Rótarý veitti viðurkenningar og fjárstyrki
Verðlauna- og styrktarsjóður Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi veitti í gær tveimur sunnlenskum fyrirtækjum og einni skólastofnun viðurkenningu og fjárstyrk. Voru viðurkenningarnar afhentar á lokahófi umdæmisþings Rótarý á Íslandi en þingið var haldið á Selfossi um helgina.
Fjölbrautarskóli Suðurlands verðlaunaður fyrir menntun fanga
Var 1,1 milljón krónum ráðstafað til þessara viðurkenninga og hlaut Fjölbrautarskóli Suðurlands hæsta styrkinn, 500 þúsund kr., en skólinn fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi og nýstárlegt framtak á sviði mennta- og samfélagsverkefna – fyrir menntun vistmanna á Litla Hrauni og Sogni - sem skilar þeim sem betri borgurum til samfélagsins. Olga Lísa Garðarsdóttir skólameistari tók við viðurkenningunni og 300 þús. kr. fjárstyk.
Sæbýli verðlaunað fyrir framleiðslu á sæeyrum og sæbjúgum til útflutnings
Sæbýli ehf. á Eyrarbakka fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi og nýstárlegt framtak á sviði vísinda og atvinnumála. Sæbýli er að hefja framleiðslu á sæeyrum og sæbjúgum til útflutnings og nýtir til þess íslenskt hugvit, heitt vatn og hreinan sjó. Dr. Ragnar Jóhannsson veitt verðlaununum viðtöku f.h. Sæbýlis.
Fengur verðlaunað fyrir endurvinnslu á spón
Fengur ehf. í Hveragerði fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi og nýstárlegt framtak á sviði atvinnumála en auk annarra verkefna endurvinnur Fengur spón fyrir íslenskan landbúnað og nýtir jtil þess íslenskt hugvit, timburúrgang og vistvæna orku. Sigurður Halldórsson framkvæmdastjóri veitti viðurkenningunni viðtöku ásamt 300 þús. kr. fjárstyrk.
Á myndinni f.v.: Jón Björgvin Guðnason, formaður sjóðsstjórnar, Ragnar Jóhannsson f.h. Sæbýlis, Sigurður Halldórsson, framkvæmdastjóri Fengs, Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari Fjölbrautarskóla Suðurnesja og Björn Bjarndal Jónsson, umdæmisstjóri Rótarý. - Ljósmynd: Guðni Gíslason.