Aukin áhersla umdæmisins á nemendaskipti
Íslenskir skiptinemar Rótarý eru komnir heim eftir skólavist og dvöl hjá Rótarýfjölskyldum erlendis. Forystukonurnar í æskulýðsnefnd Rótarý á Íslandi, þær Hanna María Siggeirsdóttir og Klara Lísa Hervaldsdóttir, áttu nýlega fund með skiptinemunum sem sögðu frá reynslunni af skólagöngu og dvölinni á erlendri grund.
Skiptinemarnir sem þátt tóku í fundinum voru Benedikt Axel Ágústsson, sem fór á vegum Rkl. Kópavogs til Bandaríkjanna, Jón Guðnason var í Frakklandi fyrir milligöngu Rkl. Hafnarfjarðar og Sólveig Erla Sigurðardóttir dvaldist í Ekvador á vegum Rkl. Reykjavík Miðborg. Þá voru einnig á fundinum þau Eiríkur Egill Gíslason, sem dvaldist ávegum Rkl. Görðum í sumarbúðum í Belgíu og Aðalheiður Lárusdóttir Maack, sem verður skiptinemi í Bandaríkjunum á næsta skólaári á vegum Rkl. Reykjavík Austurbær.
Jón Guðnason, Benedikt Axel Ágústsson og Sólveig Erla Sigurðardóttir. Myndband. Smellið hér
Hanna María Siggeirsdóttir, formaður æskulýðsnefndar umdæmisins, vakti sérstaka athygli á því, að hinn 1. desember rennur út umsóknarfrestur um námsdvöl erlendis skólaárið 2015-2016. Umsóknir um dvöl í sumarbúðum erlendis á næsta ári verða hins vegar auglýstar í marz nk. „Fyrstur kemur, fyrstur fær“ er reglan sem gildir um þær úthlutanir að sögn Hönnu Maríu. Starfið í sumarbúðunum er mjög fjölbreytt, t.d. í hjólabúðum eða skíðabúðum, og reynt er að hafa aðeins einn þátttakanda frá hverju landi. Búðirnar eru misstórar, 8-12 þátttakendur og upp í 20-30 á hverjum stað eftir því hvað klúbbarnir leggja áherslu á. Í Sviss er t.d. boðið upp á ferðalag á reiðhjólum sem stendur í viku í fylgd félaga úr Rotaract-klúbbum sem eru yfirleitt mjög virkir í sumarbúðastarfinu.
Jessica R. Fleming frá Bandaríkjunum dvaldist sem skiptinemi hér á Íslandi sl. skólaár. Það var Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar sem tók á móti henni og dvaldist hún á heimili Jóns Guðnasonar, sem var skiptinemi í Frakklandi, Eftir að Jessica kom heim hefur hún sagt frá Íslandsdvölinni á fundum og sýnt myndband sem hún gerði. Sjá myndband Jessicu.
Þær Hanna María og Klara Lísa segjast vona að ákvörðun umdæmisráðs Rótarý á Íslandi um að styrkja hvern klúbb, sem tekur að sér skiptinema, um 150.000 krónur verði til að hvetja klúbba til aukinnar virkni í nemendaskiptunum, ekki síst fámennari klúbbana. Með þessu móti væri liðsheild Rótarý að taka sameiginlega þátt í verkefninu með einstökum klúbbum. Gert er ráð fyrir að erlendu nemendurnir, sem koma hingað til lands, dveljist hjá tveimur fjölskyldum hið minnsta á skólarárinu en það getur líka farið upp í allt að fjórar.
„Það er hluti af þroskanum hjá krökkunum að fara á milli fjölskyldna rótarýfélaga og kynnast nýju fólki og nýjum lifnaðarháttum,“ sagði Hanna María. „Þetta eru skipti milli klúbba, milli rótarýklúbbs á Íslandi og rótarýklúbbs úti í heimi.“
Texti, myndir, myndband MÖA