Fréttir

15.1.2008

Diddú og Romishevskaya stórkostlegar á hátíðartónleikum Rótarý

Elfa Rún Kristinsdóttir fiðluleikari og Melkorka Ólafsdóttir flautuleikari hlutu tónlistarstyrki Rótarý

Stórkostlegir tónleikar voru í Salnum sl. föstudag en þar komu fram rússneska söngstjarnan Irena Romishevskaya, mezzosópran frá Moskvu, ásamt okkar ástsælu sópransöngkonu Sigrúnu Hjálmtýsdóttur. Við slaghörpun var að sjálfsögðu enginn annar en píanóleikarinn Jónas Ingimundarson, sem haft hefur veg og vanda af þessari dagskrá. Sigrún og Jónas fara síðar á þessu ári til Moskvu til tónleikahalds og koma þar fram á tónlistarhátíð í minningu píanóleikarans Sviatoslavs Richter. Tónleikarnir eru aðeins ætlaðir félögum í Rótarýhreyfingunni og gestum þeirra, en þarna gafst kjörið tækifæri til að kynna fjölskyldu og vinum þennan menningarþátt í starfi Rótarýhreyfingarinnar.

Sigrún Hjálmtýsdóttir, Jónas Ingimundarson og Irina Romishevskaya á sviði Salarins

Það er síðan orðin föst venja að nýir styrkþegar Tónlistarjóðs Rótarýhreyfingarinnar stígi fram sem leynigestir  stórtónleikanna.  Þar hefur jafnan verið um að ræða unga framúrskarandi íslenska tónlistarmenn, sem Rótarýfélagar hafa þannig fengið tækifæri til að kynnast snemma á tónlistarferli þeirra. Fjöldi umsókna barst nú sem áður Tónlistarsjóði Rótarý og var val styrkþega kynnt á tónleikunum. Sjóðurinn er einmitt afrakstur þessa árlega tónleikahalds í Salnum og fjárframlaga sem klúbbar umdæmisstjóra hverju sinni hafa aflað frá fyrirtækjum sem velviljuð eru hreyfingunni og eflingu tónlistarlífs í landinu. Fyrst var veittur styrkur úr Tónlistarsjóði Rótarý á Hátíðartónleikum í tilefni af 100 ára afmæli hreyfingarinnar í janúar 2005. Þetta er því í fjórða sinn sem veitt var úr sjóðnum, en verðlaunin hafa vakið mikla athygli og orðið lyftistöng þeim sem hreppt hafa.

Styrkþegar 2008 eru Elfa Rún Kristinsdóttir fiðluleikari og Melkorka Ólafsdóttir flautuleikari sem hlutu 500 þúsund króna styrk hvor.

Elfa Rún Kristinsdóttir fiðluleikari og Védís Ólafsdóttir systur Melkorku Ólafsdóttur sem tók við verðlaunum systur sinnar sem var erlendis við æfingar, ásamt Pétri Bjarnasyni umdæmisstjóra Rótarý, Ingibjörgu Hauksdóttur nefndarmanni í Tónlistarsjóði Rótarý og Ólafi Egilssyni formanni stjórnar Tónlistarsjóðs Rótarý.

 

Irina Romishevskaya mezzosópran er í fremstu röð rússneskra söngvara og á nú þegar að baki glæstan feril, bæði í óperum og á tónleikasviði, þar sem hún hefur tekist á við afar fjölþætt viðfangsefni.heimsfrægur söngvari. Hún söng í fyrsta sinn á Íslandi á Opnunartónleikum í TÍBRÁ þann 7. september sl. og vakti þá rómuð raddfegurð hennar og glæsileg framkoma verðskuldaða athygli.

Sigrún Hjálmtýsdóttir sópran er öllum tónleikaunnendum vel kunn fyrir frábæran söng sinn. Sigrún hefur haldið fjölda tónleika hér heima og erlendis og sungið með íslenskum og erlendum hljómsveitum. Hún söng í Ævintýrum Hoffmans í Þjóðleikhúsinu og hjá Íslensku óperunni hefur hún m. a. sungið Súsönnu í Brúðkaupi Fígarós, Gildu í Rigoletto, bæði Papagenu og Næturdrottninguna í Töfraflautunni, Luciu í Lucia di Lammermoor, Violettu í La Traviata og Adinu í Ástardrykknum.

Jónas Ingimundarson píanóleikari er Kópavogsbúi, vandaður listamaður og dugmikli forgöngumaður í íslensku tónlistarlífi og hefur sem píanóleikari, tónlistarkennari og kórstjóri. Hann hefur haldið fjölda tónleika á Íslandi og komið fram víða í Evrópu og Bandaríkjunum, ýmist einn eða með öðrum, einkum söngvurum. Jónas hefur leikið inn á fjölda hljómplatna og hljómdiska og hefur staðið fyrir öflugu tónlistarkynningarstarfi í tengslum við tónleikahald sitt.

 


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning