Fréttir

27.2.2014

Skiptinemi í Sviss lýsir ógleymanlegri reynslu sinni

"Í raun er það mér gjörsamlega óskiljanlegt að tíminn minn sé nú þegar rúmlega hálfnaður. Þó hef ég upplifað gríðarlega margt á þessum stutta tíma. Hver dagur hefur verið einstakur og það má vissulega með sanni segja að þessi tími í lífi mínu sé ógleymanlegur." Þetta segir Sindri Engilbertsson, skiptinemi Rótary í Sviss, í upphafi tölvupósts, sem hann sendi Hönnu Maríu Siggeirsdóttur, formanni æskulýðsnefndar umdæmisins og Bjarna Jónassyni, fráfarandi forseta Rkl. Görðum. Klúbburinn veitti umsókn Sindra stuðning þegar hann sótti um. 

"Kæru Rotary-félagar

Nú er þetta ævintýri mitt u.þ.b. hálfnað og nú dríf ég loksins í að gera það sem ég hefði í raun átt að gera fyrr og meira. Ég vildi einfaldlega skrifa þennan póst, hvorki flókinn né formlegan, til þess að þakka fyrir mig.

Eftir drjúgan undirbúning í samstarfi við skiptinámsnefnd Rótarý og Rótarý klúbbinn Görðum hófst skiptinám mitt 9. ágúst 2013. Nú, 170 dögum, fjölskylduskiptum og óteljandi upplifunum seinna, sit ég hér á minu litla svissneska sveitaheimili og skrifa þennan póst. Í raun er það mér gjörsamlega óskiljanlegt að tíminn minn sé nú þegar rúmlega hálfnaður. Þó hef ég upplifað gríðarlega margt á þessum stutta tíma. Hver dagur hefur verið einstakur og það má vissulega með sanni segja að þessi tími í lífi mínu sé ógleymanlegur. Ég mun lítið telja hérna sérstaka atburði eða upplifanir upp, heldur vildi ég frekar beina orðum mínum til ykkar almennt, og vonast til þess að minna ykkur á hve merkilegt og mikilvægt ykkkar hlutverk er, og hve stolt þið ættuð að vera. Án ykkar allra hefði þetta aldrei verið mögulegt fyrir mig. Það er einn tiltekinn frasi sem ég hef nokkrum sinnum heyrt og finnst mjög lýsandi fyrir þetta allt saman, þó hann sé nú smá klisjulegur, en hann hljóðar svo: Skiptinám er ekki ár af lífinu, heldur heilt líf á einu ári.

Í raun er það ótrúlegt að óeigingjarnt starf og erfiði einstaklinga sé það sem geri þetta allt mögulegt. Þessi tími minn hér, allt fólkið sem ég hef kynnst, vinirnir sem ég hef eignast, tungumálið sem ég læri, hlutirnir sem ég hef séð…ég gæti ekki ímyndað mér líf mitt án þessara upplifana. Oft er sagt að skiptinemar eigi að reyna að hugsa eins lítið og mögulegt er til baka til heimalandsins, og koma sér frekar algjörlega inn í menningu hins nýja lands og inn í nýja lífið. Á meðan þetta er sannarlega upp að vissu marki satt, tel ég líka mikilvægt að láta reglulega vita af sér, hvernig manni líði og því helsta sem maður hefur gert, að taka sér smá tíma til þess að vera þakklátur og hugsa þá til baka til allra sem í hlut eiga. Það er einmitt mikilvægt, til þess að þeir sem eiga seinna eftir að fá að eiga álíka ævintýri og ég í gegnum Rótarý, hvort sem þeir koma til eða fara frá Íslandi, njóti þess, og fái eins mikið út úr því og mögulegt er, að þið heima, sem þetta fer allt í gegnum, takið reglulega smá tíma og leyfið ykkur að vera stolt og gleðjast yfir ykkar vinnu. Vinnu sem skilar sér svo margfalt í hugum og hjörtum þeirra ungmenna sem hún beinist til, og ef hún er unnin rétt, vel og með réttu hugarfari, breytir hreinlega lífi ungmenna, og oftast þeim sjálfum líka, til hins betra. Ekkert smáverk það.

Annars hef ég það enn mjög gott. Allt gengur vel hjá nýju fjölskyldunni og þýskan er wunderbar! (húmorinn líka ennþá til staðar, hjúkket!). Að sjálfsögðu ætti ég líka að fara að reyna að blogga aftur, en það gengur ekki alveg svo vel eins og er. Ætli ég reyni samt ekki að fara að láta heyra aðeins meira í mér, hvort sem það verður í gegnum póst eða blogg!

Ef þið gætuð vinsamlegast deilt þessum póst með öðrum sem hefðu gaman að og/eða hér um ræðir væri ég afar þakklátur þar sem ég er aðeins með netföng ykkar tveggja.

Enn og aftur, takk fyrir mig.

Kærar kveðjur,

Sindri Engilbertsson."



Sent frá Windows-póstur




Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning