Fréttir

19.1.2007

Velheppnaðir hátíðartónleikar - Ari Þór Vilhjálmsson fékk styrkinn í ár

 

Örn Smári Arnaldsson afhendir Ara Þór verðlaunin


Húsfyllir var á tvennum hátíðartónleikum Rótarýhreyfingarinnar sem haldnir voru í Salnum í Kópavogi 7. og 8. janúar. Á tónleikunum var í annað sinn veitt viðurkenning úr Tónlistarsjóði Rótarýhreyfingarinnar og hlaut hana Ari Þór Vilhjálmsson, fiðluleikari. Var Ari valinn úr hópi 28 umsækjenda. Viðurkenningin er 500 þúsund króna námsstyrkur, en Ari stundar framhaldsnám við New England Conservatory of Music í Boston.

Tónleikarnir sem nú voru haldnir í 10. sinn, voru helgaðir Mozart. Þeir  hófust á píanóleik styrkþegans frá í fyrra, Víkings Heiðars Ólafssonar, sem lék eina af píanósónötum tónskáldsins. Síðan söng Margrét Sigurðardóttir, ung sópransöngkona, nokkur af sönglögum Mozarts við undirleik Jónasar Ingimundarsonar, en hann hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi og kynnir Rótarýtónleikanna. Halldóra Björnsdóttir, leikkona, las þýðingar Reynis Axelssonar á ljóðunum sem sungin voru.

Jónas Ingimundarson, Halldóra Björnsdóttir og Margrét Sigurðardóttir


Að loknu hléi, þar sem tónleikagestir þáðu veitingar,  kynnti Gunnar Hansson, formaður stjórnar Tónlistarsjóðsins, styrkþegann og Ari Þór gekk inn á sviðið og tók við viðurkenningunni úr hendi Arnar Smára Arnaldssonar, umdæmisstjóra. Síðan léku Ari Þór og Víkingur Heiðar eina af fiðlusónötum Mozart. Að lokum lék  Blásarakvintett Reykjavíkur ásamt Víkingi Heiðari kvintett fyrir píanó og blásara.

Listafólkinu var vel fagnað og gestir sammála um að tónleikarnir hefðu í alla staði verið glæsilegir og aðstandendum og flytjendum til mikils sóma.

Sjá myndir frá tónleikunum í ?Myndaalbúmi?.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning