Fréttir
  • Merki umdæmisþingsins.

22.10.2013

Hátíðarræða um auð jarðar

„Rótarýhreyfingin er eins og rótarkerfið á heilbrigðum plöntum. Rótarþræðirnir teygja sig um samfélagið þar sem hreyfingin vinnur að mikilvægum verkefnum sem styðja nærsamfélagið. Rótarýfólk fer kannski ekki hátt með góðverk sín en ef þessa þræði vantaði væri samfélag okkar fátækara. Þræðirnir liggja ekki einvörðungu um nærsamfélagið heldur einnig á milli landa. Kerfið nærir og miðlar og stuðlar að innihaldsríkara samfélagi, þar sem góðverkin eru látin tala.“ Þessa samlíkingu notaði Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar Landbúnaðarháskóla Íslands í fræðandi og skemmtilegri hátíðarræðu, sem hún flutti við setningu umdæmisþings Rótarý á Selfossi 11. október.

Guðríður lagði út af einkunnarorðum þingsins, „Auður jarðar.“ Hún sagði Ísland hafa verið fremst í röðinni þegar "auðlindum jarðar var úthlutað." Til marks um það væru jarðhitinn, hreint kalt vatn, tært fjallaloft, frjósamt ræktarland og gjöful fiskimið, að ógleymdum golfstraumnum sem gerði landið byggilegt. Landslagið væri óviðjafnanlegt og sífellt fleiri kynnu að njóta þess.Engu að síður væri það mikill kostur að vegna fjarlægðar frá öðrum löndum hefðum við haft frið fyrir nágrönnum.Hún sagði þrautseigt og útsjónarsamt fólk hafa byggt landið og viðhorf Íslendinga til einstaklingsfrelsisins sterkt. Við viljum ráða ferðinni sjálf og teljum okkur vita betur en hinir. Getur verið gott en líka til trafala. Guðríður Helgadóttir sló á létta strengi í hátíðarræðu sinni.
Guðríður fjallaði eins og við var að búast um þróun garðyrkju í landinu. Samfelld garðyrkja hefði verið stunduð frá 1885, þegar Garðyrkjufélag Íslands var stofnað. Með nýtingu jarðhitans er hægt að hita upp gróðurhús til að rækta alls kyns framandi plöntur. Í kringum stríðsárin varð sprenging í stofnun garðyrkjustöðva og fjörfaldaðist flatarmál gróðurhúsa í landinu á fáum árum, úr 10 þús. fermetrum upp í 40 þúsund. Kaffi, bananar, melónur og vínber þóttu forvitnileg fyrirbæri í gróðurhúsum. Aðrar furðulegar tegundir eins og tómatar og agúrkur fylgdu á eftir. Langan tíma tók að kynna ræktunina. Í nágrannalöndum okkar er upphitunarkostnaður það dýrasta í ræktuninni; kynding með kolum, gasi, rafmagni eða olíu. Rafmagn, sem hér á landi fæst úr endurnýjanlegum orkulindum, er notað til raflýsingar og hefur gjörbreytt ásýnd garðyrkjunnar á síðustu árum. Íslenskt grænmeti allt árið í verslunum. Þannig var það ekki fyrir 20 árum. Koltvísýringur, sem notaður er við ræktunina, kemur úr jörðinni; ein af þessum óvæntu auðlindum. Kalda vatnið, sem við fengum í vöggugjöf, á þátt í að grænmetið okkar er safaríkt og bragðgott. Einangrun frá öðrum löndum er kostur. Í ræktuninni glímum við ekki við jafnskaðlega sjúkdóma í plöntum og nágrannar okkar. Það er því ágætt að langur vegur sé yfir á næsta bæ.
„Ekkert jafnast á við dökkbrúna, mjúka ilmandi og frjósama íslenska mold. Maður kastar frá sér hönskunum til að grafa ofan í hana með fingrunum og þefa af henni.“ sagði Guðríður. Hún sagði að við mættum líka þakka fyrir framlegð eldfjallanna. Hekla hefur séð garðyrkjumönnum fyrir vikri sem er frábær til ræktunar í staðinn fyrir ýmis tilbúin efni, svo sem steinull, sem notuð eru erlendis. Úrgangur úr fiskvinnslu nýtist líka sem áburðargjafi við ræktun. Guðríður kvaðst geta fullvissað viðstadda um að ekki yrði fiskbragð af afurðunum.
Íslendingar rækta nú um helminginn af öllu því grænmeti sem þeir neyta. Vaxtarmöguleikar eru miklir. Unnt er að stækka heimamarkaðinn og rækta til útflutnings. Ótal tækifæri fyrir ungt fólk til að hasla sér völl í garðyrkju. Tvö ylrætkarver fyrir tómata til útflutnings eru í undirbúningi. Það er hrein orka og hreint vatn sem gerir framleiðsluna hér á landi eftirsóknarverða. Jaðarber og vínber berast nú daglega frá íslenskum ræktendum. Aðrir möguleikar til ræktunar eru i sjónmáli. Nýlega koma fram á ráðstefnu í London að innan sjö ára myndi verði tilfinnanlegur skortur á kakói í heiminum. Í þessu felast nýir mögleikar og Guðríður bætti því við að 82 mjög sprækar kakóplöntur væru í uppvexti hjá Garðyrkjuskólanum í Reykjadal.
Sumar auðlindir þykja ljótar og óspennandi. Oft tekur langan tíma að við áttum okkur á gildi þeirra. Skötuselur, sá herramannsmatur, er álitinn með eindæmum ljótur. Að ekki sé talað um humarinn. Þjóðin þarfnast öflugra frumkvöðla í atvinnugreinunum til að segja okkur:“Þarna er auðlind.“
„Þegar sagt var að rækta mætti nytjaskóg á Íslandi hlóu margir.“ rifjaði Guðríður upp. „Skoðanir hafa verið skiptar á því hvort rækta ætti skóg yfirleitt. Ágætur maður sagði eitt sinn að barrskógur á Íslandi minnti á skeggjaða konu. En skógræktarmenn létu ekki draga úr sér kjark og nú lítum við á ræktaða skóga sem auðlind, ekki bara viðinn heldur skjólið og allt annað sem þrífst í skjóli skógarins. Það bætir mannlífið – er öllum til góðs.“
Guðríður rifjaði upp atriði í fjórprófi rótarýfólks þegar hún fjallaði um auðlindirnar. Satt og rétt? Erum við heiðarleg þegar áætlanir eru gerðar og ekki gengið á hlut eins eða neins við nýtingu auðlindanna?
Eykur nýtingin velvild og vinarhug? Eru allir sáttir við ráðstöfun auðlindanna og er nýtingin öllum til góðs? Hinn sanni auður jarðar felst í mannauðnum. Við eigum þekkingu, sem við getum miðlað til annarra. Ekki tilviljun að þrír af háskólum Sameinuðu þjóðanna eru staðsettir hér á landi, jarðhitaskólinn, sjávarútvegsskólinn og landgræðsluskólinn. Á erfiðum tímum þarf að grípa til niðurskurðarhnífsins. Áður en skorið er niður í menntakerfinu er rétt að spyrja: „Hvaða menntun þurfum við að leggja áherslu á til framtíðar? Hvaða þættir breytast? Iðn- og tæknimenntun og skapandi greinar verða þar ofarlega á baugi. Tryggja þarf að alltaf sé til taks fólk sem kann til verka. Þurfum líka fólk sem lyftir andanum upp á æðri stig.
Ein af grunnþörfum mannskynsins er að næra sig. Við þurfum líka fólk, sem kann að búa til mat. Fólk sem kann að rækta plöntur. Nauðsynlegt fyrir okkur að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar. Þekkingin ekki búin til inni í skólakerfinu heldur úti í atvinnulífinu, þar sem menn reyna á eigin skinni hvað unnt er að framkvæma. Þurfum þekkingu á öllum sviðum. Skapa fólki tækifæri til þekkingarleitar erlendis. Rótarý hefur stuðlað að því með námsstyrkjum að ungt fólk færi utan og kæmi heim reynslunni og þekkingunni ríkara. Allt samfélagið er ríkara fyrir bragðið.
„Í garðyrkjunni er jarðvegurinn undirstaðan undir öllu. Ekki er nóg að hafa góðan jarðveg. Heilbrigt og gott rótarkerfi er nauðsynlegt. Það myndar þræði út í moldina og sækir næringuna úr jarðveginum og miðlar henni um plönturnar. Það er sjálfhverft samfélag ef rótarkerfið fær ekki að þróast og teygja út þræði sína heldur stendur alltaf í sama pottinum,“ voru lokaorð Guðríðar í hátíðarræðunni, sem þingfulltrúar þökkuðu fyrir með dynjandi lófataki.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning