Umdæmisráð veitir klúbbum styrki vegna nemendaskipta
„Starfsárið líður ótrúlega hratt. Margt minnisstætt hefur gerst eins og heimsóknir í alla rótarýklúbbana, aðrir fundir heima og erlendis, námskeið og fræðslumót,“ sagði Björn B. Jónsson, umdæmisstjóri í ávarpi sínu á fræðslumótinu með verðandi forsetum og riturum íslensku rótarýklúbbanna, sem fram fór um síðustu helgi.
Björn minntist sérstaklega velheppnaðs umdæmisþings, sem haldið var á Selfossi í september. Það hefði endurspeglað samheldni rótarýfólks og ómetanlegt væri fyrir slíkan hóp að koma saman og ræða hugðarefni sín. „Þar gafst tækifæri til að þroska okkur í að vera það sem við viljum vera,“ sagði Björn. Hann rifjaði einnig upp stutt samtal við unga konu, sem verið hefði á þinginu og lét í ljós ánægju sína og lagði til að slíkt þing fyrir nýja rótarýfélaga yrði skipulagt. „Og þetta var svo gaman,“ hefði hún bætt við þegar Selfossþingið var rifjað upp. Björn kvað þetta tilefni til áréttingar því að rótarýfólk af öllu landinu fjölmennti á umdæmisþingin, sem væru undirbúin af miklum metnaði og þjöppuðu fólki saman.
Heimsóknir í klúbbana sagði Björn hafa verið mjög lærdómsríkar sakir öflugrar starfsemi, sem hann hefði stundum lítið sem ekkert vitað um fyrirfram. Hann sagði ýmis verkefni þeirra verðskulda miklu meiri athygli í næsta umhverfi, meðal landsmanna almennt og jafnvel erlendis. Björn minnti á breytingar, sem gerðar hafa verið á Rótarýsjóðnum alþjóðlega og hvernig umdæmi og klúbbar geta að þremur árum liðnum fengið til baka hluta af framlögum sínum í sjóðinn til eigin verkefna. Undirstrikaði hann að Rótarý á Íslandi þyrfti að undirbúa þessi mál vel. Þá fjallaði hann einnig um góðan árangur af starfi tónlistarsjóðs Rótarý sem veitt hefði ungu fólki styrki til framhaldsnáms og væru ýmsir styrkþegarnir orðnir mjög áberandi í íslensku tónlistarlífi. Þeir hafa m.a. komið fram á hinum árlegu stórtónleikum Rótarý sem Björn sagði að tekist hefðu sérlega vel og rótarýfélagar ættu ekki að láta fram hjá sér fara. Einnig veitir Rótarý íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum styrki og þar með væri hreyfingin að efla athafnasemi í landinu og styrkja inn í framtíðina.
Björn minnti á nýjung í starfinu, sem væri skákmót í nafni Rótarý, og haldið verður hinn 7. apríil n.k. Sagðist hann gera ráð fyrir að hér yrði um árlegan viðburð að ræða miðað við viðbrögðin nú.
Ýmsar athyglisverðar breytingar hafa nýlega orðið á alþjóðlegu heimasíðunni rotary.org. Björn sagði netvæðinguna í upplýsingamiðlun um Rótarý mjög spennandi og gera almennt auknar kröfur til forystufólks í klúbbunum. Það ætti líka við um vefsvæði íslensku rótarýhreyfingarinnar rotary.is, sem klúbbarnir ættu að notfæra sér mun betur en gert er. Einnig hefði orðið ánægjuleg framþróun í notkun samfélagsmiðlanna fyrir Rótarý á Íslandi. Þá nefndi hann ennfremur hina rafrænu útgáfu tímaritsins Rotary Norden.
Ólöf Hafþórsdóttir segir frá nemendaskiptum Rótarý. Með henni eru skiptinemarnir Jessica, Daria og Mateo.
Í dagskrá fræðslumótsins voru æskulýðsstarfi og nemendaskiptum Rótarý gerð mjög góð skil. Björn umdæmisstjóri nefndi fækkun erlendra skiptinema sem klúbbarnir taka á móti til námsdvalar hér á landi. Umdæmisráð hefur því ákveðið að veita aðstoð sína og verða klúbbum veittir 150 þús. króna styrkir fyrir hvern skiptinema sem þeir taka á móti.
„Raunverulegt starfsár ykkar er frá deginum í dag,“ sagði Björn umdæmisstjóri í lok ávarps síns á fræðslumótinu. „Ég hvet ykkur til að byrja strax. Notið tímann strax í dag og næstu daga og lítið svo á að starfið sé byrjað nú þegar. Hinn 1. júlí á allt að vera klárt. Þetta er öflugur hópur, sem er að koma til leiks og mun láta rótarýhjólið snúast rækilega enda erum við hlekkur í einum stærstu samtökum í heimi, sem eru að vinna að góðum málefnum.“
möa