Guðbjörg Alfreðsdóttir nýr umdæmisstjóri Rótarý
Guðbjörg Alfreðsdóttir, félagi í Rótarýklúbbnum Görðum, Garðabæ, hefur tekið við embætti umdæmisstjóra Rótarý á Íslandi fyrir næsta starfsár sem hefst 1. júlí nk. Hún tekur við af Birni B. Jónssyni, Rótarýklúbbi Selfoss, sem gegnt hefur umdæmisstjóraembættinu 2013-2014.
Umdæmisstjóraskiptin fóru fram á fundi í Rótarýklúbbnum Görðum, sl. mánudag, þar sem fjöldi klúbbfélaga og aðrir gestir buðu Guðbjörgu og Ásmund Karlsson, eiginmann hennar, velkomin til starfa að mikilvægum verkefnum fyrir Rótarýhreyfinguna á Íslandi.
Fundurinn fór fram á reglulegum fundartíma í Rótarýklúbbnum Görðum, sem kemur saman í hádeginu á mánudögum í skátaheimilinu Jötunheimum í Garðabæ. Forseti klúbbsins Sigrún Gísladóttir bauð klúbbfélaga og gesti velkomna og þá sérstaklega verðandi og fráfarandi umdæmisstjóra, fyrrverandi umdæmisstjóra og fleiri trúnaðarmenn í Rótarýumdæmi 1360, sem viðstaddir voru umdæmisstjóraskiptin. Á dagskrá fundarins var erindi klúbbfélagans Steinars J. Lúðvíkssonar sem fjallaði um störf Guðmundar Björnssonar, landlæknis að ýmsum framfaramálum á síðustu öld. Að því loknu fóru umdæmisstjóraskiptin fram.
Í ávarpi sínu rifjaði Björn B. Jónsson, fráfarandi umdæmisstjóri, upp helstu þætti í starfi Rótarý á því starfsári, sem nú er að ljúka. Hann kom víða við og nefndi sérstaklega ánægjulegar heimsóknir í rótarýklúbbana um land allt. Einnig hefði hið fjölsótta umdæmisþing á Selfossi í október sl. verið einkar glæsilegt og tákn um samheldni rótarýfélaga á Íslandi. Stórtónleikarnir um áramótin hefðu ennfremur verið hreyfingunni til mikils sóma. Þá minnti hann á að áherslur sínar hefðu verið að efla félagaþróun og vekja áhuga á nýjum áherslum alþjóðlega Rótarýsjóðsins. Félögum í Rótarý á Íslandi hefur fjölgað á árinu og eru þeir nú um 1200. Er fjölgunin hlutfallslega ein sú mesta í Norður-Evrópu.
Björn gat þess að alls störfuðu 60 manns í ráðum nefndum og stjórnum á vegum umdæmisins ásamt öðrum trúnaðarmönnum.
„Með öllu þessu öfluga fólki gefst tækifæri til að leggja áherslu á ýmsa þætti í starfinu og brydda upp á nýju,“ sagði Björn. Taldi hann að námskeið Per Hylander fyrir íslenskt rótarýfólk um eflingu klúbbstarfsins hefðu þegar haft áhrif á félagaþróunina. Þá nefndi Björn eflingu heimsíðunnar rotary.is og aukna nýtingu hennar fyrir fréttaflutning og aðrar upplýsingar. Rotary International hefur endurhannað heimasíðuna rotary.org sem ætluð er rótarýfólki um allan heim og er Rótarýhreyfingin einnig orðin virkari á fésbókinni, twitter,Youtube og öðrum nýmiðlum. Björn gat þess ennfremur að í fyrsta sinn hefði verið skipaður tengiliður Poul Harris-félagsskaparins hér á landi. Það er Ólafur Helgi Kjartansson, fyrrv. umdæmisstjóri. Þá var umhverfisnefnd skipuð að nýju eftir nokkurt hlé.
„Fjórir aðstoðarumdæmisstjórar voru skipaðir, en þrír af þeim störfuðu með umdæmisstjóra.“ sagði Björn. „Þau unnu mikið og gott starf m.a. að endurbótum á öllu er snýr að inntöku nýrra félaga, og hvernig best sé að halda í nýja félaga.”
Þá nefndi Björn að Rótarýklúbburinn Reykjavík Breiðholt hefði staðið fyrir fyrsta taflmóti Rótarý á Íslandi á Grand Hótel 7. apríl s.l.
„Rótarý er þekkt fyrir að koma hreyfingu á ýmis mál,“ undirstrikaði Björn. ”Engin undantekning hefur verið á þessu ári – hér innanlands hefur verið stutt við ýmis góð verkefni:
- Mænuskaðasamtökin.
- Unnið hefur verið að gerð á nýju appi með læknum hér landi og í Svíþjóð, UNICEF og fleirum. Appið á að aðstoða ungt fólk í yfirvigt til að ná tökum á sínum vandamálum.
- Styrkur til 3ja nýsköpunarverkefna.
- Veittum tónlistarstyrk á árinu eins og undanfarin ár, sem er einn af þeim veglegri hér á landi.
En það er ekki einvörðungu á vegum umdæmisins sem unnið hefur verið markvist að því að virkja Rótarý til betra lífs. Klúbbarnir hafa unnið margir hverjir að góðum verkefnum. Í því sambandi er gaman að segja frá því að Rótarýklúbbi Borgarness verða í dag veitt verðlaun frá alheimsforseta Rótarý fyrir framúrskarandi árangur á sviði samfélagsþjónustu fyrir verkefni sitt sem fólst í atvinnusýningu í Borgarnesi s.l. vetur.
En það eru líka veikleikar í starfi okkar. Þess vegna hef ég lagt mig fram um það að vinna með klúbbum og lagt áherslu á að vera í sambandi við „veika klúbba“ í umdæminu. Vonandi hefur það skilað eitthverju.“ mælti Björn í lok yfirlitsræðu sinnar.
Að endingu flutti Björn hinum fjölmörgu samstarfsmönnum sínum í forystu umdæmisins og í klúbbunum um landt allt þakkir sínar og Jóhönnu Róbertsdóttur eiginkonu hans fyrir gott samstarf. Þá þakkaði hann Sveini H. Skúlasyni, fyrrverandi umdæmisstjóra, fyrir störf hans í umdæmisráði, nú þegar skipunartíma hans er lokið.
Að lokum bauð Björn B. Jónsson nýjan umdæmisstjóra Guðbjörgu Alfreðsdóttur og Ásbjörn Karlsson, eiginmann hennar, velkomin til starfa og mælti að endingu:
„Guðbjörg Alfreðsdóttir viðtakandi umdæmisstjóri hefur svo sannarlega nýtt tímann vel og verið að skoða hvernig hægt er að virkja Rótarý til betra lífs – Ég veit að hún er svo sannarlega tilbúin að „varpa ljósi á Rótarý.“ Þessu næst bað Björn Guðbjörgu að stíga fram. Tók hann ofan embættiskeðju umdæmisstjórans og setti hana um háls Guðbjargar með heillaóskum. Jóhanna kona Björns afhenti Ásmundi manni Guðbjargar sérsmíðaða öskju fyrir keðjuna. Þess var getið til gamans að það væri sértakt ábyrgðarstarf makans að gæta öskjunnar með umdæmisstjórakeðjunni á ferðalögum til klúbbanna.
Guðbjörg Alfreðsdóttir tók því næst til máls og þakkaði Birni orð hans sem yrðu mikil hvatning fyrir hana. Björn og Jóhanna hefðu lagt mikið á sig fyrir Rótarýhreyfinguna, sem ætti þeim mikið að þakka. Guðbjörg rifjaði upp að hún hefði gengið í Rótarýklúbbinn Görðum fyrir rúmum 12 árum. Hún sagðist hafa hlotið góða rótarýfræðslu með góðu fólki í klúbbnum.
„En ég viðurkenni að það tók mig einhver ár að hrökkva í gang og skilja út á hvað Rótary gengur, þrátt fyrir fræðsluna,“ bætti Guðbjörg við.“Það er eins og maður verði að handfjatla hluti áður en maður skynjar eða skilur þá.“
Guðbjörg var forseti klúbbsins 2011- 2012 og varð henni þá betur ljóst hvernig Rótarý starfar. Fyrir hálfu öðru ári jókst skilningur hennar á mætti Rótarý á heimsvísu þegar þau hjónin fóru í vinaskiptaferð Rótarý til Suður-Afríku með félögum héðan. Hún sagðist hafa orðið uppnumin af verkum klúbbanna þar. Síðan sótti hún fræðslu erlendis til undirbúnings umdæmisstjórastörfunum.
„Það hefur líka opnað augu mín fyrir því hve stór og göfug félagasamtök Rótarýhreyfingin er,“ hélt Guðbjörg áfram. „ Og ég vildi óska að allir Rótarýfélagar gætu upplifað þetta. En svo er hægt að vera duglegur á Netinu og fylgjast með og fá réttu tilfinninguna fyrir Rótarý. Þetta eru ekki bara matar- og spjallklúbbar þó að það skipti líka miklu máli.“
Á starfsári Guðbjargar munu áherslur hennar aðallega verða þessar: Félagaþróun; fjölgun rótarýfélaga, Rótarýsjóðurinn og Rótarýdagurinn. Hann er nýjung og undirbúningsvinna fyrir þann dag er hafin.
„Þetta eru mál, sem ég mun ræða frekar í heimsóknum mínum til klúbbanna en við Ási, Ásmundur eignmaður minn, hefjum þær 20. ágúst og við áætlum að ljúka þeim í byrjun nóvember,“ upplýsti Guðbjörg. „Við hlökkum mikið til að hitta rótarýklúbbana í landinu. Og svo heldur þessi klúbbur, rótarýklúbburinn minn, umdæmisþingið dagana 10. og 11. október nk. Félagar í þessum klúbbi eru að undirbúa þingið af miklum dugnaði. Ég er svo glöð yfir því, og ég er heppin að hafa svona sterkan klúbb á bak við mig. Það er ómetanlegt að hafa svo sterkan bakhjarl þegar ég tekst á við þetta stóra verkefni og fyrir þingið. Ég mun reyna að inna verkefnið eins vel af hendi og mér er kleift,“ sagði Guðbjörg.
Hún sagðist hafa gott fólk með sér í umdæmisráði og fyrrverandi meðlimi umdæmisráðs, sem allir væru tilbúnir að hjálpa sér eins og þarf. Og ekki mætti gleyma þremur aðstoðarumdæmisstjórum, sem alltaf væru boðnir og búnir til aðstoðar og vinnu að verkefnum. Það eru þau Esther Guðmundsdóttir í Rótarýklúbbnum Reykjavík Miðborg, Eyþór Elíasson, Rótarýklúbbi Héraðsbúa og Knútur Óskarsson, Rótarýklúbbi Mosfellssveitar. Ennfremur nefndi Guðbjörg mikilvæg störf Margrétar Sigurjónsdóttur, skrifstofustjóra umdæmisins.
„Ég hef líka átt ákaflega gott samstarf við Björn B. Jónsson, fráfarandi umdæmisstjóra. Ég hef lært mikið af honum. Og einnig hlakka ég til að starfa með Magnúsi B.Jónssyni, sem verður viðtakandi forseti eftir mig,“ sagði Guðbjörg. „Ég vona að ég geti komið honum eins vel inn í verkefnið og Björn hefur gert fyrir mig. Framundan er annasamt ár og ég lít á það sem stórt tækifæri fyrir mig til að viðhalda og reyna að efla Rótarý á Íslandi og að „Varpa ljósi á Rótarý“ eins og einkunnarorð okkar eru á næsta starfsári. Og svo má ekki gleyma að einkunnarorðin „Þjónusta ofar eigin hag“ lýsa svo vel hvernig við eigum að hugsa sem rótarýfélagar.“
Birni og Jóhönnu voru færðar Rótarýgjafir, hálsbindi og hálsklútur. Guðbjörg nældi einnig nokkrum Rótarýmerkjum í viðstadda. Björn fékk merki fyrrverandi umdæmisstjóra, Magnús B.Jónsson merki verðandi umdæmisstjóra og Ásmundur merki maka umdæmisstjóra. Í fundarlok risu viðstaddir úr sætum og höfðu sameiginlega yfir fjórpróf Rótarý. Sigrún klúbbforseti óskaði Guðbjörgu og Ásmundi til hamingju fyrir hönd félaganna í Rótarýklúbbnum Görðum, þakkaði viðstöddum komuna og sagði fundi slitið.
Texti og myndir MÖA