Fréttir
  • Björn B. Jónsson óskar Steinunni og Magnúsi til hamingju.

28.10.2013

Tilnefndur umdæmisstjóri 2015-2016 kynntur

Magnús B. Jónsson, tilnefndur umdæmisstjóri 2015-2016, og Steinunn S. Ingólfsdóttir kona hans voru kynnt sérstaklega við setningu nýafstaðins umdæmisþings Rótarý á Íslandi. Félagar úr Rótarýklúbbi Borgarness stóðu við hlið þeirra meðan kynningin fór fram. Magnús hefur í tvígang verið forseti klúbbsins í Borgarnesi og er PHF-félagi.

Björn B. Jónsson, umdæmisstjóri, sagðist fagna því að fá þetta tækifæri til að biðja Magnús og Steinunni að stíga fram ásamt vaskri sveit rótarýfélaga í Borgarnesi. Björn óskaði þeim allra heilla í starfi og rakti uppruna , nám og störf hins verðandi umdæmisstjóra.
 Magnús er fæddur 24. ágúst 1942 í Vestmannaeyjum og ólst þar upp ásamt þremur systrum. Foreldar hans voru Ingibjörg Magnúsdóttir og Jón Magnússon. Steinunn S. Ingólfsdóttir eiginkona Magnúsar er bókasafns- og upplýsingafræðingur. Þau eiga tvö börn. Steinunn var forseti Inner Wheel-klúbbsins í Borgarnesi og forseti Inner Wheel á Íslandi 1993-94. Magnús ávarpar rótarýfélaga á umdæmisþinginu.
Á félagsmálasviði hefur Magnús B. Jónsson setið í mörgum nefndum, ráðum og stjórnum. Má þar nefna stjórn Kaupfélags Borgfirðinga, setu í hreppsnefnd og oddvitastörf í Andakílshreppi. Hann hefur verið í stjórn tækniþróunarsjóðs og átt sæti Í norrænum nefndum um skipulagningu doktorsnáms í landbúnaði og í nefndum norrænna vísindamanna um landbúnað auk margar annarra nefnda heima og erlendis.
Magnús lauk búfræðinámi frá Hvanneyri og tók kandidatspróf frá sama skóla 1963. Hann lauk síðan doktorsprófi í búfjárkynbótum 1969 frá Landbúnaðarháskóla Noregs. Einnig hefur hann stundað styttra háskólanám í Danmörku og Skotlandi. Hann var skólastjóri við Bændaskólann á Hvanneyri, dósent við búvísindadeild á Hvanneyri og rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og síðustu árin prófessor. Þá gegndi hann um skeið starfi forstöðumanns Hagþjónustu landbúnaðarins.
Magnús B. Jónsson þakkaði félögum sínum í Rk Borgarnesi þann mikla heiður sem þeir hefðu sýnt þeim Steinunni með því að gera tillögu um þau til valnefndar vegna tilnefningar umdæmisstjóra.
„Við munum að sjálfsögðu axla þá ábyrgð af eins mikilli natni og mögulegt er,“ sagði Magnús. „Þó nú sé komið nokkuð á aðra öld frá því að frumherjar Rótary komu saman, ef til vill fyrst og fremst til að auka velvild og vinarhug í sínum hópi, þá hefur manngæsku- og þjónustuhugsjón Rótarý sjaldan eða aldrei verið mikilvægari en nú. Þess vegna getum við sagt með sanni: Það er satt og rétt að starf Rótarýhreyfingarinnar er mikilsvert og göfugt. Það er unnið af ósérhlífni og drengskap. Það eykur velvild og vinarhug að eiga samskipti hvert við annað og styrkja stöðu Rótarý í nærsamfélagi sínu. Það er öllum til góðs að Rótarýhreyfingin megi vaxa og dafna í framtíðinni. Þegar kemur að okkar vakt, okkar Steinunnar, þá vona ég að við getum lagt lítið lóð á þessar vogarskálar og gert Rótarýhreyfingunni eins mikið gagn og við mögulega getum.“
Magnús óskaði Birni B.Jónssyni, umdæmisstjóra, og Rótarýklúbbi Selfoss innilega til hamingju með glæsilegt umdæmisþing, umgjörð þess og metnaðarfulla dagskrá. Hann lét í ljós þá ósk, að þingið mætti verða árangursríkt og styrkja og efla starfsemi Rótarýhreyfingarinnar hér á landi í framtíðinni.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning