Dagur átaksins „Útrýmum lömunarveiki“
Hinn 24. október hvetjum við til þess að lömunarveiki verði útrýmt, sem er átaksverkefni alþjóða Rótarýhreyfingarinnar. Allt frá árinu 1985 hefur Rótarý lagt fram háar fjárhæðir til að styrkja átakið og líka lagt til sjálfboðaliða í bólusetningarherferðum víða um heim. Íslenskir Rótarýfélagar hafa meðal annars tekið þátt í slíku átaki á Indlandi og safnað í heild meira en 1 milljón dollara.
Útrýming lömunarveiki er sameiginlegt átaksverkefni Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, Unicef, sjóðs Bill og Melindu Gates, Rótarýhreyfingarinnar en meginþunginn hefur hvílt á heilbrigðisyfirvöldum hvers lands.
Það var á árinu 2009 að Bill og Melinda Gates sjóðurinn ákvað að styrkja átak Rótarýhreyfingarinnar með myndarlegu framlagi í Rótarýsjóðinn. Ástæða þess að Gates hjónin völdu þessa leið var einfaldlega sú að þau höfðu sannreynt að framlag þeirra yrði nýtt á öruggan og skilvirkan hátt. Á Íslandi var byrjað að bólusetja fyrir lömunarveiki (mænusótt) árið 1956 og síðasta tilfellið sem greindist hér á landi var 1960. Árið 1994 voru Vesturlönd án mænuveiki.
Stór áfangi náðist þegar tókst að útrýma lömunarveiki á Indlandi 2012. Í dag hefur tekist að útrýma lömunarveiki í öllum löndum heims að þremur undanskildum, þ.e. Nígeríu, Afganistan og Pakistan. Helstu hindranir við útrýmingu lömunarveiki þar sem hún er enn landlæg eru ófriðarástand, óburðugt stjórnskipulag heilbrigðismála og fáfræði. Mikilvægt er að ljúka átakinu þar sem lömunarveikin getur borist til annarra landa frá þeim löndum þar sem hún er landlæg. Það er mikilvægt að gefast ekki upp og styðja við þetta frábæra átak og má þá benda á stórkostlegan árangur sem náðist þegar bólusótt var útrýmt á áttunda áratug síðustu aldar. Hægt er að finna ýmsan fróðleik um átakið „Útrýmingu lömunarveiki“ á síðunum http://www.endpolio.org/ og http://www.polioeradication.org/dataandmonitoring.aspx Allir sem hafa áhuga á að styrkja átakið geta lagt í Rótarýsjóðinn með því að tengjast eftirfarandi slóð: http://www.endpolio.org/miles-to-end-polio ,velja neðst „contribute“ og síðan „Polio Plus“. Þá koma leiðbeiningar um framhaldið