Fréttir

3.7.2013

Björn B. Jónsson nýr umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi

Halldóra S. Magnúsdóttir, Kristján Haraldsson, Björn B. Jónsson og Jóhanna Róbertsdóttir.

Umdæmisstjóraskipti í Rótarýhreyfingunni á Íslandi fóru fram á fundi í Rótarýklúbbi Selfoss, sem haldinn var á Eyrarbakka hinn 2. júlí sl. Þar urðu einnig hefðbundin stjórnarskipti í klúbbnum, sem fagnar 65 ára afmæli sínu á árinu. Fráfarandi forseti Ragnheiður Hergeirsdóttir bauð gesti velkomna og gerði grein fyrir starfi klúbbsins á liðnu starfsári. Að loknum stjórnarskiptum var fundi slitið en annar fundur settur nokkru síðar með Garðar Eiríksson, hinn nýja forseta klúbbsins, sem fundarstjóra. Umdæmisstjóraskipti voru höfuðefni þess fundar.

Í ræðu sinni við það tækifæri sagði nýi umdæmisstjórinn Björn Bjarndal Jónsson m.a.:
„Við þurfum að vera opin fyrir nýjungum í starfi og festast ekki í gömlu fari. Við eigum að þróast með breyttum tímum. Við megum þó ekki gleyma gömlu gildunum, þau eiga að vera, en í takt við nýja tíma.
Til að nálgast þessa hugsun, að ná fram  nýjungum í starfi , þá mun ég nota slagorðið „ sáum og uppskerum“. Það þarf ekki alltaf að sá miklu til að uppskera. Þú getur sáð litlu en uppskorið samt. 
Að sá inn í rótarýstarfið lítilli hugmynd getur þýtt betra starf sem skilar sér í öflugra og skemmtilegra klúbbstarfi. Um leið skapast eftirspurn eftir Rótarý. Að efla starfið innan frá í rótarýklúbbi - skapar eftirspurn utan frá.“
Áður en umsdæmisstjóraskiptin fóru formlega fram, flutti Kristján Haraldsson, fráfarandi umdæmisstjóri ávarp og rifjaði upp þegar hann stóð í þeim sporum að taka við embættinu fyrir einu ári. Heilt ár framundan og sagðist hann hafa kviðið því að það yrði lengi að líða og verkefnið erfitt viðureignar. Annað hefði komið á daginn. Þau hjónin hefðu m.a. notið þeirra forréttinda að heimsækja og fá innsýn í hið þróttmikla starf í Rótarýklúbbunum um land allt.Rúmlega 70 manns sótti fundinn, sem haldinn var í Rauða húsinu á Eyrarbakka.
„Í heimsóknunum kynntumst við Halldóra hinu góða fólki sem tekið hefur höndum saman um að bera út þann boðskap að í Rótarý sé gaman að vera, að í Rótarý skapist vinátta og í Rótarý sé gott samstarf,“ sagði Kristján. „Það er vart hægt að hugsa sér neitt betra í lífinu en að geta eignast góða félaga. Það fáum við einmitt í rótarýklúbbunum.“
Þá gerði Kristján nokkra grein fyrir helstu skyldustörfum umdæmisstjórans til viðbótar  heimsóknum í  alla klúbbana.  Áður en umdæmisstjóri tekur við embætti sækir hann námskeið erlendis til að fræðast um stjórnunarmál rótarýumdæmanna auk þess sem rík áhersla er þar lögð á að kynna boðskap nýs alþjóðaforseta hreyfingarinnar, sem umdæmisstjórarnir  flytja síðan með sér heim og áfram til félaga í klúbbunum. Umdæmisstjórinn boðar til umdæmisþings og er það haldið á vegum rótarýklúbbsins sem hann er félagi í. Næsta þing verður einmitt haldið á Selfossi í umsjá Rótarýklúbbs Selfoss dagana 11. og 12. október nk.
Stórtónleikar Rótarý og afhending styrkja úr tónlistarsjóði Rótarý á Íslandi, sem fram fer um fyrstu helgi í janúar ár hvert, er verkefni sem umdæmisstjóri undirbýr í samvinnu við viðkomandi nefndir. Á útmánuðum kemur síðan að fræðslumóti fyrir verðandi embættismenn klúbbanna á næsta starfsári.
Forseti og fyrrv. forseti Rk. Selfoss, Garðar Eiríksson og Ragnheiður Hergeirsdóttir.„Rótarý má líkja við stór tankskip,“ útskýrði Kristján nánar.“Það siglir áfram öruggri stefnu, þar sem skipstjórinn þarf að vísu að gæta þess að stefnunni sé haldið. En hann getur ekki snarsnúið skipinu. Allar breytingar í Rótarý gerast mjög hægt. Við vinnum að þeim en viljum líka halda þessu fasta formi og vera trú Rótarýhreyfingunni.“
Í lok máls síns vék Kristján að umdæmisráðinu fyrir Rótarý á Íslandi, sem skipað er sjö mönnum.  Ásamt umdæmisstjóra eru það tilnefndur umdæmisstjóri og verðandi, ásamt fjórum umdæmisstjórum sem síðast voru í embætti.  Nýr umdæmisstjóri hefur því starfað í tvö ár í umdæmisráðinu, þegar hann tekur við embætti. Þar öðlast hann stjórnunarlega þekkingu á viðfangsefnunum og fræðist  af forverum sínum.
„Ég veit að Björn er algjörlega tilbúinn að taka við þessu merka og góða hlutverki,“ sagði Kristján í lok ávarpsins.
Því næst brá Kristján forsetakeðju Rótarý um háls Björns B. Jónssonar, sem þar með hafði tekið við embætti umdæmisstjóra Rótarý á Íslandi 2013-14. Björn tók því næst til máls og sagði m.a.:
„Þakka þér fyrir Kristján þessi góðu orð. Þau verða mér hvatning á mínu starfsári.
Þið Halldóra hafið lagt mikið til Rótarýhreyfingarinnar með ykkar framlagi. Það hefur verið erilsamt fyrir ykkur að sækja starfið búandi langt frá öðrum klúbbum. En ég veit með vissu að það kom ekki í veg fyrir að þið náðuð að skila fullkomnu starfi. Rótarýhreyfingin á ykkur mikið að þakka.
Um leið og ég fæ að næla í þig merki Kristján, fyrrverandi umdæmisstjóra, þá langar okkur Jóhönnu að færa ykkur hjónum skrautreyni sem tákn um ykkar umdæmisár. Hann er harðgerður, ber fallega krónu og blómstrar og ber ávöxt í óvenjulega skærum litum. Það á við ykkur líka. Þið plantið honum vonandi á þann stað sem þið getið heimsótt oft í framtíðinni og rifjað upp allar skemmtilegu stundirnar sem þið áttuð á árinu með rótarýfólki.
Ágætir rótarýfélagar og vinir í Rótarý.  Þakka ykkur öllum fyrir að vera með okkur í kvöld.
Einn lítill hlekkur, en traustur,  í einni elstu hreyfingu í heiminum, svokallaðra þjónustuklúbba, er kominn saman hér á Eyrabakka í yndislegu veðri og rótarýfélagar staðráðnir í og fullir eftirvæntingar að áfram skuli unnið að eflingu rótarýhugsjónarinnar á Íslandi. En  Rótarý var stofnað árið 1905 af lögfræðingnum Paul Harris. Til Íslands barst Rótarýhreyfingin árið 1934 þegar Rótarýklúbbur Reykjavíkur var stofnaður. Nú eru rótarýklúbbar á landinu 30 og félagar um 1200. Umdæmisráð 2012-2013.
Þegar ég stend hér, og frammi fyrir þeirri staðreynd, að mínar skyldur og ábyrgð næsta árið eru meiri en áður innan Rótarý, þá get ég ekki annað en viðurkennt að ég er stoltur  og um leið fullur tilhlökkunar. Ég er laus við allan kvíða, enda engin ástæða með heilan rótarýklúbb að baki og umdæmisráð sem er skipað miklum reynsluboltum, aðstoðarumdæmisstjórum, nefndum og ráðum, ásamt starfsmanni með áralanga reynslu.
Það er einstakt fyrir þann sem hér stendur að finna fyrir og vita af stuðningi félaga í  Rótarýklúbbi Selfoss.  Ég óska Garðari til hamingju með forsetaembættið og allri nýkjörinni stjórn einnig og um leið vil ég þakka Ragnheiði fyrir vel unnin störf. Það hefur verið gaman að finna fyrir samheldni klúbbsins í aðdraganda og undirbúningi Rótarýþings n.k. haust.  Stór partur af því að umdæmisstjóri geti sinnt sínu starfi vel er sú samheldni, kraftur og gleði sem er í klúbbnum og hann hefur sem veganesti til sinna starfa. 
Slagorð heimsforseta  Rótarýhreyfingarinnar Ron Burton, sem við vinnum eftir á þessu nýbyrjaða starfsári er - Virkjum Rótarý til betra lífs.“
Rúmlega 70 klúbbfélagar ásamt mökum og nokkrum öðrum gestum voru viðstaddir fundinn. Áður höfðu þau hjónin Björn B. Jónsson og eiginkona hans Jóhanna Róbertsdóttir boðið til móttöku á heimili sínu á Selfossi.


Björn Bjarndal Jónsson er fæddur í Neðri-Dal í Biskupstungum 16. janúar 1952, sonur hjónanna Aðalheiðar Guðmundsdóttur og Jóns Þ. Einarssonar.
Menntun: Búfræðingur frá Hvanneyri 1971.Garðyrkjufræðingur frá Garðyrkjuskóla ríkisins 1974. Skógarverkfræðingur frá Ekenäs Forstinstitut 1994. Stundaði fil.kand. nám í umhverfisfræði við Åbo Akademi 1994/1995.
Störf: Bóndi í Neðri-Dal  og síðan garðyrkjubóndi á Stöllum frá 1975 til 1991. Skógræktarráðunautur á Suðurlandi  1995 –1997. Framkvæmdastjóri Suðurlandsskóga frá 1997, auk þess í hlutastarfi framkvæmdastjóri Landssamtaka skógareigenda frá 2008. 
Nefndastörf: Fulltrúi Íslands í samtökum skógareigenda á Norðurlöndum - SNF - frá 2009. Seta í fagráði Mógilsár frá 2009.
Störf að félagsmálum: Formaður GBFUÁ í þrjú ár (Félag garðyrkjubænda í uppsveitum).  Formaður Héraðssambandsins Skarphéðins 1988 til 1990. Formaður Lionsklúbbsins Geysis. Formaður Umf. Biskupstungna. Varaformaður UMFÍ frá 1995 til 2001. Formaður UMFÍ frá 2001-2007. Formaður NSU ( Nordisk Samorganisasjon for Ungdomsarbeid) frá 1998 til 2002 og síðan fulltrúi Íslands í stjórn NSU frá 2002 til 2005. Forseti Rótarýklúbbs Selfoss 2008 til 2009.
Björn er kvæntur Jóhönnu Róbertsdóttur og eiga þau tvo syni og 4 barnabörn.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning