Fréttir

13.5.2014

Rkl. Seltjarnarness minntist Jóns Gunnlaugssonar, fyrrum umdæmisstjóra

Rótarýklúbbur Seltjarnarness efndi til fundar í Nauthól  við Fossvog sl. föstudag til að minnast þess að daginn áður, 8. maí, voru 100 ár liðin frá fæðingu Jóns heitins Gunnlaugssonar, læknis, sem beitti sér fyrir stofnun klúbbsins og var fyrsti forseti hans 1971. Jón gegndi embætti umdæmisstjóra Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi 1980-1981.

Guðmundur Snorrason, starfandi forseti klúbbsins, setti fundinn og bauð sérstaklega velkomna afkomendur Jóns Gunnlaugssonar og Selmu Kaldalóns, eiginkonu hans. Guðmundur Einarsson klúbbfélagi hafði tekið saman myndasyrpu um starf þeirra hjóna í Rótarý, sem sýnd var á tjaldi.
Örn Smári Arnaldsson, félagi í klúbbnum og fyrrum umdæmisstjóri, rifjaði upp fyrstu kynni sín af Jóni á vettvangi Læknafélags Reykjavíkur á árunum 1972-1974, þegar Jón sat í stjórn félagsins. Þá orðaði Jón það, að stofnaður hefði verið rótarýklúbbur á Seltjarnarnesi og bauð hann Erni Smára að gerast félagi, sem varð allöngu síðar.
Jón var fyrsti Paul Harris-félagi klúbbsins 1984, þá sjötugur að aldri. Á fundi 11. maí það ár þakkaði hann heiðurinn og sagði rótarýstarfið hafa verið sér ánægjulegt m.a. hafa veitt mörg tækifæri til ferðalaga og kynningar við fólk. Það hefði veitt honum lífsfyllingu. Örn Smári vitnaði í minningargrein um Jón eftir Aðalstein Sigurðssonar félaga í klúbbnum, þar sem sagði m.a.: „Jón var alltaf jákvæður gagnvart góðum málum, í Rótarýhreyfingunni, kirkjunni, bæjarfélaginu og á landsvísu. Skemmtilegur í samræðum og maður sem hægt var að treysta.“
Jón var fæddur í Höfn í Bakkafirði 8. maí 1914 og lést 14. apríl 1997. Þegar Jón var 18 ára flutti fjölskyldan til Akureyrar og lauk Jón stúdentsprófi frá MA 1937. Faðir hans féll frá árið 1933 og vegna fjárskorts þurfti Jón að vinna með náminu í menntaskólanum og einnig næstu árin en hóf að lesa læknisfræði 1940 og útskrifaðist 1947. Jón og Selma Kaldalóns gengu í hjónaband 1944. Selma lést 1984. Þau eignuðust níu börn, fimm dætur og fjóra syni. Selma mætti á nánast alla jólafundi klúbbsins frá 1971 til 1983, lék á slaghörpu og stýrði söng viðstaddra.
Jón Gunnlaugsson starfaði fyrst um nokkurra mánaða skeið hjá héraðslækninum í Keflavík en var héraðslæknir í Reykhólahéraði 1947-1953. Þá flutti fjölskyldan til Selfoss þar sem Jón var læknir í tæp 11 ár. Í ágúst 1955 gekk hann í Rótarýklúbb Selfoss. Hann fór til viðbótarnáms í Danmörku og Svíþjóð en hóf síðan læknisstörf í Reykjavík 1965 og varð félagi í Rótarýklúbbi Kópavogs. Síðar settist fjölskyldan að á Setjarnarnesinu. Jón gegndi ýmsum trúnaðarstörfum á vegum læknasamtakanna. Hann beitti sér fyrir varðveislu Nesstofu, hins forna embættisbústaðar landlæknis. Þá sat hann í undirbúningsnefnd vegna dvalarheimilis, hjúkrunarheimilis og heilsugæslustöðvar á Seltjarnarnesi. Hann tók virkan þátt í störfum áfengisvarnanefnda í byggðarlögunum, þar sem hann þjónaði sem læknir.
Kjartan Norðfjörð var einn af samstarfsmönnum Jóns Gunnlaugssonar við stofnum Rótarýklúbbs Seltjarnarness 1971. Í ávarpi sínu gat Kjartan þess að sér hefði boðist að vera í fyrstu stjórninni sem stallari, þá 28 ára gamall. Hefði það verið mjög lærdómsríkt fyrir sig sem ungan mann að fræðast af Jóni um hugsjónir rótarýmanna og störf þeirra um allan heim.
Auk þeirra Jóns og Kjartans voru í fyrstu stjórn klúbbsins þeir Björn Jónsson, Stefán Ágústsson og Ingi B. Halldórsson. Jón var sá eini sem hafði starfað í Rótarý, verið í tveim klúbbum í samtals 16 ár. Aðrir hvatamenn voru þáverandi umdæmisstjóri Ásgeir Magnússon í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Austurbær og fyrrum umdæmisstjóri Ólafur G. Einarsson, Rótarýklúbbnum Görðum, sem er móðurklúbbur Seltjarnarnessklúbbsins.
Eftir stofnun klúbbsins hinn 20 marz 1971 fór starfið í alvöru af stað í nývígðu félagsheimli Seltjarnarness, á sama stað og klúbbfundirnir eru enn haldnir. Kjartan lýsti skemmtilega hvernig fyrstu hádegisverðarfundir klúbbsins fóru fram.
„Jón flutti tilkynningar og annan fróðleik og algjör þögn ríkti í salnum. Forseti gaf stallara merki um að nú mætti bera fram matinn. Inn gengu tvær stúlkur með súputarínur á hvert fjögurra manna borð. Að súpunni lokinni voru borin inn föt með fiski eða kjötmeti á hvert fjögurra manna borð. Að borðhaldinu loknu kveiktu flestir sér í sígarettu eða pípu en Jón forseti fékk smávindil, borinn inn á litlum diski. Eftir það var erindi. Svona man ég fyrstu fundina.“
Á fyrsta starfsárinu voru haldnir 15 stjórnarfundir á heimili Jóns og Selmu. Útsýni af heimili þeirra til Gróttu og Nesstofu hefur verið hvati til verkefna fyrir klúbbinn enda Jón einlægur áhugamaður um uppbyggingu og verndun Nesstofu. Ennfremur verndun og friðhelgi Gróttu, sem þá var enn ekki friðuð. Rótarýklúbburinn beitti sér í málinu og hefur síðan unnið að hreinsunarstörfum og verndun minja í Gróttu.
Í forsetatíð Kristjáns Norðfjörð í ársbyrjun 1978 komu forvígismenn Garðaklúbbsins að máli við hann og vildu styðja það að Jón Gunnlaugsson yrði umdæmisstjórarefni 1980-81. Á fundi Seltjarnarnessklúbbsins 3. marz 1978 gat Kjartan tilkynnt að Jón hefði fallist á að taka tilnefningu til umdæmisstjórastarfsins.
„Ég hef aldrei fyrr eða síðar orðið vitni að öðrum eins fagnaðarlátum í Rótarýklúbbi Seltjarnarness,“ sagði Kjartan. "Menn hrópuðu húrra og risu úr sætum og klöppuðu Jóni lof í lófa lengi, lengi. Mér fannst eins og félögum fyndist kúbburinn kominn af gelgjuskeiðinu og kominn í fullorðinna manna tölu.“
Á síðasta fundi í forsetatíð Kjartans hinn 30. júní 1978 gat hann tilkynnt að tilnefning Jóns hefði verið samþykkt. Sá klúbburinn síðan um umdæmisþingið 1981 og var Kjartan í undirbúningsnefnd. „Umdæmisþingið, sem haldið var á Laugarvatni, var klúbbnum og Jóni til mikils sóma og góður endapunktur á glæstum umdæmisstjóraferli hans,“ sagði Kjartan Norðfjörð að endingu.
Dr. Gunnlaugur A. Jónsson, sonur Jóns Gunnlaugssonar, er félagi í Rótarýklúbbi Seltjarnarness. Hann lýsti föður sínum, lífsviðhorfum hans , félagsstörfum og fjölskyldulífi á einlægan hátt. Gunnlaugur sagði m.a.:
„Eftir að pabbi fluttist með fjölskyldunni til Reykjavíkur aðeins 50 ára að aldri eftir ellefu ára starf á Selfossi, þar sem ég held að megi segja að hann hafi aldrei fengið fullan nætursvefn vegna sífelldra sjúkravitjana upp í sveitir að næturlagi, þá gekk hann til liðs við Rótarýklúbb Kópavogs. Mér finnst það, eftirá að hyggja, dæmigert að hann skyldi taka klúbb í Kópavogi fram yfir einhvern Reykjavíkurklúbbinn. Hann var nefnilega í eðli sínu sveitamaður, fremur hlédrægur þó að hann ætti alltaf gott með að standa upp og halda ræður. Hann sagði stundum að ef hann hefði ekki orðið læknir þá hefði hann getað hugsað sér að vera bóndi, já eða jafnvel prestur.“
Og Gunnlaugur sagði að faðir sinn hefði verið rótarýmaður af lífi og sál. Hann lagði ennfremur áherslu á þátttöku móður sinnar Selmu Kaldalóns í rótarýstörfum föður síns.
„Þegar ég bjó í Svíþjóð á níunda áratugnum og stundaði þar framhaldsnám við Lundarháskóla kom pabbi nokkrum sinnum í heimsókn og það brást ekki að hann fór á rótarýfund í Lundi. Það gerði hann einnig er hann heimsótti þær fjórar systur mínar sem bjuggu í Danmörku, Noregi og Kanada. Í öllum þessum löndum sótti hann rótarýfundi. Ég minnist frásagna af því er hann hafi í Kanada með aðstoð tengdasonar sýnt myndir frá Íslandi og kynnt land og þjóð. Þannig að ég held að það sé ekki ofsögum sagt að hann hafi verið rótarýmaður af lífi og sál. Í áðurnefndri ræðu Björns Jónssonar, annars forseta klúbbsins, frá fundinum í Prag 2001 [hópferð klúbbsins] benti hann m.a. á að til að menn yrðu langlífir í klúbbnum þyrfti makinn að vera sáttur við félagsskapinn. – Það átti sannarlega við um móður mína. Það var raunar hún sem hvatti pabba til að ganga í Rótarý á Selfossi á sínum tíma þegar henni fannst nóg um annir hans í vinnunni. Það var gæfuspor. Og mamma fylgdi honum sem umdæmisstjóra á fundi hans út um land og einnig erlendis. Systir mín hefur sagt frá því að á alþjóðaþingi á Flórída í umdæmisstjóratíð pabba 1980-1981 hafi mamma, sem var hálfdönsk og talaði lýtalausu dönsku en var slök í ensku, samt stolið senunni. Settist við flygil sem þar var og spilaði af fingrum fram tónlist fyrir mörg hundruð rótarýfélaga víðs vegar úr heiminum við afar góðar undirtektir.“
Að lokum rifjaði Gunnlaugur upp þá gleði sem faðir hans hafði af þátttöku í rótarýhreyfingunni kominn á efri ár.
„Þegar faðir minn gerðist gamall og aldurhniginn og jafnvel nokkuð þunglyndur á stundum sótti hann styrk einkum í tvennt fyrir utan fjölskylduna. Það var annars vegar trúin og kirkjan og hins vegar Rótarýhreyfingin. Minnist ég þess að Aðalsteinn Sigurðsson (1916-2007), fiskifræðingur, sá elskulegi maður sem var aðeins tveimur árum yngri en pabbi, kom oft og sótti hann á fundi þegar hann treysti sér ekki til að koma sér sjálfur. Og er hann var kominn inn á hjúkrunarheimilið Eir í Grafarvogi vissi ég til þess að ýmsir rótarýfélagar heimsóttu hann þangað og þótti okkur í fjölskyldunni vænt um það og tel ég það raunar mjög i anda Rótaýhreyfingarinnar.
Að lokum vil ég þakka ykkur rótarýfélögum mínum fyrir að halda þennan fund í minningu föður míns, af því tilefni að í gær voru liðin hundrað ár frá fæðingu hans. Fyrir það erum við börn hans, tengdabörn og niðjar afar þakklát. Rótarýhreyfningin gaf pabba mikið og nú get ég með sanni sagt það sama um mig. Hinir vikulegu fundir í þessum góða félagsskap gefa mér mikið og reyni ég, ef ég mögulega get, að sækja alla fundi.
– Kærar þakkir, góðu félagar og vinir!“
Í lok fundarins  lék Ágústa Dómhildur Karlsdóttir, fiðluleikari, lagið „Ég lít í anda liðna tíð“ eftir Sigvalda Kaldalóns, tengdaföður Jóns Gunnlaugssonar.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning