Fréttir

30.6.2014

Hafnfirðingar sigruðu í sveitakeppni golfmótsins

Golfmót Rótarý fór fram á golfvellinum í Grafarholti sl. fimmtudag. Þátttakendur í mótinu voru 55. Umsjón mótsins að þessu sinni annaðist Rótarýklúbburinn Reykjavík-Breiðholt.

Mótið hófst kl. 9 árdegis þegar Snæbjörn Kristjánsson, formaður undirbúningsnefndarinnar, sló fyrsta höggið. Með honum í undirbúningsnefnd Breiðholtsklúbbsins voru Bergþór Konráðsson, Benóný Ólafsson, Jón L. Árnason og Sigurður Þorkelsson. Bergþór tók á móti þátttakendum og skráði þá til keppni. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, forseti klúbbsins, vann einnig að undirbúningi og fylgdist með því að mótið færi af stað samkvæmt áætlun.

Smám saman dreif þátttakendur að og eftir stutt spjall við rótarýfélaga á stéttinni við golfskálann eða yfir kaffisopa í biðstofunni hófst leikurinn fyrir alvöru. Veðrið hefði getað verið betra. Það rigndi öðru hverju og blés lítillega en kylfingar létu það ekki á sig fá. Áður en varði voru hollin komin á ferð um grænar grundir golfvallarins sem býður hin ákjósanlegustu skilyrði í skemmtilegu landslagi.  Myndasyrpa. Smellið hér       

                                        

                  Snæbjörn Kristjánsson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Eftir u.þ.b. fimm klukkustunda yfirferð komu þátttakendur í hús eftir að hafa leikið 18 holur. Var þá borin fram fiskisúpa og annað góðgæti meðan beðið var  eftir því að úrslit væru reiknuð út og kynnt. Vilhjálmur klúbbforseti og Snæbjörn formaður mótsnefndar tilkynntu um niðurstöður og afhentu verðlaun.

Í sveitakeppni sigraði sveit Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar. Helga R. Stefánsdóttir, sem var gestur, var í fyrsta sæti í punktakeppni kvenna og Jón B. Stefánsson, Rótarýklúbbnum Görðum, var í fyrsta sæti í punktakeppni karla.

Úrslit mótsins í heild. Smellið hér

Að móti loknu sagði Vilhjálmur forseti Breiðholtsklúbbsins: “Fyrst og fremst vil ég þakka golfnefnd Rkl. Reykjavík- Breiðholt, undir forystu Snæbjörns Kristjánssonar, fyrir mjög góðan undirbúning að þessu móti.  Þetta golfmót er í hópi fjölmennustu golfmóta Rótarý.  Mótið tókst í alla staði vel og aðbúnaður hjá Golfklúbbi Reykjavíkur í Grafarholtinu til fyrirmyndar.”

Næsta golfmót Rótarý verður haldið á Akranesi í júní á næsta ári. Rótarýklúbbur Akraness sér um mótið.


Sigursveitin í sveitakeppni rótarýklúbbanna tók á móti verðlaunum og hampaði farandbikar. Á myndinni eru Vilhjálmur Þ, Vilhjálmsson,  Gunnar Hjaltalín og Guðmundur Friðrik Sigurðsson frá Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar, og Snæbjörn Kristjánsson, formaður undirbúningsnefndar golfmótsins.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning