttir, Rkl. Miðborg, um hlutverk PólíóPlús nefndarinnar og baráttu Rótarý gegn lömunarveiki í heiminum. Eiríkur Örn Arnarson, Rkl. Miðborg, kynnti friðarstyrki Rótarýhreyfingarinar og sérstaka háskólastyrki, sem Rótarýklúbbar í Georgíu í Bandaríkjunum veita erlendum stúdentum. Einnig ræddi Markús Örn Antonsson, Rkl. Breiðholts, um eflingu heimasíðunnar rotary.is og um útgáfu hins sameiginlega norræna tímarits Rotary Norden.
Björn B. Jónsson, Rkl. Selfoss, fyrrverandi umdæmisstjóri, leiðbeindi formönnum og riturum um stefnumótunarstarf í klúbbunum og gerð starfsáætlana. Þar á eftir fjölluðu umræðuhópar um starfsáætlanir 2015-2016, eflingu og styrkingu klúbbanna, nýja þætti í starfi þeirra o.fl.
Á fræðslumótinu gerði Magnús B. Jónsson, umdæmisstjóri 2015-2016, grein fyrir helstu stefnumálum sínum á starfsárinu sem í hönd fer. Hann hvatti eindregið til þess að klúbbarnir legðu sig fram um að afla nýrra félaga úr sem fjölbreytilegustu úrvali starfsgreina. Þá sagðist hann ætla að reyna eins og mögulegt er að styrkja þá klúbba er eiga erfitt uppdráttar.
„Við megum engan klúbb missa. Ekkert samfélag á Íslandi er svo vel statt að hafa ekki gagn af Rótarýklúbbi," sagði Magnús.
Hann hyggst beita sér fyrir fjölgun klúbba. Að mati Magnúsar væri líklegra til árangurs að fjölga rótarýfélögum með stofnun nýrra klúbba en að fjölga í klúbbum sem fyrir eru. Hvort tveggja þyrfti þó að gera. Lýsti Magnús eftir því að klúbbar gæfu sig fram til að verða móðurklúbbar nýrra klúbba. Þá vill Magnús festa Rótarýdaginn í sessi og halda hann aftur á næsta ári. Hann undirstrikaði nauðsyn þess að efla heimasíður klúbbanna og flytja nýjar fréttir af starfinu. Huga yrði að fjölbreytninni í hinni nýju fjölmiðlun og þyrftu klúbbarnir að laða til sín ungt fólk á þeim samfélagsmiðlum, sem það sjálft vill nota. Allir klúbbar eiga að hafa a.m.k. eitt samfélagslegt verkefni að vinna að og hann biður klúbbana um að komast sem næst 100 Bandaríkjadölum í framlögum á hvern félaga til Rótarýsjóðsins árlega.
Í lok máls síns minnti Magnús á námskeið í stefnumótun og félagaþróun rótarýklúbba, sem fram fer 25. apríl n.k. og umdæmisþingið, sem verður í Borgarnesi dagana 9. og 10. október n.k. undir einkunnarorðunum: Menntun-Saga-Menning.
Texti og myndir/ MÖA