Fréttir

19.3.2014

Guðbjörg Kristjánsdóttir Eldhugi Kópavogs 2014

Á fundi Rótarýklúbbs Kópavogs fyrir skömmu var Guðbjörg Kristjánsdóttir, listfræðingur og forstöðumaður Listasafns Kópavogs, Gerðarsafns, útnefnd Eldhugi Kópavogs 2014. Rótarýklúbburinn hefur um árabil útnfefnt Eldhuga ársins.

Á 350 ára afmæli Árna Magnússonar handritasafnara, 13. nóvember sl. var opnuð merk sýning í Gerðarsafni í Kópavogi, að viðstöddum m.a. Danadrottningu, forseta Íslands, menntamálaráðherra og fjölda fræðimanna á sviði lista og menningarsögu. Tilefnið var opnun sýningar á myndum, ásamt skýringartextum úr nýútgefinni bók eftir Guðbjörgu Kristjánsdóttur, Íslensku teiknibókinni.

 Þórír Ólafsson, formaður viðurkenningarnefndar, Guðbjörg Kristjánsdóttir og

                                                                     Jón Ögmundsson, forseti klúbbsins.

Á miðöldum og fram á endurreisnartímann bjuggu listamenn til handbækur með myndefnum sem þeir notuðu við vinnu sína og gengu mann fram af manni. Þessi vinnuplögg eyddust flest og týndust með tímanum og í Evrópu allri er nú aðeins vitað um tæplega fjörutíu slík handrit. Á Norðurlöndunum er aðeins til eitt, íslenska teiknibókin. Hún varpar ómetanlegu ljósi á vinnulag teiknara og lýsenda handrita á fjórtándu og fimmtándu öld og er í raun kennslubók teiknarans, rétt eins og Snorra-Edda var rituð sem kennslubók ungra skálda. Segja má að Teiknibókin hafi samskonar gildi fyrir skilning okkar á lýsingum í handritum og Edda Snorra fyrir rannsóknir á kveðskap dróttkvæðanna. Teiknibókin er ein af merkustu skinnbókunum í safni Árna Magnússonar. Verðmæti hennar birtist ekki í ytra útliti: brotið er lítið, bókfellið þykkt og dökkt, blöðin illa skorin, sum skert og önnur götuð, enda var bókin í notkun allt fram á sautjándu öld. Auður hennar er fólginn í einstakri innsýn í myndheim kaþólskunnar, sérkenni íslenskrar mynd- og skreytilistar á síðmiðöldum og táknfræði trúarlegra myndverka.

Frá afhendingarathöfninni. Guðbjörg Kristjánsdóttir ásamt félögum í Rótarýklúbbi Kópavogs.

Guðbjörg Kristjánsdóttir listfræðingur hefur um áratugaskeið rannsakað Teiknibókina og niðurstöður hennar kollvarpa flestu því sem áður hefur verið haldið fram. Hún hefur einangrað ólíka stíla í handritinu og heimfærir þá upp á fjóra teiknara sem voru uppi á árabilinu 1330 – 1500. Í rannsókn sinni bregður hún ljósi á það hvernig túlkun teiknaranna þróast í tímans rás, bendir á fyrirmyndir þeirra og hliðstæður í öðrum bókum. Með nákvæmri og frumlegri rannsókn á einu handriti bætir Guðbjörg mörgum köflum við menningarsögu okkar. Frekari staðfesting á þessu merka verki Guðbjargar fékkst síðan við úthlutun bókmenntaverðlauna ársins á Bessastöðum 30. janúar sl. er Guðbjörg hlaut verðlaunin í flokki fræðibóka.

                                                                                                                                          Ljósm. Geir A. Guðsteinsson


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning