Fréttir

30.1.2014

Formenn nefnda umdæmisins á málþingi

Björn B. Jónsson, umdæmisstjóri, boðaði formenn nefnda umdæmisins og fleiri trúnaðarmenn til fundar á Grand Hótel í Reykjavík hinn 29. janúar sl. Viðstaddir gerðu grein fyrir störfum sinnar nefndar og stöðu einstakra verkefna í þriggja mínútna framsögu og svöruðu fyrirspurnum.

Björn umdæmisstjóri sagði í ávarpsorðum sínum í upphafi fundar, að á miðju starfsári væri mjög mikilvægt fyrir forystufólkið i hreyfingunni hér á landi að bera saman bækur sínar og meta stöðuna. Almennt séð væri hún mjög góð en vafalaust væri hægt að gera enn betur með sameiginlegu átaki.
Greinargerðir á fundinum báru þetta enn frekar með sér. Í ýmsum þeirra fólust leiðbeiningar og ábendingar um nýjungar í starfi Rótarý sem visað verður áfram til umdæmisráðs og klúbbanna.
Fram kom að fjárhagur Rótarý á Íslandi er traustur.  Engin umtalsverð vandamál voru kynnt til sögunnar utan þess að formaður æskulýðsnefndar skýrði frá erfiðleikum við framkvæmd nemendaskipta  í samstarfi við rótarýklúbba erlendis. Erfitt reynist að útvega heimili fyrir erlenda nema hér á landi og umsóknum frá íslenskum ungmennum hefur fækkað.  Æskulýðsnefndin vill ítarlega umfjöllun um málið innan umdæmisins.
 Í lok fundarins tók Guðbjörg Alfreðsdóttir, verðandi umdæmissstjóri 2014-2015, til máls. Hún er nýkomin af fræðslumóti fyrir 537 umdæmisstjóra Rótarý um heim allan, sem haldið var í San Diego í Bandaríkjunum. Guðbjörg gerði í stuttu máli grein fyrir atriðum sem nýr alþjóðaforseti,  Gary C.K. Huang frá Taiwan, mun leggja aðaláherslu á í forsetatíð sinni. Jafnframt lýsti Guðbjörg eftir góðum tillögum um íslenska þýðingu á kjörorði alþjóðaforsetans: „Light Up Rotary“. Að endingu kynnti Guðbjörg námskeið sem haldin verða á næstunni á vegum íslenska rótarýumdæmisins.
Hinn 22 febrúar n.k. verður námskeið um félagaþróun, stefnumótun og starfsáætlanir rótarýklúbba. Nauðsynlegt er að allir verðandi forsetar mæti og taki með sér a.m.k. einn annan verðandi stjórnarmann, sem hefur áhuga á félagaþróun. Leiðbeinandi verður Per Hylander, Coordinator Rotary International-Zone 16.
Hinn 15. mars n.k.  verður árlegt fræðslumót, PETS, með skyldumætingu fyrir verðandi forseta og ritara klúbbanna á starfsárinu 2014-2015. Mótið verður haldið í Menntaskólanum í Kópavogi kl. 8.15-17.30.
Fundur umdæmisstjóra með nefndaformönnum stóð í eina og hálfa klukkustund með hnitmiðaðri og glöggri umfjöllun  um  verkefni, sem unnið er að innan hreyfingarinnar um þessar mundir. Það yfirlit bar með sér öflugt og árangursríkt starf, sem umdæmisstjóri þakkaði fyrir og umdæmisstjórn mun fylgja eftir.Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning