Fréttir

18.3.2014

Skákmót Rótarý verður haldið 7. apríl

Rótarýklúbburinn Reykjavík-Breiðholt heldur skákmót undir merkjum Rótarý á Grand Hótel í Sigtúni í Reykjavík mánudaginn 7. apríl nk. Mótið verður haldið í framhaldi af hinum reglubundna rótarýfundi klúbbsins þar sem stórmeistararnir Friðrik Ólafsson og Helgi Ólafsson segja frá kynnum sínum af heimsmeistaranum Bobby Fischer. Fundur klúbbsins hefst kl. 18.15. Skákmótið hefst að honum loknum kl. 20 og stendur í um tvær klukkustundir.

Jón L. Árnason, stórmeistari í skák, er félagi í Breiðholtsklúbbnum og fyrirliði í undirbúningsnefnd skákmótsins. Hann var spurður um þátttökuskilyrði.
„Mótið er opið fyrir alla Rótarýfélaga, af öllu landinu,“ svaraði Jón. „Mótið er einstaklingskeppni en jafnframt verða veitt verðlaun fyrir samanlagðan árangur tveggja bestu frá hverjum klúbbi. Veitt verða þrenn verðlaun fyrir klúbba og þrenn verðlaun fyrir efstu einstaklinga.“
Og hvað kostar það að vera með?
„Þátttökugjald er 1.000 kr,“ svaraði Jón.“ En þeir sem koma á hefðbundinn fund klúbbsins á undan greiða einnig fundargjald, 2.600 kr.  Á fundinum munu stórmeistararnir Friðrik Ólafsson og Helgi Ólafsson segja frá kynnum sínum af Bobby Fischer og er ekki að efa að það verður fróðleg upprifjun fyrir skákáhugamenn sem aðra.“
Þarf fólk að vera þrautreynt í skákíþróttinni til að vera gjaldgengt á mótinu?
„Nei, alls ekki,“ sagði Jón L. með nokkrum áhersluþunga.  „Þetta á að vera með léttu yfirbragði, góð skemmtun. Það er engin krafa um að þátttakendur skarti Elo-skákstigum en æskilegt að þeir kunni mannganginn!“
Tefldar verða sjö umferðir eftir svonefndu svissnesku kerfi en í því felst að dregið verður um það hverjir tefla saman í fyrstu umferð en síðan munu þeir efstu úr umferðunum tefla saman og þeir sem færri hafa vinninga mætast innbyrðis. Þannig ættu allir að fá keppinauta við hæfi.
 „Við viljum sjá sem allra flesta skákáhugamenn á mótinu, sem er fyrsta skákmót rótarýklúbbanna,“ sagði Jón. „Ef vel tekst til vonumst við til þess að framhald verði á. Við reiknum með að mótið sjálft taki um tvær klukkustundir. Tefldar verða 7 umferðir og verður umhugsunartími 7 mínútur á skák.“
Skáknefndin hvetur sem flesta til að skrá sig í mótið. Skráningu lýkur 6. apríl.  Skráning er hjá formanni skáknefndar, Jóni  L. Árnasyni  jonlarnason@gmail.com


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning