Fréttir

20.9.2014

Æskulýðsnefnd hvetur rótarýklúbbana til dáða

Æskulýðsnefnd umdæmisins hefur með ýmsum hætti hvatt rótarýklúbbana í landinu til virkari þátttöku í ungmennaskiptum Rótarýhreyfingarinnar. Þau eru með margvíslegu sniði víða um lönd og hafa íslenskir nemar haft af þeim gagn og ánægju sem og erlendir nemar hér á landi. Æskulýðsnefndin hefur enn látið boð út ganga og gerir í hnotskurn grein fyrir þeim möguleikum sem í boði eru.

Árs skiptinemar

Einn áhrifamesti þáttur alþjóðaþjónustu Rótarýhreyfingarinnar eru nemendaskipti sem standa til boða börnum rótarýfélaga jafnt sem öðrum. Skiptinemar þurfa að vera orðnir 16 ára en ekki eldri en 18 ½  árs þann 1. september árið sem dvölin erlendis hefst.

Ætlast er til að skiptin séu gagnkvæm þannig að þeir klúbbar sem senda nemendur utan taki á móti jafnmörgum í staðinn.

Hlutverk klúbbs: Klúbbur metur umsóknir og mælir með þeim sem þykja hæfir til að verða skiptinemar. Æskulýðsfulltrúi klúbbsins er í sambandi við skiptinemann allan þann tíma sem hann er úti og færir klúbbfélögum fréttir. Vegna þess skiptinema sem kemur þarf klúbburinn að útvega heimili frá áramótum og fram í júní. Bjóða skiptinemanum með á viðburði í klúbbnum og æskulýðsfulltrúinn er trúnaðarmaður skiptinemans og er því góðu sambandi við hann.

Kostnaður: Umdæmið leggur til 150 þúsund með skiptinema óski klúbbur eftir því. Klúbbuinn greiðir fyrir  vasapeninga 10 þús á mánuði, skólabækur, skólagjöld ef þarf, jóla- og afmælisgjafir, kostnað við að sækja fundi hjá klúbbnum og strætókort þar sem það á við.

Sumarbúðir á vegum Rótarýklúbba eða umdæma

Æskulýðsnefnd berast árlega allmörg boð um þátttöku í sumarbúðum erlendis eða stuttum ferðum sem skipulagðar eru af rótarýklúbbum í Evrópu, Asíu og Ameríku. Aldur 15-23 ára

Nefndin sendir þessi boð áfram til forseta og birtir líka listann á heimasíðu Rótarý ásamt aldursmörkum og öðrum upplýsingum sem koma fram í boðinu.

Hlutverk klúbbs: Klúbbur metur umsóknir og mælir með þeim sem þykja hæfir til að fara í sumarbúðir.

Kostnaður: Enginn kostnaður fellur á klúbbinn. Þátttakendur greiða allan kostnað. 

Stutt sumarskipti milli fjölskyldna

Æskulýðsnefnd Rótarý hefur milligöngu um ungmennaskipti í sumarleyfi, aldur 15-18 ára.

Ungmenni dveljast hjá fjölskyldu jafnaldra af sama kyni erlendis og síðan kemur unglingur frá því heimili og er jafn langan tíma hér á landi.

Hlutverk klúbbs: Klúbbur metur umsóknir og mælir með þeim sem þykja hæfir til að verða skiptifjölskyldur.

Kostnaður: Enginn kostnaður fellur á klúbbinn,  þátttakendur greiða allan kostnað. 

“Að stuðla að ungmennaskiptum er góð leið til að taka þátt í alþjóðastarfi Rótarý. Þekking og skilningur manna á milli eykur líkur á friði og ekki veitir af,” eru lokaorð Hönnu Maríu Siggeirsdóttur, formanns æskulýðsnefndar, í tilkynningu frá nefndinni.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning