Fréttir

17.2.2014

Viðurkenning frá Rótarýsjóðnum

Birna G. Bjarnadóttir formaður Rótarýsjóðsnefndar sækir um þessar mundir heim þá þrjá klúbba í umdæminu, sem bestan árangur sýndu í framlögum til Rótarýsjóðsins 2012-2013.

Klúbbarnir eru: 1.Rótarýklúbbur Keflavíkur, 2. Rótarýklúbbur Mosfellssveitar og 3.Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar. Forystufólk klúbbanna veitti viðtöku viðurkenningarfána með sérstöku þakklæti frá Rotary Foundation. Árangurinn er metinn út frá framlagi á hvern klúbbmeðlim að meðaltali.

                       Afhending viðurkenningar í Rótarýklúbbi Mosfellssveitar. Margrét Kristánsdóttir, ritari,                     Birna G.Bjarnadóttir, Sólveig Ragnarsdóttir, forseti klúbbsins og Knútur Óskarsson, aðstoðarumdæmisstjóri og félagi í klúbbnum.

Birna kynnti í leiðinni breytingar sem orðið hafa nýlega hjá alþjóðahreyfingunni og nefndi í því sambandi nýja framsetningu á auðkennum Rótarý sem hún hvetur íslensku klúbbana til að nýta sér. Þessar breytingar endurspeglast í breyttu viðmóti vefsiðu Rótarý,www.rotary.org, sem er full af fróðleik og hagnýtum upplýsingum fyrir forystufólk klúbbanna sem og klúbbfélaga og almenning. Til að geta nýtt sér allt efnið til fulls á My Rotary þurfa rótarýfélagar að fá lykilorð.
Við þetta tækifæri fjallaði Birna um hin brýnu verkefni að mannúðarmálum, sem Rótarýsjóðurinn styrkir víða um heim og áhersluna sem lögð er á að útrýma lömunarveikinni með Polio Plus átakinu. Í því skyni hefur Rótarýsjóðurinn starfað með stofnun Melindu og Bill Gates, stofnanda Microsoft. Á síðasta ári var ákveðið að herða róðurinn enn frekar vegna nýrra lömunarveikitilfella, sem komu upp í Afríku. Sem mótframlag mun Gates stofnunin þrefalda upphæðina sem Rótarýsjóðurinn leggur af mörkum fram til àrsins 2018. Smella hér

Mörg önnur verkefni í hjálparstarfi eru í framkvæmd, einkum í þróunarlöndum en einnig í nærsamfélögum einstakra rótarýklúbba um allan heim. Í ávarpi sínu undirstrikaði Birna störf Rótarý að friðarmálum og nefndi sérstaklega friðarstyrki Rótarýsjóðsins til háskólanáms í friðarfræðum. Ellefu íslenskar konur hafa notið þessara styrkja á undanförnum árum til framhaldsnáms og hafa þær síðan starfað í þágu friðar og í anda Rótarý víða um lönd.
Að endingu gerði Birna grein fyrir markmiðum Rótarýsjóðsins um framlög frá rótarýklúbbum og hvatti til þess að félagar þeirra yrðu vel upplýstir um hin mikilvægu verkefni sem framlögin renna til. Þá vakti Birna athygli á möguleikum einstakra klúbba, sem lagt hafa fram fé til Rótarýsjóðsins að fá til baka styrk frá sjóðnum til eigin verkefna að þremur árum liðnum.

                                                                                                                                                                              möa


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning