Stofnun alíslensks rótarýsjóðs til umræðu
Í ræðu sinni við setningu umdæmisþings á Selfossi 11. október sl. vakti Björn B. Jónsson, umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi, athygli á að umræða væri hafin innan íslenska rótarýumdæmisins um að stofna nýjan sjóð, alíslenskan Rótarýsjóð, sem getur orðið, ef rétt er á málum haldið, sá sjóður sem allir landsmenn vita fyrir hvað stendur, og hver stendur fyrir honum.
Alþjóðlegi Rótarýsjóðurinn er að taka miklum breytingum um þessar mundir. Hér eftir verður auðveldara fyrir rótarýklúbba, m.a. hér í umdæmi 1360, að fá til baka til eigin verkefna hluta þess fjár sem þeir lögðu inn í Rótarýsjóðinn. Björn gat þess í ræðu sinni, að á næstu árum muni íslensku rótarýklúbbarnir aðlagast breyttum starfsreglum sjóðsins um leið og þeir ræða og finna leiðir til að láta meira til sín taka í hvers konar samfélagsverkefnum, bæði hér heima og erlendis.
“Stundin er komin,” sagði Björn. ”Við þurfum og eigum að skapa frjóa umræðu um framtíð sjóðsins og möguleika okkar til að láta Rótarýsjóðinn tala okkar máli. Láta gott af okkur leiða.”
”Yfir 1.200.000 rótarýfélagar í heiminum eru að vinna að samfélagsverkefnum sem eftir er tekið um allan heim,” bætti Björn við. ”Á vegum Rótarýsjóðsins, okkar stolts, er verið að vinna að verkefnum sem margir töldu í fyrstu að væru óvinnandi.”
Eftirtektarverður árangur
Björn tók fram, að ekkert væri óvinnandi sem Rótarý kæmi að. Á vegi Rótarýsjóðsins hefur verið fólk sem skortir drykkjarvatn, býr við ólæsi og stríðsástand. Á vegi Rótarýsjóðsins hafa verið verkefni sem kalla á aukið heilbrigði barna, konur sem eru án atvinnu og þurfa aðstoð við að stofna sitt eigið fyrirtæki eða komast í atvinnu til að geta brauðfætt börnin sín. Á vegi Rótarýsjóðsins hefur verið lömunarveiki, sem nú styttist í að hafi verið útrýmt. Þarna hefur Rótarýhreyfingin getað orðið að liði.
”Hvernig er þetta hægt?” spurði Björn. ”Hvernig geta samtök eins og Rótarýhreyfingin komið að svo stórum verkefnum og náð árangri svo eftir sé tekið?”
Í svari hans fólst, að ekki kæmi á óvart að Rótarýhreyfingin hefði það afl sem þarf til að hreyfa við viðlíka verkefnum þegar haft er í huga hver markmið hennar eru. Markmið Rótarý er að efla og örva þjónustuhugsjónina sem grundvöll heiðarlegs starfs, og þó einkum að efla og örva þróun kunningsskapar, svo að hann veiti tækifæri til þjónustu.
Háleitar siðgæðiskröfur
Rótarý hefur líka það markmið að efla og örva háleitar siðgæðiskröfur í viðskiptum og starfi, viðurkenningu á gildi allra nytsamra starfa og viðurkenningu þess, að sá, sem innir gott starf af hendi í starfsgrein sinni, sé samfélaginu þarfur þegn.
Björn tók fram, að markmið Rótarý væru fleiri; að efla og örva þjónustuhugsjónina og örva viðleitni hvers rótarýfélaga til að breyta samkvæmt því í einkalífi sínu, starfi og félagsmálum; einnig að efla og örva alþjóðlegan skilning, velvild og frið með alheimsfélagsskap manna í öllum starfsgreinum, sem sameinast í þjónustuhugsjóninni.