Styrkur veittur úr Tónlistarsjóði Rótarý
Tónlistarverðlaun Rótarý árið 2014, að upphæð 800 þúsund krónur voru afhent á árlegum stórtónleikum hreyfingarinnar, sem að þessu sinni voru haldnir í Langholtskirkju föstudaginn 3. janúar. Verðlaunahafinn er Lára Bryndís Eggertsdóttir, orgelleikari.
Lára Bryndís stundar framhaldsnám í orgelleik við Tónlistarháskólann í Árósum. Hún lýkur meistaraprófi í orgel- og semballeik vorið 2014 og hyggur á áframhaldandi nám við einleikaradeild skólans.
Húsfyllir var á stórtónleikum Rótarý í Langholtskirkju. Efnisskráin var fjölbreytt og hin glæsilegasta. Óperusöngkonan Alina Dubik, mezzosópran, flutti fjölda sígildra verka eftir heimskunn tónskáld við frábærar undirtektir viðstaddra. Jónas Ingimundarson lék á píanóið en hann er ráðgjafi stjórnar tónlistarsjóðsins og hefur skipulagt stórtónleika Rótarý síðan 1997. Sveinn Einarsson, rithöfundur, flutti þýðingar Reynis Axelssonar á textunum sem Alina Dubik söng.
Hlé var gert á efnisskránni þegar kom að verðlaunaveitingunni úr Tónlistarsjóði Rótarý. Björn B. Jónsson, umdæmisstjóri kvaddi sér hljóðs og mælti:
„Góðir tónleikagestir.
Átján ár eru síðan fyrstu stórtónleikar Rótarý á Íslandi voru haldnir, en það var í ársbyrjun 1997 fyrir forgöngu stjórnar Rótarýklúbbs Reykjavíkur undir forsæti Friðriks Pálssonar.Undirbjuggu þeir Gunnar M. Hansson og Jónas Ingimundarson tónleikana, er síðan hafa verið árviss viðburður í starfi hreyfingarinnar og notið mikilla vinsælda, þar sem margir frábærir listamenn hafa komið fram og dagskrár verið fjölbreyttar.
Í ár, árið 2014, er framkvæmd tónleikanna í umsjón Rótarýklúbbs Selfoss en listrænn undirbúningur tónleikanna hefur verið, eins og áður, í höndum stjórnar Tónlistarsjóðs Rótarý.
Við félagar í Rótarýklúbbi Selfoss erum ákaflega ánægð með að tónlistarsnillingurinn frá Bergþórshvoli og Selfyssingurinn Jónas Ingimundarson skuli eiga svo stóran þátt í þessu kvöldi með okkur. Við eigum Jónasi mikið að þakka, m.a. þau ár sem hann var skólastjóri Tónlistarskóla Árnesinga. Í ár eru liðin 50 ár frá því að Jónas lék á sínum fyrstu opinberu tónleikum hér á landi og vil ég nota þetta tækifæri og óska honum til hamingju með glæsilegan tónlistarferil í þessi 50 ár.
Ágætu tónlistargestir.
Með auknu tónlistarnámi, tónlistarskólum um allt land og nýjum og glæsilegum menningar- og tónlistarhúsum á borð við Hof á Akureyri og Hörpu í Reykjavík, horfum við bjartsýn til framtíðar tónlistar í landinu.
Tónlist auðgar andann.
Áður en ég lýk máli mínu þá vil ég nota tækifærið og þakka öllum þeim sem komið hafa að undirbúningi tónleikanna,-stjórn Tónlistarsjóðs Rótarý með Erlend Hjaltason í fararbroddi, Helga Sigurðssyni, Rótarýklúbbi Selfoss og framkvæmdastjóra tónleikanna, Sveini Einarssyni kynni kvöldsins og listafólki sem hér kemur fram í kvöld, ásamt öllum öðrum sem hafa gert Stórtónleika Rótarý 2014 að veruleika. Bestu þakkir til ykkar allra.
Ágætu tónleikagestir. Við höfum notið kvöldsins undir ljúfum tónum Alinu og Jónasar. Nú er komið að afhendingu styrks úr Tónlistarsjóði Rótarý á Íslandi. Vil ég bjóða velkominn Erlend Hjaltason, formann Tónlistarsjóðs Rótarý, til að greina okkur frá vali styrkþega. Gjörðu svo vel Erlendur.“
Því næst sté Erlendur Hjaltason í ræðustól og gerði í stuttu ávarpi grein fyrir störfum stjórnar tónlistarsjóðsins.
„Kæru Rótarýfélagar og gestir.
Við í stjórn Tónlistarsjóðs Rótarýumdæmisins viljum óska ykkur gleðilegs nýárs. Við í stjórninni höfum mikla ánægju af starfi innan sjóðsins, og ekki síst að finna enn og aftur til metnaðar umdæmisstjóra og Rótarýhreyfingarinar til að auðga tónlistarlíf landsmanna.
Með úthlutunni í dag hafa 14 efnilegir tónlistarmenn fengið styrki úr sjóðnum, sem var stofnaður árið 2003 en styrkveitingar hófust árið 2005. Allir verðlaunahafar hafa gert tónlist að atvinnu sinni og eins og kemur fram á listanum yfir verðlaunahafa, fer þar ótrúlega fjölhæfur hópur.
Umsækjendur um verðlaun úr Tónlistarsjóði Rótarýumdæmisins voru í ár 21 einstaklingur, blásarar, fiðluleikarar, söngvarar, tónsmiðir, píanóleikarar og orgelleikari.
Að venju var stjórninni vandi á höndum að velja úr þessum hópi. En að lokinni yfirferð var ákveðið að verðlaunahafi 2014 yrði Lára Bryndís Eggertsdóttir orgelleikari. Lára Bryndís á góðan námsárangur í tónlist að baki. Frá 2008 hefur hún stundað nám í Danmörku og lýkur meistaraprófi í orgel- og semballeik vorið 2014, og hyggur á nám í einleikaradeild við Tónlistarháskólann í Árósum.
Samhliða náminu vinnur Lára Bryndís að viðamiklu nýsköpunarverkefni í kirkjutónlist –„ Ég heyrði þytinn af vængjum þeirra” – sem er hluti af meistaraprófsverkefninu. Það er afar metnaðarfullt verkefni.
Efnisskrá tónleikanna er að vanda sett saman af Jónasi Ingimundarsyni, sem hefur unnið með sjóðnum frá upphafi.
Á síðasta ári ræddi stjórnin um að líða fari að því, að fyrri verðlaunahafar komi að hátíðartónleikum Rótarý komandi ára, og blandist þannig nýjum verðlaunahöfum. Ekki náðist það nú, en vonandi tekst okkur að koma því að á næstu árum, en ég veit að sérstakur ráðgjafi sjóðsstjórnar, félagi Jónas Ingimundarson, er mjög áhugasamur um slíka tilhögun.
Ég vil biðja verðaunahafa að koma á sviðið og taka við verðlaunum sínum af umdæmisstjóra Rótarý á Íslandi, Birni B Jónssyni.“
Þegar Lára Bryndís hafði tekið á móti tónlistarstyrknum settist hún við hið stórglæsilega og hljómmikla orgel Langholtkirkju og lék verk eftir Sigfrid Karg-Elert og Johann Sebastian Bach. Framlagi sínu til efnisskrárinnar lauk hún með Tokkötu og fúgu í d-moll eftir Bach. Var hinum unga og efnilega orgelleikara frábærlega tekið með langvinnu lófataki.
Lokaatriði efnisskrárinnar var söngur Alinu Dubik, sem flutti óperuaríur eftir Gluck, Saint-Saens og Verdi við undirleik Jónasar Ingimundarsonar. Var þeim ákaft fagnað í lok tónleikanna og risu menn úr sætum og klöppðu þeim lof í lófa. Að endingu sungu svo allir viðstaddir „Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur“, sem var vel viðeigandi eftir óvenjuskemmtilega kvöldstund með góðri nærveru afburða listamanna.
Texti og myndir Markús Örn Antonsson