Fréttir

24.4.2014

Nýr áfangi rótarýmanna að minjavernd í Gróttu

Fyrir 35 árum tók Rótarýklúbbur Seltjarnarness að sér að gera við  verbúðina í Gróttu, hina svokölluðu Albertsbúð, sem kennd er við Jón Albert Þorvarðarson, vitavörð í Gróttu á árunum 1931 til 1970. Í Albertsbúð fundar rótarýklúbburinn þrisvar eða fjórum sinnum á ári. Nú hefur klúbburinn einnig staðið fyrir endurgerð bryggjunnar við Albertsbúð og var staða framkvæmdanna kynnt á klúbbfundi í Gróttu fyrr í þessum mánuði.

Rótarýfélagar urðu að sæta sjávarföllum til að mæta á klúbbfund í Gróttu í föstudagshádegi á venjulegum fundartíma klúbbsins. Svo vel vildi til að háfjara var um um 10-leytið og því var hægt að aka í eyna um fjörusandinn. Upp úr kl. 13 var farið að falla að og eins gott fyrir klúbbfélaga að koma sér með hraði í land.
Á fundinum var borin fram fiskisúpa en aðaldagskrárefni var frásögn af framkvæmdum við bryggjuna, sem er hið myndarlegasta mannvirki. Guðmundur Ásgeirsson, félagi í Rótarýklúbbi Seltjarnarness og formaður Gróttunefndar, gerði  grein fyrir verkefninu sem hefur verið unnið í samvinnu við Seltjarnarnesbæ.  Ástand bryggjunnar var orðið mjög lélegt. Þekjan hafði gefið sig og með tímanum hafði sjórinn brotið niður hleðsluna. Klúbbfélögum óx viðfangsefnið óneitanlega í augum en fyrir tveimur árum var látið til skarar skríða. Þá fékk klúbburinn að nýta efniðvið úr bryggju sem verið var að rífa í Örfirisey. Sú bryggja hafði verið byggð um 1950 og notaður í hana úrvalsviður þannig að eftir viðgerðina er bryggjan í Gróttu mun sterkbyggðari en þegar hún var upphaflega smíðuð um 1930. Rótarýklúbburinn hefur staðið straum af efniskaupum vegna lokaáfanganna við bryggjuna en Seltjarnarnesbær hefur lagt til vinnuframlag starfsmanna sinna, sem  unnu að verkinu á sl. ári og undanfarnar vikur.
Þegar allur lokafrágangur er afstaðinn mun bryggjan verða myndarlegt tákn um framhald á lofsverðu frumkvæði rótaryklúbbsins að minjavernd í Gróttu.  Eyjan hefur mikið aðdráttarafl sem útivistarstaður og er svæðið friðlýst. Seltjarnarnesbær hefur staðið  myndarlega að verki við endurgerð vitavarðarhússins sjálfs og einnig byggt fræðasetur til menntunar og kennslu.
 


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning