Ólafslundur í Smalaholti í Garðabæ
Rótarýklúbburinn Görðum átti góða stund í Smalaholtinu þann 16. júní sl. Árin sem liðin eru frá því að þar var hafin skógrækt eru nú tuttugu og fimm.
Rótarýklúbburinn í Görðum bauð til veislu. Borð höfðu verið smíðuð og komið þar fyrir til að auka við útivistarmöguleika. Á matseðlinum voru grillaðar kjúklingabringur ásamt meðlæti. Ólafur Nilsson, rótarýfélagi, sagði frá upphafi starfsins þarna í holtinu.
Rótarýfélagar byrjuðu á að grjóthreinsa svæðið undir skíðabrekku. Snjóleysi og bætt skíðaaðstaða í fjöllunum breytti þeim áformum. Uppgræðsla var þá hafin og sagði hann frá frumkvöðlastarfi Ólafs Vilhjálmssonar í skógrækt, bæði í Hafnarfirði og Garðabæ.Rótarýklúbburinn hefur nefnt lundinn Ólafslund frumkvöðkastarfi Ólafs Vilhjálmssonar til heiðurs.
Þorsteinn Tómasson, rótarýfélagi og plöntuerfðafræðingur sem var gestur samkomunnar, sagði frá fyrsta skógræktarstjóra landsins Agner F. Kofoed Hansen. Einnig kom hann inn á verndun íslenska birkikjarrsins og kynbætur á birki sem hann hefur verið virkur þátttakandi í. Færði hann klúbbnum „Sjá roðann í austri“, brúnleita birkiplöntu, sem verður rauð á haustin. Félagar komu færandi hendi með tráplöntur sem voru settar niður. Systkinin Astrid og Agnar Kofoed-Hansen, uppkomin barnabörn fyrsta skógræktarstjórans, gróðursettu yrkið Kofoed í lundinn en klúbburinn hafði í tilefni tímamótanna keypt birkiplöntur af yrkjunum Kofoed og Emblu. Veðrið lék við þátttakendur og samkoman var í alla staði vel heppnuð. Agnar og Astrid Kofoed-Hansen, Sigrún Gísladóttir, forseti Rótarýklúbbsins Görðum og Þorsteinn Tómasson.
Það er sannarlega munaður að fá sér göngu í þessu fallega útivistarsvæði Garðbæinga. Setjast með kaffibolla við borðin góðu og njóta dásamlegs útsýnis yfir Vífilsstaðavatn.
Myndir og texti Guðmundur H. Einarsson, Rkl Görðum