Fréttir

6.5.2014

Mótorhjólamenn í Rótarý undirbúa sumarferðir

Hér á landi er starfandi skemmtilegur félagsskapur, IFMR, sem er skammstöfun á International Fellowship of Motorcycling Rotarians. Þeir vinna  með norrænum félögum sínum en tilsvarandi félög eru víðsvegar um heiminn og starfa vel saman. Sjá www.ifmr.org

Að sögn Björns Viggóssonar, Rótarýklúbbi Grafarvogs og klúbbmeistara IMFR á Íslandi, er starfið hjá mótorhjólamönnum Rótarý á Íslandi líflegt og í sumar verða farnar 13 mótorhjólaferðir á vegum IFMR Ísland, 12 styttri kvöldferðir og ein lengri helgarferð. Alla miðvikudaga frá 5. júní til 28. ágúst verður farið í styttri kvöldferðir. Farið verður af stað frá Shell við Vesturlandsveg kl. 20.00. Hver ferð gefur mætingu.
Dagana 15.-17. ágúst verður farið til Akureyrar. Lagt verður af stað kl. 15.00 á föstudegi. Farið á laugardegi til Mývatns og Húsavíkur. Á sunnudegi verður hjólað um Héðinsfjarðargöng til Siglufjarðar og til Reykjavíkur.
Björn hefur sent út eftirfarandi skilaboð til klúbbanna: „Góðir félagar, Rótarýhreyfingin þarf ávallt nýtt fólk. Kynnið IFMR fyrir ungu og miðaldra fólki, kynnið drauminn um að hjóla innanlands og erlendis með góðum félögum. Fátt er betra til að laða að ungt fólk með drauma. Hvernig væri að snúa dæminu við? Fáið ungt fólk í IFMR og þá verður það um leið félagar í Rótarý! Einn góður Rótarýmaður sagði eitt sinn að hann hefði eignast marga kunningja í Rótarý en góðu vinirnir væru í IFMR.“
Lítil ferðasaga sem fylgdi með:
„Í ágúst var farin mjög góð þriggja daga ferð til Ísafjarðar. Gist fyrri nóttina á Hótel Reykjanesi og á Hótel Eddu á Ísafirði síðari nóttina. Farin var frábær kajakferð með Vesturferðum á laugardeginum, róið um Pollinn og alveg inn að flugvelli. Síðan var hjólað til Bolungarvíkur og drukkið kaffi í gleðihúsinu (Einarshús, sem kallað er „hús gleðinnar“). Eftir það fórum við í stuttan hjólatúr til Súðavíkur. Toppurinn, og um leið aðaltilgangur ferðarinnar, náðist kl. 19.00 á laugardeginum þegar við fórum í fiskihlaðborð í Tjöruhúsinu. Þvílík veisla. Veðrið var mjög gott allan tímann, milt og hékk hann þurr að mestu. Á sunnudag brast á með sólskini og þannig hjóluðum við glaðir 
í bæinn. Kristján var í þvílíku stuði að hann gat ekki hætt að hjóla, hélt áfram norðurfyrir og tók hringveginn með vini sínum sem mætti okkur í Borgarfirði. Þeir sem fóru: Björn Tryggvason, Björn Viggósson, Kristján Guðjónsson og Héðinn Stefánsson gestur.“

Tvisvar hafa norrænir IFMR félagar heimsótt Ísland. Fyrra skiptið var árið 2007 þegar stór hópur kom með Norrænu og hjólaði hringinn um Ísland á tveim vikum. Ferðin tókst frábærlega og voru alls 38 þátttakendur á 26 mótorhjólum. Árið 2011 var haldinn haustfundur IFMR á Íslandi. IFMR á Íslandi hefur staðið fyrir fjölmörgum ferðum um land allt og heimsótt marga Rótarýklúbba.
Þeim sem áhuga hafa á þátttöku er bent á að hafa samband við Björn Viggóssson, netfang bjornviggosson@gmail.com. Sími 842 5248.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning