Fréttir

10.1.2007

Hátíðartónleikar Rótarýs 2007 - Þriðja úthlutun úr Tónlistarsjóðunum

Bragi Bergþórsson með Guðmundi Björnssyni, umdæmisstjóra við afhendinguna.

Elleftu hátíðartónleikar Rótarýumdæmisins á Íslandi voru haldnir í Salnum í Kópavogi 5. og 7. janúar. Á tónleikunum þann 5. janúar var í þriðja sinn veittur styrkur úr Tónlistarsjóði umdæmisins og hlaut hann Bragi Bergþórsson tenór sem valinn var úr hópi 19 umsækjanda. Upphæð styrksins var kr. 500.000.

Bragi Bergþórsson er 25 ára gamall, sonur Sólrúnar Bragadóttur og Bergþórs Pálssonar sem bæði eru landsþekktir söngvarar. Hann hefur verið viðloðandi tónlist frá blautu barnsbeini, lærði fyrst á fiðlu og píanó en söng í fyrsta skipti á sviði í barnakór í óperunni Othello í Íslensku Óperunni árið 1992. Einnig söng hann með kór Menntaskólans í Hamrahlíð og Hamrahlíðarkórnum. Hann hóf söngnám í Tónlistarskólanum í Reykjavík 2002 og hélt til Lundúna 2004 þar sem hann hefur stundað söngnám síðan við Guildhall School of Music & Drama. Hann lauk Mastersgráðu 2005 og stundar nú nám við óperudeild skólans.  Bragi hefur komið fram í ýmsum óperuuppfærslum hér heima og í Kanada og sungið á nokkrum tónleikum, nú síðast í Requiem Mozarts í Dover í Englandi.

Á fyrri hluta tónleikanna söng Kammerkór Langholtskrikju undir stjórn Jóns Stefánssonar lög m.a. eftir Bach, Bruckner og Hildigunni Rúnardóttur. Eftir hlé söng Bragi við undirleik Jónasar Ingimundarsonar lög eftir Mozart; Shubert; Strauss o.fl. og að lokum tvö lög með kórnum.

Tónleikarnir voru í alla staði frábærir enda frábært listafólk á ferð sem var fagnað vel og lengi. Þeir voru öllum flytjendum og öðrum aðstandendum til mikils sóma og verður þeim seint fullþakkað.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning