Fréttir

24.2.2014

Góð aðsókn að atvinnusýningu í Borgarnesi

Margt var um manninn á Atvinnusýningu í Hjálmakletti (húsi Menntaskóla Borgarfjarðar) s.l. laugardag.  Þá stóð Rótarýklúbbur Borgarness fyrir málstofu um morguninn með yfirskriftinni „Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja“.  Forseti Rótarýklúbbs Borgarness, Kristján Rafn Sigurðsson og Lárus Ársælsson, forseti Rótarýklúbbs Akraness settu rótarýfundi beggja klúbba.  Birna G. Bjarnadóttir hélt erindi með kynningu á starfi Rotary International og gerði efninu ítarleg  skil.

Því næst hélt Ketill Berg Magnússon fróðlegt erindi um „Samfélagslega ábyrgð fyrirtækja“ en í því felst að rekstrareiningar beri ábyrgð á fólki og samfélaginu annars vegar og umhverfi okkar hins vegar.  Ketill er framkvæmdarstjóri FESTU sem er miðstöð um samfélagsábyrgð sem stofnuð var árið 2011 af nokkrum fyrirtækjum. Þá kynnti Haraldur Reynisson „Hugheima“, sem er nýstofnað þekkingar- og frumkvöðlasetur Vesturlands og var undirritaður samningur þeirra aðila sem tengjast því í lok málstofu að loknum fyrirspurnum og umræðum.Góður rómur var gerður að erindum framsögumanna á málstofu. 

Þá opnaði Björn Bjarndal Jónsson, umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi atvinnusýninguna formlega.Yfir 40 fyrirtæki af mjög fjölbreyttum toga sýndu og kynntu starfsemi sína undir léttum tónlistaratriðum frá nemendum í Tónlistarskóla Borgarfjarðar. Yfir 650 gestir sóttu sýninguna og var Rótarýfólk í Borgarnesi mjög ánægt og þakklátt þátttakendum fyrir að sýna samheldni nú sem endranær.  Vonast er til að þessi viðburður örvi frumkvæði einstaklinga til aukinnar nýsköpunar í atvinnulífi Vesturlands. Markmið sýningarinnar var tvíþætt:  Að kynna starfsemi fyrirtækja og þjónustuaðila í Borgarbyggð. Að auka samvinnu og samheldni meðal þáttökuaðila.

                                                              

                                                                                  Myndasyrpa

Að lokum frá forseta Rótarýklúbbs Borgarness: „Það er og hefur verið starf okkar Rótarýfólks að vinna að brýnum samfélagsverkefnum. Á stundum koma tímar þegar erfiðara er á einni grein í lífstré okkar mannfólksins.  Þá verðum við að sjá til þess að efla næringu og vökvun svo vel fari á braut okkar um tímann.  Síðustu árin hafa verið erfiðari í atvinnulegu tilliti hér í héraðinu en með skapandi hug veitist okkur tækifæri til að sýna hvað í okkur íbúum býr. Við rótarýfólk í Borgarbyggð óskum þátttakendum og heimafólki til hamingju með hvernig tókst til s.l. laugardag.

Með rótarýkveðju,

Kristján Rafn Sigurðsson

 


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning