Fréttir

5.1.2015

Glæsilegir stórtónleikar Rótarý í Hörpu

Baldvin Oddsson, trompetleikari og Sólveig Steinþórsdóttir, fiðluleikari fengur styrki Rótarý

Tónlistarverðlaun Rótarý voru afhent á stórtónleikum Rótarý, sem í ár voru haldnir fyrir fullu húsi í Norðurljósasal Hörpu sunnudaginn 4. janúar sl. Þau sem hlutu verðlaunin í ár eru Baldvin Oddsson, trompetleikari og Sólveig Steinþórsdóttir, fiðluleikari, sem bæði eru 19 ára. Þrátt fyrir ungan aldur hafa þau náð langt í námi, unnið til verðlauna hér á landi og erlendis og hafa getað valið um þá skóla sem þau sækja. Á myndinni sem tekin var við afhendingu verðlaunanna eru Erlendur Hjaltason, formaður stjórnar Tónlistarsjóðs Rótarý, Sólveig Steinþórsdóttir, Baldvin Oddsson, og Guðbjörg Alfreðsdóttir, umdæmisstjóri Rótarý.

Baldvin Oddsson stundar nám í Manhattan School of Music hjá Marc Gold, en hann hefur verið við nám í Bandaríkjunum frá árinu 2009.  Sólveig stundar nú nám við Universität der Künste í Berlín hjá Eriku Geldsetzer. 
Bæði hafa þau leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Rótarýumdæmið á Íslandi hefur staðið fyrir stórtónleikum sl. 19 ár og frá 2005 hafa 16 efnilegir tónlistarmenn fengið styrki úr Tónlistarsjóði Rótarý.  Sérstakur ráðgjafi og skipuleggjandi tónleikanna er Jónas Ingimundarson. Á tónleikunum í Hörpu flutti Guðbjörg Alfreðsdóttir, umdæmisstjóri, Jónasi sérstakar þakkir fyrir frumkvöðulsstarf hans að stórtónleikum Rótarý og færði honum viðurkenninguvott fyrir frábæran árangur.
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands og rótarýfélagi flutti ávarp í upphafi tónleikanna og lagði áherslu á hve mikil og dýrmæt eign móðurmálið væri og hvernig söngur og tungumál umvefja hvort annað. Á tónleikunum ættu íslenskan okkar og  íslensk tónlist samleið í söng. Ljóð skáldanna hefðu heillað tónskáldin og orðið þeim hvatning til tónsköpunar.
Tónleikarnir tókust einstaklega vel og voru sannkallaður listviðburður. Kristinn Sigmundsson, óperusöngvari, hóf dagskrána með því að syngja 10 íslensk einsöngslög. Ljóðræn túlkun hans var hrífandi. Jónas Ingimundarson lék á píanó.
Víkingur Heiðar Ólafsson, píanóleikari, flutti af stakri snilld fjögur verk eftir Jean-Philippe Rameau og Robert Schumann. Víkingur Heiðar var fyrsti ungi tónlistarmaðurinn sem hlaut styrk úr tónlistarsjóði Rótarý. Það var árið 2005.
Síðan komu styrkþegar 2015 fram, þau Sólveig Steinþórsdóttir og Baldvin Oddsson, sem léku á fiðlu og tompett. Anna Guðný Guðmundsóttir lék á píanó.
Að endingu söng Kristinn Sigmundsson aríur úr óperunum Eugene Onegin eftir Tchaikovsky og Don Giovanni eftir Mozart. Hinir skemmtilegu leikhæfileikar Kristins nutu sín einkar vel í seinna atriðinu. Víkingur Heiðar Ólafsson lék undir á píanó ásamt Jónasi Ingimundarsyni. Þeir félagarnir Jónas og Víkingur Heiðar léku að endingu saman á tvö píanó. 
Listafólkinu var ákaft fagnað í lok tónleikanna með langvarandi lófataki.

                                                                                               Texti og myndir MÖA


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning