Fréttir

12.9.2014

Rótarýklúbbur Reykjavíkur 80 ára

Rótarýklúbbur Reykjavíkur fagnar 80 ára afmæli sínu um þessar mundir. Hann var stofnaður Í Oddfellowhúsinu hinn 13. september 1934. Sá viðburður markaði upphaf Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi, sem í heild sinni stendur því á merkum tímamótum. Klúbburinn heldur upp á afmælið með hátíðarsamkomu á Hótel Borg að kvöldi afmælisdagsins. 

Stofnendur Rótarýklúbbs Reykjavíkur voru 20. Fyrsti forseti hans var Knud Zimsen, fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík. Með honum í stjórn voru: varaforseti Hallgrímur Benediktsson, stórkaupmaður, ritari Benedikt Gröndal, verkfræðingur, gjaldkeri Ludvig Storr, kaupmaður og ræðismaður Dana, og stallari Ragnar Blöndal, verslunarstjóri.

Fyrstu tilraunir til að stofna rótarýklúbb á Íslandi voru gerðar árið 1920. Þá hvöttu rótarýmenn í Hull til þess að stofnaður yrði klúbbur í Hafnarfirði. En sú ráðagerð gekk ekki eftir. Það var árið 1933 eða snemma árs 1934 að Ludvig Storr, ræðismaður Dana, fékk fyrirspurn frá Rótarýklúbbi Kaupmannahafnar um möguleikana á að stofna rótarýklúbb á Íslandi. Benti hann á Knud Zimsen til að annast undirbúning að stofnum rótarýklúbbs í Reykjavík.  Hann hafði þá skömmu áður látið af störfum sem borgarstjóri.

H.C. Helweg-Mikkelsen, félagi í Rótarýklúbbi Kaupmannahafnar og umdæmisstjóri í Danmörku, var sérstaklega áhugasamur um þetta verkefni og hvatti hann þýska félaga sína í Rótarýklúbbi Hannover, sem leið áttu til Íslands með skemmtiferðaskipi sumarið 1934, að fylgja málinu eftir við Knud Zimsen. Hann reyndist tregur til í fyrstu en féllst svo á að taka verkefnið að sér. Sendu Þjóðverjarnir símskeyti með þessum ánægjulegu tíðindum til Kaupmannahafnar og skrifaði Helweg-Mikkelsen þá bréf til Ludvig Storr og boðaði komu sína við þriðja mann til að vera við stofnun rótarýklúbbs í Reykjavík þá um haustið. Meðan Danirnir dvöldust Í Reykjavík var haldinn kynningarfundur, síðan stofnfundur og svo hátíðarfundur á Hótel Borg að klúbbfélögum viðstöddum ásamt forsætisráðherra og erlendum sendimönnum. 

Starfsemi Rótarýklúbbs Reykjavíkur fór vel af stað. Í hugleiðingu á sumardaginn fyrsta 1935 sagði Knud Zimsen, forseti klúbbsins, m.a.: „Er það ekki svo að við allir teljum, að samfundir okkar hér í Rótarýklúbbnum, hafi fært okkur gleði og styrk? Ávexti hefur starf okkar ekki borið sýnilega út á við, en við höfum haft persónulega gagn og gleði af samvistunum og viðkynningunni. Rótarý hefur knýtt sterkt samband milli okkar, og mér er óhætt að fullyrða að enginn okkar sjái eftir því, að við vorum á þessum hverfandi vetri gróðursettir í rótarýakurinn.“

Fullgildingarhátíð klúbbsins var haldin 7. september 1935. Sérstakir gestir voru þáverandi og fyrrverandi umdæmisstjóri danska rótarýumdæmisins ásamt fyrrverandi forseta Rótarýklúbbs Kaupmannahafnar. Rótarýklúbbur Reykjavíkur og þeir klúbbar á Íslandi, sem stofnaðir voru á næstu árum, voru hluti af danska rótarýumdæminu eða þar til hið íslenska var stofnað hinn 1. júlí 1946, umdæmi nr. 74.

Rótarýklúbbur Reykjavíkur hefur löngum haft innan sinna vébanda forystumenn í atvinnulífi þjóðarinnar, opinberri stjórnsýslu, menningarmálum og stjórnmálum. Félagar eru nú 126 talsins.  Þar hefur þróast góður félagsskapur sem byggir á sterkum hefðum. Rótarýklúbbur Reykjavíkur var eini rótarýklúbburinn í Reykjavík þangað til Rótarýklúbburinn Reykjavík Austurbær var stofnaður árið 1963.

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, er núverandi forseti Rótarýklúbbs Reykjavíkur. Hann hefur m.a. þetta að segja um klúbbstarfið og starfsemi Rótarý almennt:

„Ég held að Rótarýklúbbur Reykjavíkur hafi fljótt tekið á sig þá mynd sem hann hefur í dag og virðist hæfa vel vilja félaga. Klúbburinn hefur ávallt haft á að skipa góðu úrvali félaga, sem margir hafa skarað fram úr og verið þungavigtarmenn í samfélaginu, en sem sótt hafa góðan félagsskap á fundum klúbbsins. Sannast sagna sýnist manni að ákveðin íhaldssemi hafi ríkt um starfið og félagar í erilsömum störfum í raun ekki sérlega spenntir fyrir uppákomum eða of ágenginni starfsemi, heldur ekki síður litið á klúbbinn sem griðastað frá erli dagsins. Tvennt má þó nefna sem hefur haft í för með sér breytingu á klúbbstarfinu, að ég held. Í fyrsta lagi hlýtur tilkoma kvenna í klúbbinn árið 1996 að hafa sett breyttan svip á fundina, án efa til hins betra, en ég gerðist félagi þremur árum síðar eða 1999. Hins vegar hefur á síðustu áratugum stórlega aukist framboð af allri afþreyingu í þjóðfélaginu og þátttaka í félagsstarfi e.t.v. átt í vök að verjast. Mér segir svo hugur að tryggð félaga við Rótarýklúbba hafi af þessum sökum veikst, sem er visst áhyggjuefni því það virðist hafa leitt til stopulli mætinga á fundi. Það aftur vegur að kjarna starfsins, sem er að félagar hittist, hafi það skemmtilegt saman og efli hverjir aðra til góðra verka.“

 


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning