Fréttir

30.12.2014

Baldvin og Sólveig hljóta Tónlistarverðlaun Rótarý

Frá árinu 2005 hefur Rótarý-hreyfingin á Íslandi haldið Stórtónleika í byrjun árs og úthlutað um leið tónlistarverðlaunum til ungs tónlistarfólks sem sýnt hefur afburða árangur í námi og störfum á tónlistarsviðinu. Með þessu vill Rótarý gera sitt til að að efla nýliðun og greiða götu ungs fólks í framhaldsnámi, sem undantekningarlaust er kostnaðarsamt nám erlendis. Að þessu sinni verða veittir tveir 800.000.- kr. styrkir.

Stjórn Tónlistarsjóðs Rótarý hefur ákveðið að veita þeim Baldvin Oddssyni og Sólveigu Steinþórsdóttur Tónlistarverðlaun Rótarý 2015. Verðlaunin verða afhent á Stórtónleikum Rótarý sem haldnir verða sunnudaginn 4. janúar n.k. í Hörpu.

  • Baldvin Oddsson trompetleikari er 19 ára og hefur undanfarin fimm ár stundað framhaldsnám í Bandaríkjunum. Baldvin nemur nú við Manhattan School of Music. Hann hefur leikið fjölda einleiksverka með sinfóníuhljómsveitum. Hann var tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna „Bjartasta vonin 2013“.

  • Sólveig Steinþórsdóttir fiðluleikari er einnig 19 ára gömul og hefur þrátt fyrir ungan aldur unnið til margra verðlauna og leikið einleiksverk m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Samhliða tónlistarnámi lauk hún stúdentsprófi með framúrskarandi árangri. Sólveig hóf nám við Listaháskólann í Berlín í október s.l.

Rótarý nýtur velvildar listamanna sem taka höndum saman við hreyfinguna til að gera verðlaunin vegleg og tónleikana glæsilega. Að þessu sinni munu Kristinn Sigmundsson óperusöngvari og Jónas Ingimundarson píanóleikari flytja úrval íslenskra sönglaga. Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari, sem var fyrsti verðlaunahafi Tónlistarsjóðs Rótarý 2005, flytur einleiksverk, þá leika verðlaunahafarnir fyrir tónleikagesti og þeir Kristinn og Jónas munu ljúka tónleikunum með því að flytja óperuaríur.

Tónleikarnir eru öllum opnir og allt andvirði seldra miða til annarra en Rótarýfélaga gengur óskert til Tónlistarsjóðs Rótarý og þar með til áframhaldandi styrkja til ungs afreksfólks í tónlistarnámi.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning