Fréttir
  • þema 2014, merki

17.3.2014

“Vörpum ljósi á Rótarý” einkunnarorð næsta starfsárs

Einkunnarorð Rótarý á Íslandi á næsta starfsári, sem hefst  hinn 1. júlí verða „Vörpum ljósi á Rótarý“. Guðbjörg Alfreðsdóttir, næsti umdæmisstjóri, kynnti þetta fyrir verðandi forsetum og riturum klúbbanna, sem sátu fræðslunámskeið sl. laugardag 15. mars. Það var Eiríkur H. Sigurðsson, félagi í Rótarýklúbbi Mosfellssveitar og formaður útbreiðslunefndar umdæmisins, sem gerði tillögu um þessa þýðingu á einkunnarorðum næsta alþjóðaforseta, Gary C.K. Huang frá Tævan, "Light Up Rotary".


Á námskeiðinu, sem haldið var í húsnæði Menntaskólans í Kópavogi, rifjaði Guðbjörg Alfreðsdóttir upp, að hún hefði lýst eftir tillögum um þýðingu og hefðu margar góðar borist. Eiríkur H. Sigurðsson hefði látið þá skýringu fylgja tillögu sinni, að hann vonaðist til þess að Rótarýfélagar myndu nú láta verða af því að upplýsa samborgarana betur um hvað Rótarýhreyfingin er að gera og hvað stæði til.
Guðbjörg þakkaði Eiríki fyrir og bætti því við að um það hefði verið rætt í nokkur ár að gera starf rótarýklúbbanna sýnilegra í samfélaginu. Kvaðst hún vonast til þess að þessi nýju einkunnarorð myndu stuðla að því.
Ennfremur rakti Guðbjörg áhersluatriði sín í embætti umdæmisstjóra á næsta rótarýári. Þar ber hæst fjölgun félaga og stofnun nýrra klúbba.Talað hefur verið um tvo nýja klúbba. Eru núverandi félagar í klúbbunum hvattir til að líta til maka, vina, barna og fjölskyldna þegar hugað er að góðum liðsmönnum, sem aðhyllast grundvallarhugsjónir Rótarý og vilja koma til starfa.

Í öðru lagi hvatti Guðbjörg til þess að framlag klúbbanna til Rótarýsjóðsins yrði 100 Bandaríkjadalir á hvern félaga, sem innheimt verði með félagsgjöldum eða fjármagnað á annan hátt.
Í þriðja lagi mun hún beita sér fyrir að Rótarýdagar verði haldnir í öllum klúbbum. Sama dagsetning verði fyrir þennan viðburð hjá þeim öllum. Vinnuhópur mun á síðari stigum senda ítarlegri upplýsingar til klúbbanna um skipulag. Um verði að ræða a.m.k. eitt samfélagsverkefni hjá hverjum klúbbi og það gert eins sýnilegt í nærsamfélagi klúbbsins og frekast er unnt.
„Notum daginn í dag vel til undirbúnings starfsársins,“ sagði Guðbjörg Alfreðsdóttir í lok setningarræðu sinnar á fræðslumóti verðandi forseta og ritara klúbbanna. “Framundan er okkar starfsár og okkar tækifæri. Við erum teymið sem á að halda uppi merki  rótarýhugsjónarinnar á næsta starfsári. Það mun veita ykkur ánægju. Því get ég lofað ykkur.“  
                                                                                                                                                                          möa


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning