Fréttir

30.11.2007

Stórtónleikar Rótarý 4. og 5. janúar nk. í Salnum

Nú líður að árlegum Stórtónleikum Rótary í Salnum, Tónlistarhúsi Kópavogs, og vegna mikillar aðsóknar undanfarin ár verða haldnir tvennir tónleikar; þeir fyrri föstudagskvöldið 4. janúar 2008 kl. 20 og hinir síðari laugardaginn 5. janúar 2008 kl. 17. Tónleikarnir eru aðeins ætlaðir félögum í Rotary-hreyfingunni og gestum þeirra, en þarna gefst kjörið tækifæri til að kynna fjölskyldu og vinum þennan menningarþátt í starfi hreyfingarinnar.  Samkvæmisklæðnaður tíðkast enda um hátíðartónleika að ræða.

Mikil aðsókn hefur verið að Stórtónleikum Rótarý undanfarin ár.  Vakin er sérstök athygli á því að miðasala hefst í Salnum fimmtudaginn 6. des kl. 10. Miðasalan er opin virka daga kl. 10-16. Sími í miðasölu er 5 700 400. Netsala á www.salurinn.is

Að þessu sinni er það rússneska söngstjarnan Irena Romishevskaya, mezzosópran frá Moskvu, sem kemur fram ásamt okkar ástsælu sópransöngkonu Sigrúnu Hjálmtýsdóttur. Við slaghörpun er að sjálfsögðu enginn annar en píanóleikarinn Jónas Ingimundarson, sem haft hefur veg og vanda af þessari dagskrá.

Gaman er að geta þess, að þau Sigrún og Jónas hafa bæði í fyrra og á þessu ári farið til Moskvu til tónleikahalds.  Hefur þeim nú verið boðið þangað í þriðja sinn á næsta ári m.a. til að koma fram á tónlistarhátið í minningu hins dáða og heimskunna píanóleikara Sviatoslavs Richter.

 

Í síðari ferð Sigrúnar og Jónasar, sem var í október síðastliðnum, söng Romishevskaya með þeim í lok tónleikanna með slíkum glæsibrag, að þar varð til kveikjan að þessari áhugaverðu dagskrá  Stórtónleika Rótary í janúar 2008.

Það er síðan orðin föst venja að nýir styrkþegar Tónlistarjóðs Rótarý stígi fram sem leynigestir  stórtónleikanna.  Þar hefur jafnan verið um að ræða unga framúrskarandi íslenska tónlistarmenn, sem Rótarýfélagar hafa þannig fengið tækifæri til að kynnast snemma á tónlistarferli þeirra. Fjöldi umsókna barst nú sem áður Tónlistarsjóði Rótarý og verður val styrkþega kynnt á tónleikunum.  Sjóðurinn er einmitt afrakstur þessa árlega tónleikahalds í Salnum og fjárframlaga sem klúbbar umdæmisstjóra hverju sinni hafa aflað frá fyrirtækjum sem velviljuð eru hreyfingunni og eflingu tónlistarlífs í landinu. Fyrst var veittur styrkur úr Tónlistarsjóði Rótarý á Hátíðartónleikum í tilefni af 100 ára afmæli hreyfingarinnar í janúar 2005. Þetta er því í fjórða sinn sem veitt verður úr sjóðnum, en verðlaunin hafa vakið mikla athygli og orðið lyftistöng þeim sem hreppt hafa.

 

Um flytjendur

Irina Romishevskaya, mezzósópran er í fremstu röð rússneskra söngvara og á nú þegar að baki glæstan feril, bæði í óperum og á tónleikasviði, þar sem hún hefur tekist á við afar fjölþætt viðfangsefni. Að loknu námi í Tschaikovsky Tónlistarháskólanum í Moskvu, þar sem aðalkennari hennar var söngkonan heimskunna Galina Pisarenko, tók  hún þátt í mörgum söngkeppnum, svo sem í Tokyo, Hollandi og í Toulouse í Frakklandi, hvarvetna með glæsilegum árangri. Romishevskaya hefur sungið öll helstu hlutverk óperubókmenntanna, sem skrifuð hafa verið fyrir mezzo-sópran. Söngurinn hefur borið hana víða. Að sjálfsögðu hefur hún sungið um allt í sínu stóra heimalandi, en einnig í nágrannalöndum  og auk þess í Japanóperunni í Tokyo, en þar söng hún Öskubusku í samnefndri óperu Rossinis, Rosinu í Rakaranum frá Sevilla einnig eftir Rossini, Carmen sjálfa í Carmen eftir Bizet og einnig í óperunum La Traviata og Valdi örlaganna eftir Verdi. Í Frakklandi hefur hún sungið Carmen í virtustu húsum, svo og tekið þátt í flutningi á Requiem Verdis og Stabat Mater eftir Rossini. Hún er mjög virt og virk konsertsöngkona, ýmist á söngsviði með píanói eða hljómsveitum, stórum og smáum, svo sem ?Moskvu virtúósunum? undir stjórn Spivakovs. Nú um stundir syngur Romishevskaya við Nýju Óperuna í Moskvu í tveimur óperum eftir Tchaikovsky og eru viðfangsefni hennar þar Olga í Evgeny Onegin og Polina í Spaðadrottningunni. Hún syngur einnig hlutverk Lel í óperunni Snædísin eftir Korsakov. Auk alls þessa starfar Irina Romishevskaya sem aðstoðarprófessor við Tónlistarháskólann í Moskvu hjá sínum gamla kennara Galinu Pisarenko, en Pisarenko lærði til söngs hjá Ninu Doriak, sem var eiginkona Sviatoslavs Richter, þess dáða píanósnillings. Tengdamóðir Richters, móðir Ninu, var einnig söngprófessor við Tschaikovsky tónlistarháskólann og þessar fjórar konur, tengdamóðir Richters, eiginkona Richters, Pizarenko og Romishevskaya, hafa allar kennt söng í sömu stofunni í þessum heimsfræga tónlistarháskóla, trúlega samtals í nærri heila öld. Romishevskaya söng í fyrsta sinn á Íslandi á Opnunartónleikum í TÍBRÁ þann 7. september síðastliðinn, og vakti þá rómuð raddfegurð hennar og glæsileg framkoma verðskuldaða athygli.

 

Sigrún hjálmtýsdóttir, sópran er öllum tónleikaunnendum vel kunn fyrir frábæran söng sinn. Hún sótti fyrst einkatíma í Tónlistarskólanum í Reykjavík en nam síðan við Guildhall School of Music and Drama í London og lauk þaðan prófi í einsöng og kennslu. Hún fór í framhaldsnám til Ítalíu og tók þar þátt í keppnum og vann til verðlauna. Sigrún hefur haldið fjölda tónleika hér heima og erlendis og sungið með íslenskum og erlendum hljómsveitum. Hún söng í Ævintýrum Hoffmans í Þjóðleikhúsinu og hjá Íslensku óperunni hefur hún m. a. sungið Súsönnu í Brúðkaupi Fígarós, Gildu í Rigoletto, bæði Papagenu og Næturdrottninguna í Töfraflautunni, Luciu í Lucia di Lammermoor, Violettu í La Traviata og Adinu í Ástardrykknum. Hún söng sem gestasöngvari í Þrándheimi, hlutverk Súsönnu í Brúðkaupi Fígarós og í Gautaborg hlutverk Gildu í Rigoletto. Sigrún var á tímabili á starfslaunum listamanna og hélt tónleika víða um heim og hér heima. Árið 1995 var Sigrún sæmd Riddara-krossi hinnar íslensku fálkaorðu.

 

Jónas Ingimundarson, píanóleikari,hinn vandaði listamaður og dugmikli forgöngumaður í íslensku tónlistarlífi, stundaði tónlistarnám við Tónlistarskólann í Reykjavík og framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Vínarborg. Jónas hefur síðan starfað sem píanóleikari, tónlistarkennari og kórstjóri. Hann hefur haldið fjölda tónleika á Íslandi og komið fram víða í Evrópu og Bandaríkjunum, ýmist einn eða með öðrum, einkum söngvurum. Jónas hefur leikið inn á fjölda hljómplatna og hljómdiska og hefur staðið fyrir öflugu tónlistarkynn-ingarstarfi í tengslum við tónleikahald sitt. Jónas hefur fengið listamannalaun og notið starfslauna listamanna og hlotið margvíslegar viðurkenningar, svo sem heiðursverðlaun VÍS, Íslandsbanka og DV og heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2001, þegar þau voru veitt í fyrsta sinn. Jónas var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1994 og Dannebrog orðunni árið 1996. Jónas er tónlistarráðunautur Kópavogs og árið 2004 var hann valinn heiðurslistamaður bæjarins. Sama ár kom út bókin ?Á vængjum söngsins-um ævi og störf Jónasar Ingimundarsonar? skráð af Gylfa Gröndal. Jónas nýtur heiðurslauna Alþingis.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning