Fréttir

17.3.2014

Yfirgripsmikið fræðslumót fyrir forseta og ritara

Fræðslumót fyrir verðandi forseta og ritara í íslensku rótarýklúbbunum var haldið laugardaginn 15. mars í Menntaskólanum í Kópavogi. Dagskráin var mjög fjölbreytt og full af fróðleik fyrir þá sem leiðtogahlutverki gegna á næsta starfsári.

Margrét Friðriksdóttir, fyrrverandi umdæmisstjóri, var fundarstjóri. Í dagskránni var áhersla lögð á æskulýðsstarfsemina og hagnýt verkefni í notkun heimasíðna Rótarý við skráningu mætinga, fundargerða og annarra innri upplýsinga.
Fyrst á dagskrá fræðslumótsins voru ávörp Guðbjargar Alfreðsdóttur, verðandi umdæmisstjóra 2014-15, og Björns B. Jónssonar, núverandi umdæmisstjóra. Síðan kynnti Klara Lísa Hervaldsdóttir störf æskulýðsnefndar umdæmisins og Ólöf Ósk Hafþórsdóttir kom fram og sagði frá reynslu sinni af nemendaskiptum Rótarý og kynnti erlendu skiptinemana þrjá, sem dvalist hafa á vegum Rótarý hér á landi að undanförnu, þau Mateo frá Ekvador, Daria Magdalena frá Sviss og Jessica Ruth frá Bandaríkjunum. Þar á eftir greindi Andrea Ósk Sigurbjörnsdóttir frá rekstri sumarbúða Rótarý fyrir ungt fólk og reynslu sinni af þátttöku í því starfi, m.a. í Ísrael og Tyrklandi. Síðasti liðurinn í kynningu á starfi ungs fólks á vegum Rótarý var frásögn Áslaugar Bjarkar Ingólfsdóttur af starfsemi Rotaractklúbbsins Geysis, sem stofnaður var 2008.

Klara Lísa

Þessu næst var á dagskránni fræðsla um hlutverk forseta og ritara með hagnýtum upplýsingum og æfingum í skráningu á innri vefsíður Rótarý, bæði rotary.is og rotary.org. Þá fræðslu annaðist Guðni Gíslason, fh.vefsíðunefndar en Guðbjörg Alfreðsdóttir fjallaði um hlutverk forseta og ritara.

Guðni Gíslason

Per Hylander, fræðslufulltrúi Rotary International fyrir svæði 16, flutti erindi um félagaþróun og starfsáætlanir klúbba, sem hann nefndi ”How to be a vibrant club and grow”. Síðan voru stuttar kynningar undir samheitinu „Rótarýklúbburinn og starfið“. Birna G. Bjarnadóttir ræddi um Rótarýsjóðinn, Eiríkur Örn Arnarson um námsstyrki Rótarý, Markús Örn Antonsson um heimasíðuna rotary.is og Eiríkur H. Sigurðsson greindi frá störfum útbreiðslunefndar.
Lokaþátturinn í störfum fræðslumótsins var umfjöllun Tryggva Pálssonar, fyrrum umdæmisstjóra, um stefnumótun og starfsáætlanir klúbba. Því næst störfuðu umræðuhópar um hríð og kynntu síðan niðurstöður sínar í mótslok. Þrjú atriði voru tekin þar til meðferðar, þ.e. 1. Starfsáætlun rótarýklúbbs 2014-2015, 2. Hvernig ætla ég að fjölga rótarýfélögum? og 3. Annað sem ástæða er til að ræða. Umræðum stjórnuðu Margrét Friðriksdóttir, umdæmisleiðbeinandi og aðstoðarumdæmisstjórarnir Knútur Óskarsson, Esther Guðmundsdóttir og Eyþór Elíasson.

                                                                                                                                                                         möa


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning